Menningarvika fór ekki fram 2020 og 2021 vegna Covid-19
Menningarvika í Grindavík 9. - 17. mars 2019
Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í ellefta sinn. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskrá vikunnar þar sem bæði heimamenn og gestir þeirra stíga á stokk.
Setning Menningarviku fer fram í Grindavíkurkirkju laugardaginn 9. mars kl. 17:00. Við það tilefni verða menningarverðlaun Grindavíkurbæjar afhent auk þess sem hinn nýstofnaði Kvennakór Grindavíkur syngur nokkur lög.
Fjöldi Grindvíkinga hefur unnið að viðburðum í tengslum við vikuna á undanförnum vikum. Má þar nefna nemendur í leik- og grunnskólum bæjarins sem setja upp sýningar í Kvikunni – auðlinda- og menningarhúsi Grindvíkinga. Þá setur Minja- og sögufélag Grindavíkur upp sýningu um skipsströnd og strandminjar í Kvennó auk þess sem sýndar verða myndir sem sendar voru inn í ljósmyndaleik grindavik.is fyrr í vetur í Framsóknarsalnum.
Auk áðurnefndra viðburða má nefna Kútmagakvöld Lionsklúbbs Grindavíkur, leiksýningarnar Rauðhettu og Sigvalda Kaldalóns, uppistand með Ara Eldjárn, heimsókn frá Maxímús Músíkús, opið hús í Bakka, fjölda tónleika og hina sívinsælu Listasmiðju barnanna.
Grindvíkingar eru hvattir til þess að nýta sér tækifærið og fjölmenna á menningarviðburðina. Menningarvikan er skipulögð af þeim Eggeri Sólberg Jónssyni, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs og Kristínu Maríu Birgisdóttur, upplýsinga- og markaðsfulltrúa. Hægt er að senda þeim póst varðandi hátíðina á eggert@grindavik.is og kristinmaria@grindavik.is
Mynd: Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, bæjarlistamaður Grindavíkur 2018.