Jóhann međ sýningu í Kvikunni

  • Fréttir
  • 22. maí 2012

Á næstu vikum verður sýning í Kvikunni sem ber yfirskriftina Sjávarvættir. Jóhann Dalberg Sverrisson sýnir þar listaverk unnin úr grjóti. Jóhann Dalberg Sverrisson er fæddur í Keflavík 30. janúar 1964. Hann er ekki alveg ókunnur í Grindavík þar sem segja má að hann hafi slitið amk. öðrum barnsskónum hér syðra.  

Hann byrjaði ungur að stunda sjóinn frá Grindavík og vann svo meðal annars við netagerð hér í bæ. Eftir að hafa þvælst um í Ástralíu í 6 ár tók við meiri sjósókn og netagerð meðal annara göfugra starfa en 2006 byrjaði hann að vinna í steinsmiðju í Hafnarfirði. Síðan hefur hann verið nær óslitið í steininum. Hart granítið með árhringjum sínum sem minna á mynstur í trjástofnum heillaði hann með styrk sínum og hörku. Hann fór að fikta við að móta steinana, brjóta þá undir vilja sinn og gera úr þeim fyrst kertastjaka og síðar skúlptúra og fígúrur minnugur þess að hafa sem 12 ára gutti í handavinnu í skólanum fengið spýtukubb í hendurnar til að móta og séð í honum myndform sem vildi komast út.

Sumarið 2011 hélt hann sýningu á gripum sínum á Þingeyri við Dýrafjörð og við það tækifæri var honum gefinn steinn af öðrum steinaáhugamanni sem fundist hafði í fjöru við Dýrafjörð. Steinn þessi reyndist líka vera granít en sú bergtegund finnst ekki í fjöllum hér á landi jafnvel ekki á Vestfjörðum þar sem elsta berg landsins er að finna. Steinarnir reyndust vera fleiri og það er forvitnilegt að vita hvernig þeir enduðu í hafinu í Dýrafirði. Ferðalag þessara steina hefur að öllum líkindum hafist í Gloucester Massachusetts á seinni hluta 18. aldar með amerískum lúðuveiðiskipum og þjónað sínu hlutverki sem ballest í skipunum á leiðinni yfir hafið. En í Gloucester var mikil granítvinnsla á þessum tíma.

Þessir steinar reyndust heldur betur hafa sögu að segja og þegar byrjað var að snerta við þeim ruddust út hinar ýmsu verur og vættir og þannig varð til röð verka sem Jóhann kallar sjávarvætti. Ef rýnt er í steinana má sjá að í hverjum steini leynast fleiri en ein og fleiri en tvær sýnir, týndar sálir, forynjur, skrýmsli, sjóarar, sjófuglar eða ljúfar meyjar. Allt eftir því hvert sjónarhornið er og kanski líka hver horfir og hvað býr í brjósti áhorfandans.


Deildu ţessari frétt