Lokahóf körfuknattleiksdeildar nýkrýndra Íslandsmeistara Grindavíkur verður á morgun, laugardaginn 5. maí og verður það með allt öðru sniði en áður. Slegið verður upp mikill sigurhátíð í Kvikunni og verður þetta „standandi og minglandi sigurpartý," líkt og Jón Gauti Dagbjartsson, stjórnarmaður í körfuboltanum komst að orði.
Gert er ráð fyrir um 200 manns og fara 80 miðar í almenna sölu. Hægt er að kaupa miðana í versluninni Palómu og kostar miðinn aðeins 2.500 kr. Húsið opnar kl. 19 og matur hefst kl. 20:00.
„Við ætlum að heilgrilla sex lambaskrokka, þarna verða skemmtiatriði eins og Raggi Bjarna og fleiri og svo verðlaunaafhendingar en ræðuhöld verða í algjöru lágmarki. Þarna verða auðvitað borð og stólar fyrir þá sem vilja setjast en veðurspáin er góð og við höfum pallinn með þessu frábæra útsýni yfir höfnina. Veislustjóri verður Jón Björn, ritstjóri vefsins karfan.is. Við viljum einfaldlega fara nýja leið í þessu og hvetjum okkar frábæru stuðningsmenn til þess að mæta og taka þátt í sigurgleðinni með okkur," sagði Jón Gauti.
Eftir kl. 22:00 er svo öllum velkomið að koma við í Kvikunni til að fá smjörþefinn af sigurhátíðinni. Síðan fara allir á ball á Salthúsinu með Eyjahljómsveitinni vinsælu Dans á rósum og er miðaverð á ballið 1.500 kr.
„Í körfuboltanum er það þannig að við vitum aldrei hvenær henni lýkur og því er erfitt að skipuleggja lokahóf með miklum fyrirvara. En þar sem við fögnum núna Íslandsmeistaratitli eftir allt of langa bið er ærin ástæða til þess að koma og taka þátt í sigurhátíðinni, við viljum sjá sem flesta í Kvikunni en viljum um leið hafa þetta létt og skemmtilegt þannig að fólk geti spjallað saman og haft það hugguglegt, fá að strjúka bikarnum góða og kyssa leikmennina, og kannski stjórnarmennina líka. Þetta á bara að vera gaman," sagði Jón Gauti léttur að lokum.