Skjaldarmerki Grindavíkurbæjar var tekið í notkun 1986 og er hannað af Kristínu Þorkelsdóttur. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkur var Auglýsingastofa Kristínar (AUK) falið það verkefni að draga upp tillögu að skjaldarmerki fyrir Grindavík.
Nefnd var kjörin af hálfu bæjarstjórnarinnar til að vinna með auglýsingastofunni að þessari tillögugerð. Í nefndinni voru Eiríkur Alexanderson, Margrét Gísladóttir og Ólína Ragnarsdóttir.
Nefndin hélt nokkra fundi með Kristínu Þorkelsdóttur og fékk nokkrar tillögur að skjaldarmerki til umfjöllunar. Nefndin var sammála um að leggja til að skjaldarmerki Grindavíkur verði svartur geithafur með gul horn og rauðar klaufir á bláum og hvítum grunni.
Í greinargerð segir að hugmyndin að merkinu varð til hjá starfsfólki AUK við lestur kafla um Grindavík í bókinni Landið þitt, en þar segir m.a.:
„Í landnámabók segir að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans námu land í Grindavík. Þar segir svo: „Þeir voru fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi. Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur, síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sáu ófreskir menn, að landvættar allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar."
Svo sem ráða má af frásögn Landnámabókar hefur fólkið í þessari byggð frá öndverðu reist afkomu sína bæði á landbúnaði og fiskveiðum og hélst svo fram yfir miðjan 5. áratug þessarar aldar. Síðan hafa fiskveiðarnar og fiskvinnslan unnið á í atvinnulífinu en dregið hefur úr landbúnaði að sama skapi. Hann var þó umtalsverður fyrrum og er sagt frá því að árið 1779 fengu Grindvíkingar verðlaun frá Danakonungi fyrir garðyrkju og hlutu 14 bændur."
Fram kemur að nefndin er þeirrar skoðunar að merkið sé ágætlega táknrænt fyrir þá byggð sem því er ætlað að þjóna og það mannlíf sem þar er lifað.
,,Blár litur hafsins í grunni með hvítum ölduföldum er sá grundvallarveruleiki, sem Grindavík byggist á, en hafurinn er tákn þeirrar frjósemi og búhygginda, sem skila Grindvíkingum til þroska og þróunar í fortíð, nútíð og framtíð. Þeir sem vilja, mega gjarnan láta hvítar rendurnar í grunni vísa til fyrri hluta nafnsins Grindavík. Merkið er fallegt og sterkt í formi og eftirminnilegt við fyrstu sýn, og í sparibúningi sínum í lit gleður það augað," segir í greinargerð nefndarinnar, frá 5. desember 1986.
Samkvæmt stöðlum Grindavíkurbæjar eru litirnir í merkinu eftirfarandi miðað við prentun (CMYK):
> Blár: C=100, M=50
> Rauður: M=100, Y=100
> Gulur M=20, Y=100
Letrið í nafni Grindavíkur skal vera af tegundinni Rotis Semi Serif Bold.