Laugardaginn síðast liðinn fór um 50 manna hópur í skipulaggða ferð í Húshólma
í Ögmundarhrauni undir leiðsögn Ómars Smára Ómarssonar, eftirfarandi er frétt
og fróðleikur frá ferðinniFERLIR-876: Húshólmi
|
|
Áning
Áning við hinn forna stíg
|
| |
Í tilefni af útgáfu á Húshólmaritinu bauð Ferðamálafélag Grindavíkur áhugasömum
íbúum Grindavíkur og öðrum landsmönnum í Húshólmagöngu laugardaginn 23. júlí s.l.
(2005). Áhugasamir mættu annaðhvort við bæjarskrifstofuna (við verslunarmiðstöðina)
í Grindavík kl. 13:00 og þáðu rútuferð á staðinn í boði Ferðamálafélags Grindavíkur
eða mættu á Ísólfsskálavegi undir Krýsuvíkur-Mælifelli kl 13:30.
Ekið var að og gengið niður í Húshólma undir leiðsögn og hinar fornu minjar skoðaðar.
Gangan, sem varði í 3 klst og 33 mín (fram og til baka), var róleg og tiltölulega
auðveld. Fólk var hvatt til að taka með sér nesti og búa sig eftir veðri. Því
var lofað að ferðin myndi verða eftirminnileg. Léttleikinn var í fyrirrúmi og
fornmaður einn, sem lokaðist inni í Húshólmanum þegar Ögmundarhraun brann árið
1151, var á vappi í rústunum. Hann lýsti aðstæðum fyrrum sem og þegar hraunið
rann og bað um skilaboð til fólks, sem vildi sækja Húshólma heim.
Gengið var suður gamlan stíg um Ögmundarhraun neðan við Krýsuvíkur-Mælifell.
Stígur þessi hefur ekki verið genginn lengi, en nú ruddi hópur brautryðjenda slóðina
að nýju svo hún var greinilegri en áður. Nú ætti að vera tiltölulega auðvelt að
fylgja henni frá þjóðveginum niður í Húshólma.
|
|
Fornmaður
lá í einni rústinni við Húshólma - og reis við dogg
|
| |
Gatan liggur um tiltölulega slétt hraun, milli úfinna apalhrauna. Fara þarf yfir
tvö stutt úfin hraunhöft á leiðinni. Gengið var framhjá Mælifellsgrenjunum (miðsvæðis
á vinstri hönd), en við þau eru hlaðnar vörður og byrgi refaskyttna. Efri byrgin
eru sérlega falleg og heilleg. Þau eru gegnt vörðu á hraunbrún í austri.
Skammt frá neðri grenjunum er fornt arnarhreiður á háum hraunhól á hægri hönd.
Þegar komið var neður í hraunið sást vel hversu hátt hóllinn stendur og hreiðrið
blasir við víðast hvar úr hrauninu. Græn gróðurtorfan er áberandi í annars gráu
gamburmosahrauninu.
Þegar komið var niður fyrir neðra hraunhaftið tók við nokkuð slétt mosahraun.
Þar þurfti að venda til austurs og ganga upp á apalhraunsbrúnina, en yfir hana
liggur grófur stígur tiltölulega stutta vegarlengd. Þá er komið inn í efstu gróðurtorfu
Húshólma. Hægt er að fylgja stíg áfram til austurs og síðan suðausturs inn í hólmann,
en hann er þakin þykkum mosa og því ógreiðfær. Ótrúlega blómleg gróðurflóra hefur
myndast í hólmanum á tiltölulega stuttum tíma. Hvönn er t.d. að festa þar rætur,
mikið er um blágresi og brönugras.
Vesturbrún hólmans var fylgt til suðurs, að fjárborginni ofarlega í honum. Þar
var lýst nýtingu og fjölda fjárborga á Reykjanesskaganum, fjárskjóla, selja og
nýtingu þeirra fyrrum.
|
|
Fornmaður
og áhorfendur í Kirkjulág við Húshólma
|
| |
Haldið var áfram til suðurs, að fornum garði, sem liggur til austurs undan hraunbrúninni
og beygir síðan til suðurs og suðvesturs. Sunnan hans er annar garður er liggur
í svipaða stefnu, innan megingarðsins. Þá var haldið inn í Ögmundarhraun eftir
stíg til austurs uns komið var að nyrstu rústinni, þeirri sem er algerlaga hraunoprin.
Í henni miðri lá fornmaður.
Þegar byrjað var að velta við hraunhellum og sýna stoðholur í rústinni reis fornmaðurinn
upp og rakti sögu staðarins, allt frá tímum hins heilaga Brendans og þeirra írsku
munka er þarna reyndu að festa rætur við fagra vík, þeirra er fundu brunninn heilaga
(Saint Kylda), og er síðar komu, en héldu saltan þótt hann skilaði fersku vatni
á fjöru (afsakið, en tungumálið hefur breyst nokkuð frá því sem var). Þá lýsti
hann og ófriði þeirra norsku manna, er síðar komu, á hendur þeim. Þar hafi fremstur
í flokki verið Ingálvur nokkur er vanfeðraður var og bjó við Reykjavík í norðri.
Annar norskur maður, Molda-Gnúpur og hans hyski, hafi haft ófrið við þá í vestri,
og síðan bættist enn annar, Suðureyjamaður og enn verri, við í austri, Þórir er
kenndur var við hið versta, haustið.
Fornmaðurinn lýsti staðháttum við hina grunnu vík, er kennd var við logg og nefnd
var Krýsa; fiskur nægur útifyrir og fugl í fjöru, fé á landi og friður með mönnum,
í fyrstu. Þegar um átta hundruð árum og sjö tygum betur eftir fæðingu Kristus,
hafi ásýnd með mönnum breyst þá er hinir heiðnu Norvegsmenn komu með ófriði. Ari,
sá er kenndur var við fróðleik, hafi tekið bækur heimamanna, þótt norskir hafi
ekki kunnað lestur á latínu, og breytt forskrift sögunnar í sinni lýsingu þá er
gjörð var fyrir valdið. Minjarnar í Húshólma og í hrauninu er brann ætti hins
vegar að segja hina réttu sögu ef vel væri lesið.
|
|
Kirkjulág
Yfirlit rústanna
|
| |
Þá er eldar komu upp efra og himininn brann flúði fólkið við víkina Krýsu (grunn
skora) hvert sem betur gat, ýmist til austurs eða á skip, en til vesturs, út í
óvissuna þorði það ei, þar sem fyrir voru afkomendur Moldans-Gnúps, þess er hamaðist
sem mannýgt naut.
Sjálfur hafi hann ákveðið að verða um kyrrt og skylja hvorki við sig bústað né
brynju (sverð). Þá vörn vildi hann öngvum manni eftir gjöva. Þess vegna væri hann
enn á vappi í rústum þeim, er sögðu hefðu að segja.
Bað fornmaðurinn fólk fara með friði, hvatti það til að koma aftur til að vita
hins forna staðar og lagðist til hvílu í hinni fornu rúst.
Fornmaðurinn var leikinn af Erlingi Kristjánssyni, en næstur tók til máls bæjarstjórinn
í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, sem leikinn var af honum sjálfum.
Ólafur Örn þakkaði þátttakendum áhugann, benti á Húshólmarit Ferðamálafélagsins
og kvað það viðleitni til að vekja athygli fólks á hinum merku minjum, sem umdæmi
Grindavíkur hefur að geyma.
|
|
Fornmaðurinn
stóð sig frábærlega
|
| |
Bæjarstjórn sagðist hafa haft áhuga á að láta rannsaka rústirnar við Húshólma,
en fengið dræmar undirtektir Fornleifaverndar ríksins, hingað til að minnsta kosti.
Þar gæti vonandi orðið breyting á. Hvatti hann göngufólk til að nýta sér hinar
sögulegu minjar, sem Grindavík hefur upp á að bjóða, sem sumar hverjar þykja einstakar,
jafnvel á heimsvísu.
Gengið var um Kirkjulág, lýst var hinum einstöku minjum, bæði görðum og híbýlum.
Kirkjurústinni var gefinn sérstakur gaumur.
Þá var gengið um Kirkjustíg yfir á Kirkjuflöt og garðurinn og hinn meinti grafreitur,
sporöskjulaga, skoðaður.
Loks var gengið upp Húshólma og upp á Húshólmastíg, sem fetaður var til austurs
yfir Ögmundarhraun. Þegar gengið var um efri hluta hólmans kom vel í ljós árangur
uppgræðslunnar, sem FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í með fulltrúa Landgræðslunnar
fyrir u.þ.b. mánuði síðan. Grænni slykju sló nú á möldarbörðin. Áætluð er önnur
landgræðsluferð niður í Húshólma einhverja kvöldstundina fljótlega. Áhugasamir
geta skráð sig á ferlir@ferlir.is.
Þá geta og þeir, sem áhuga hafa á gagnmerkri leiðsögn um Grindavíkurumdæmi, sent
inn óskir þess efnis á sama netfang; ferlir@ferlir.is.
FERLIR vill þakka Ferðamálafélgi Grindavíkur, þátttakendum, bæjarstóranum sem
og "fornmanninum" fyrir þeirra framlag til að gera þessa ferð eftirminnilega.
Frábært veður.