Áhugaverđir stađir

  • Ferđaţjónustan
  • 17. mars 2009

Gamla Kirkjan
Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina.

 

 

Eldey
Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í eldsumbrotum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanestá
Skemmtilegur staður til að stoppa á og skoða fuglalífið. Reykjanesvitinn er í nágrenni og alltaf gaman að ganga uppá Valahnúk

Elsti vitinn
Á Valahnúki á Reykjanesi var 1. desember 1878 tekinn í notkun fyrsti viti landsins. Hann var byggður á bjargbrúninni 43 m. y.s.m. og var úr höggnu grjóti. Hann skemmdist nokkrum árum síðar í jarðskjálfta og var endurnýjaður árið 1897. Núverandi viti var svo byggður á Bæjarfelli 1907-1908 í 73 m. y.s.m. Umhverfi vitans er sérkennilegt og þar er margt að sjá. Fyrir innan sjávarkambinn sunnan við vitann er Reykjanestjörn en í henni gætir sjávarfalla. Hvorki er aðrennsli né frárennsli á yfirborði en sjá má hvar vatn streymir upp úr botni hennar í nokkurs konar uppsprettum. Við tjörnina er einnig Valbjargargjá, sem er volg, en þar var sundkennsla Grindvíkinga um nokkurra ára skeið fyrr á öldinni. Undan ströndinni er móbergsdrangurinn Karl, 52 m. hár.

Stórabót
Gott útivistarsvæði í Grindavík. Áður fyrr háðu Grindavíkingar, Þjóðverjar, Njarðvíkingar, Hafnfirðingar og menn frá Básendum orrustu við Englendinga hérna og báru sigur af hólmi. Englendingarnir voru með virki á þessum stað sem en má sjá merki um. Vorið 2009 var tekið í notkun söguskilti í Stórubót.
Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að ganga í fallegri náttúru.

 

 

Bláa Lónið
Bláa Lónið er í dag orðinn einn af fjölsóttustu og vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Lónið stendur við hlið orkuversins sem sér íbúum nágrannabyggðarlaganna fyrir heitu vatni til upphitunar húsa. Bláa Lónið varð til við að 70 gráðu heitum jarðsjó sem var affall orkuversins var dælt út á hraunið. Hin ríka steinefnasamsetning jarðvökvans þétti hraunið og lónið myndaðist. En þetta mikla magn steinefna í jarðvökvanum kemur í veg fyrir að hægt sé að nota hann beint til upphitunar mannvirkja, vegna harðra útfellinga sem myndast við kólnun vökvans og setjast í leiðslur og stífla þær á skömmum tíma. Þetta vandamál var leyst með því að kalt vatn sem dælt er til verksmiðjunnar frá stað sem er einungis 5 km í burtu er hitað upp með notkun varmans úr jarðvökvanum sem er allt að 260 gráðu heitur í borholunum, ásamt því að nota gufuna, svokölluð varmaskiptaaðferð, þannig að við dælingu ferskvatnsins sem náð hefur 125 gráðu hita þegar því er dælt frá orkuverinu er vandamálið ekki lengur til staðar. Einnig er gufan notuð til raforkuframleiðslu með gufuhverflum.

Höfnin
Höfnin í Grindavík er ein stærsta verstöð landsins. Höfnin er staðsett inn í Hópi en Rifið sem áður hindraði bátgengd inn í Hópið var grafið í sundur af atorkusömum Grindvíkingum árið 1939, með handverkfærum eins og hjólbörum, skóflum og járnkörlum. Fjölda mynda frá þessum tíma er að finna á Veitingastaðnum Vör. Höfnin er lífæð Grindavíkur.

Sólarvé
Sólarvé eftir Tryggva Hansen ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem ferðast um Reykjanesið. Höfundur verksins er heiðinn maður og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allt Reykjanesið, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku.

Þorbjörn
Fjallið er á Reykjanesi, skammt frá Grindavík, og með sigdal á toppnum. Þorbjörn er myndaður á síðasta kuldaskeiði ísaldar, eins og flest önnur fjöll á Reykjanesi.

Árnastígur
Frá Fitjum í Njarðvík liggur forna þjóðleiðin Skipsstígur til Grindavíkur. Vörður hafa fallið á fyrri hluta leiðarinnar en eru mjög greinilegar frá Stapafelli til Grindavíkur og Húsatófta (Árnastígur). Áætlaður göngutími er u.þ.b. 5 klst.

 

 

Reykjanesviti
Fyrsti vitinn í eigu hins opinbera, tekinn í notkun 1. desember 1878. Í yfir þúsund ár fóru siglingar fram milli Evrópu, Grænlands, Vínlands og Íslands, án þess að nokkrar leiðbeiningar væru gefnar til sjómanna frá landi. Tilkoma Reykjanesvita og uppbygging vitakerfisins í kjölfarið var því mjög þýðingarmikill þáttur í sögu eyþjóðar. Vitarnir gerðu sjófarendum kleift að sækja sjóinn utan bjartasta tíma ársins. Reykjanesviti var löngum talinn aðalviti landsins. Fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson. Vitinn var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði skemmst í jarðskjálftum. Nýr viti var byggður á árunum 1907-1908 á Vatnsfelli. Þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita, sem er 73 metra yfir sjávarmáli.


Gunnuhver
Rétt austan við Reykjanesvita er eitt af mörgum jarðhitasvæðum á Reykjanesi. Gunnuhver er þekktasti hverinn þar. Hann dregur nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til Eiríkur Magnússon, prestur í Vogsósum, tókst að koma draugnum í burtu með því að senda hana í hverinn.

Húsatóftir
Gömul verstöð, var aðal lífæð til og frá Grindavík. Má en sjá gamlar rústir sem áhugavert er að skoða, þarf að gæta sín að verða ekki fyrir golfbolta þar sem þetta er golfvöllur Grindavíkinga í dag. 

 

 

Brimketill
Skemmtileg grjótarmyndum í sjávarborðinu, lítur út eins og heitur pottur á sólríkum degi, talið er að tröllskessa hafa komið þangað oft og títt til að baða sig.

Þórkötlustaðarnes
Eina nesið á landinu sem heitir 2 nöfnum. Hér má sjá gamlar rústir af fiskverkunarhúsum og gömlu bryggjuna sem Grindavíkingar notuðu áður en þeir grófu út nýja höfn vestan meginn í nesið árið 1939.

 

 

Eldvörp
Gígaröð norðvestur af Grindavík. Eru þar gígar stórir og verulegur jarðhiti í einum gígnum og umhverfis hann. Þar er gufuuppstreymi og hefur verið mældur þar um 80° C hiti. Á árunum 2003 og 2004 var boraður fjöldi holna til að kanna afköst svæðisins í grennd við gígaröðina Stampa, yzt á Reykjanesi, og árið 2004 var afráðið að reisa þar orkuver í tenglsum við stækkun verksmiðju Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði. Þátttakendur í þessu verkefni voru Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur.

 

 

 

 

Prestastígur
Prestastígur er gömul þjóðleið sem var gengin á milli Hafna og Grindavíkur leiðin er vel vörðuð alla leið. Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi, sú skýring er þó líkleg að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.
Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Sataðarhverfi.

Reykjavegur
Gönguleiðin Reykjavegur skiptist í nokkra áfanga, sem auðvelt er að bæta við. Þessir áfangar hefjast við Reykjanesvita og enda á Nesjavöllum eða bæta við leiðinni til Þingvalla og lengra ef vill. Það er hægt að ganga hvern áfanga á einum degi og láta sækja sig að honum loknum eða láta fyrirberast í tjaldi eða undir þaki, þar sem því verður við komið. Víðast eru leiðirnar merktar með bláum stikum og bent er á afleiðir til áhugaverðra staða eða nærliggjandi bæja. Leiðirnar liggja um mólendi, mosagróin hraun, sand og mela. Þetta mun vera ein lengsta merkta gönguleið landsins og á áfangastöðum á að vera aðgangur að fersku vatni og salerni a.m.k. Þó verður að gæta þess, að við Höfða, skammt frá Fagradalsfjalli er engin slík aðstaða. Þar verður að nota neyzluvatn, sem fólk ber á sér sjálft. Göngubúnaður á þessari leið þarf að vera góður og göngufólk fylgir vitaskuld leiðbeiningum Náttúruverndarráðs út í yztu æsar.

Skógfellsvegur
Best er að hefja ferðina um Skógfellaveginn rétt ofan Reykjanesbrautar í dældinni fyrir ofan spennistöðina við Stapahornið. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar, en hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhóp á Suðurnesjum.

Nýjaselsbjalli heitir grágrýtisholt stuttu ofar en um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til Norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu. Nokkrar gjár eru á leiðinni en þær eru auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til strandar.

Skemmtileg 15km löng gönguleið sem hefur leið sína hjá Selatöngum, fer hjá Borgarfjalli og Fagradalsfjalli og tengist við Skógfellstígin sem liggur að Snorrastaðartjörnum.

Hópneshringur - Skipsflök
Gönguleið sem fáir ættu að láta fram hjá sér fara. Hægt er að gagna þessa leið fara á hestbaki eða jafnvel keyra leiðina. Hópneshringurinn er einn hringur um Hópnesi en það er eina nesið á landinu sem heitir 2 nöfnum, en það er Hópsnes vestan meginn og Þórkötlustaðarnes hægra meginn. Á leiðinni má sjá kraft úthafsins sem hefur þeytt skipum upp á þurrt land sem strönduðu við Hópsnesið. Gönguleið sem tekur um 1 klukkustund.

Vigdísarvellir
Skemmtilegt útivistarsvæði sem hægt er að tjalda og njóta náttúrunnar. Nálægð við Reykjaveginn og Krísuvíkurkirkju.

 

 

Hópnesviti
Vitinn var byggður árið 1928 úr steinsteypu. Benedikt Jónasson verkfræðingur hannaði vitann. Ljóshæð vitans yfir sjávarmáli er 16 metrar en vitahæðin sjálf er 8,7 metrar. Hópsnesviti var rafvæddur árið 1961 og ljósavél höfð til vara.

 

 

 

 

 

Selatangar
Selatangar eru forn verstöð, sennilegast notuð þegar á miðöldum. Reru héðan meðal annarra skip Skálholtsstóls. Síðast var róið héðan 1884. Þó var oft lent hér síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum. Hér sjást miklar rústir verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem sjóbúðir eða byrgi. Vestan við Selatanga er hellir sem hafður var til elda-mennsku. Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas á síðustu öld, svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð.

Óbrennishólmi
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því. Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga.   

Kleifarvatn
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði er tíðum ágæt. Besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið.Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Þar er líka lítið veiðihús. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið hefur lækkað mikið.
Vegalengdin frá Reykjavík er 34 km.

Krísuvíkurberg
Stórbrotinn útsýnisstaður 15 km langt, ofan bergsins eru minjar og tóftir suaðfjárbúskapar frá Krísuvíkurbæjunum. Sagan segir að Tyrkir komu upp Ræningjastíg, hittu fyrir seljastúlkur í Krísuvíkurseli en eltu smalann til bæjar og voru drepnir á Ræningjahól sunnan við Krísuvíkurkirkju.

Arnarsetur
Eldvörp rétt austan vegarins til Grindavíkur, suður af Vogastapa. Er yngsta hraunið á því svæði runnið þaðan en eldvarpið sjálft er dyngja. Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR