Saga Grindavíkur

  • Ferđaţjónustan
  • 8. febrúar 2018

Textinn hér að neðan er að mestu unninn uppúr bókunum Saga Grindavíkur, en Minja- og sögufélag Grindavíkur hefur þær bækur til sölu fyrir áhugasama. Ítarefni um sögu Grindavíkur, náttúru og aðrar minjar má finna á glæsilegri vefsíðu FERLIRs.

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkir Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám Grindavíkur nákvæmlega en talið að Gnúpur, eða ættmenn hans, hafi komið til Grindavíkur á fjórða tug 10.aldar og líklega valið sér vetursetu í námunda við Hópið.

Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Engar óyggjandi heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703 en það ár voru íbúar 214 á 33 heimilum. Fólki fækkaði verulega á næstu árum vegna stóru bólu og ýmissa harðinda.

Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir" rændu en líklega voru þeir um 12.

Grindavíkurland þótti ákaflega hrjóstrugt og grýtt og gerði vatnsleysi mörgum erfitt fyrir. Náttúruöflin léku bændur í Grindavíkurhreppi oft á tíðum grátt. Grindvíkingar voru drjúgir með aðdrætti af lyngi og hrísi til heydrýginda og þannig gátu bændur að nokkru bætt sér upp grasleysi og skort á góðum bithögum. Bændur gáfu kúnum söl, sem dæmi. Seljabúskapur skipti miklu fyrir afkomu fólksins í sveitinni en talið að hann hafi verið stundaður frá miðöldum, jafnvel allt frá landnámsöld. Örnefni í Grindavíkurhreppi er benda til selfara eru vafalaust ævaforn. Fjörunytjar voru góð búbót eins og sölvi, þang, fjörugrös ýmiss konar er nýtt voru til manneldis og skepnufóðurs, marhálmur, slý, skelfiskur, fjörumaðkur, hrognkelsi í pollum, sel í látrum o.fl.

En Grindavík var fyrst og fremst verstöð, sjávarútvegur hefur lengstum verið höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga sem smíðuðu báta af rekaviði fram yfir 1500. Einkum var róið til fiskjar til að afla soðmetis. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900 en þá voru íbúar 357 talsins. Þá tók fólki Grindavík að fjölga, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast, akfærir vegir voru lagðir til Grindavíkur, fólkið fór að stofna félög og samtök til að létta sér lífsbaráttuna og átökin við náttúruöflin. Dugmiklir aðilar réðust í framkvæmdir sem skiptu sköpum fyrir þróun byggðarlagsins, atvinnulífið tók kipp, fólkinu fjölgaði enn meira, enn fleiri hús voru reist og ýmiss konar nútímaþægindi urðu sjálfsögðu. Nú er risinn í Grindavík myndarlegur bær sem eftir er tekið.

Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga,um 50 km frá Reykjavík. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláa lónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 - 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári.

Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík. Hér eru nokkur veitingahús, gistihús, hótel og glænýtt fjögurra stjörnu tjaldstæði, góð útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarmiðstöð, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er fjórhjólaævintýri, eldfjallaferðir, hestaleiga, silungsveiði, góður 13 holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi við sjóinn. Hægt er að fara í sjóstangaveiði eða útsýnissiglingu. Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Kvikan, auðlinda- og menningarhús Grindavíkur, er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina sem og sögu jarðorkunnar, svo eitthvað sé nefnt.

 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR