Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Grindavíkurbæjar
1.gr.
Frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar veitir listamanni í Grindavíkurbæ nafnbótina ,,Bæjarlistamaður Grindavíkurbæjar", ásamt styrk til eins árs. Listamenn sem eru, eða hafa verið búsettir í Grindavík, koma til greina. Listamenn sem ekki eru með lögheimili í Grindavík þurfa að tengjast bæjarfélaginu með einhverjum hætti. Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi. Bæjarlistamaður Grindavíkur er tilnefndur annað hvert ár, líkt og Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar en þessi tvenn menningarverðlaun eru afhent til skiptis. Sér reglugerð gildir fyrir menningarverðlaunin.
2. gr.
Styrkurinn skal vera ákveðin upphæð á ári samkvæmt fjárhagsáætlun.
3. gr.
Frístunda- og menningarnefnd auglýsir eftir umsóknum og/eða óskar eftir rökstuddum ábendingum um bæjarlistamann, en er þó ekki bundin af því. Auglýst skal í einu blaði/dreifibréfi og á heimasíðu Grindavíkurbæjar fyrir 20. janúar ár hvert. Ákvörðun um bæjarlistamann er tekin af frístunda- og menningarnefnd.
4. gr.
Frístunda- og menningarnefnd áskilur sér rétt til að listamaðurinn leyfi Grindvíkingum að njóta listar sinnar a.m.k. einu sinni á því ári sem hann ber nafnbótina bænum að kostnaðarlausu. T.d. með sýningar- eða tónleikahaldi, samstarfi við félög bæjarins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn sem koma fram í Grindavík. Frístunda- og menningarnefnd útvegar viðeigandi húsnæði til listviðburðarins ef þörf er á. Í lok árs skal bæjarlistamaður gera menningarnefnd stuttlega grein fyrir því á hvern hátt Grindvíkingar hafa notið listar hans á því ári sem er að líða.
5.gr.
Bæjarlistamaður er tilnefndur við setningu menningarviku í mars annað hvert ár og starfar sem bæjarlistamaður út almanksárið eftir að hann er tilnefndur. Frístunda- og menningarnefnd mælist til þess að „Bæjarlistamaður Grindavíkurbæjar" láti nafnbótina koma fram sem víðast.
6. gr.
Gera skal skriflegan samning við bæjarlistamann.
7. gr.
Reglur þessar voru samþykktar í bæjarstjórn 24. febrúar 2014.