Reglur um Menningarverðlaun Grindavíkur
1. Menningar- og bókasafnsnefnd Grindavíkur veitir árlega viðurkenningu; Menningarverðlaun Grindavíkur - Bótin. Verðlaunin skulu veitt í menningarviku bæjarins sem haldin er í mars ár hvert.
2. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.
3. Verðlaunin eru í formi sérstaks verðlaunagrips og heiðursskjals, sem bæjarstjóri og formaður nefndarinnar undirrita.
4. Veita má fleirum en einum aðila menningarverðlaun í hvert sinn, telji menningarmálanefnd að fleiri en einn hafi skarað fram úr og þannig verðskuldað verðlaunin það ár. Á sama hátt má fella niður verðlaunaveitingu komist nefndin að þeirri niðurstöðu að enginn aðili hafi unnið til þeirra.
5. Óskað skal eftir tilnefningum með auglýsingum í staðarblöðum og á heimasíðu bæjarins í byrjun hvers árs. Tilnefningum skal komið til Frístunda- og menningarfulltrúa fyrir 10. febrúar.
6. Einstaklingar, félög og stofnanir með lögheimili í Grindavík eiga rétt á því að senda inn tilnefningar.
7. Menningar- og bókasafnsnefnd skal leitast við að komast að einróma niðurstöðu um veitingu verðlaunanna.
Reglur þessar samþykktar á fundi menningar- og bókasafnsnefndar þann 7. desember 2009.
Samþykkt af bæjarráði Grindavíkur þann 16. desember 2009.
Samþykkt af bæjarstjórn Grindavíkur þann 20. janúar 2010.