Málefnasamningur

  • Grindavíkurbćr
  • 8. júní 2022

Málefnasamningur D-, B- og U-lista kjörtímabilið 2022-2026 

Kjörnir fulltrúar Framsóknar (B), Sjálfstæðisflokks (D) og Raddar unga fólksins (U) munu vinna sem ein heild og starfa saman í vinnu sinni fyrir Grindavíkurbæ. 
Áhersla verður lögð á að allir kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn séu vel upplýstir um mál sem koma til umfjöllunar og eða afgreiðslu áður en ákvarðanir eru teknar. 

Uppbygging framundan 
Grindavíkurbær er í örum vexti með uppbyggingu í Hlíðarhverfinu sem verður nýjasta hverfi okkar Grindavíkinga. Rekstur bæjarfélagsins hefur gengið vel og eiginfjárstaða góð, samkvæmt áætlun munu þau metnaðarfullu verkefni sem eru í vinnslu nota þá fjármuni sem bæjarfélagið á. 

Það er fyrirséð að þó nokkur fólksfjölgun muni verða samhliða uppbyggingu Hlíðarhverfis og því nauðsynlegt að styðja við uppbyggingu innviða og þjónustustigs í Grindavík í samræmi við íbúafjölda. Þó þarf einnig að tryggja trausta fjármálastjórn og reyna að halda kostnaði á íbúa í lágmarki. 
Nýr meirihluti Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Raddar unga fólksins mun leiða metnaðarfull verkefni á næstu árum í góðu samstarfi við minnihluta og íbúa Grindavíkurbæjar. Grindavík er gott bæjarfélag, saman munum við hugsa til framtíðar og stefna hátt til að gera góðan bæ enn betri. 

Forgangsverkefni 
Meirihluti, B, D og U eru sammála um að þrýsta þurfi á: 
- Afhendingaröryggi rafmagns og hringtengja Grindavíkurbæ. 
- Öryggi vatnsbóla og að vatnsvernd verði með besta móti í Grindavík. 
- Stjórnvöld varðandi Heilsugæslu og varnargarða. 

Jafnframt verði leitast við að innleiða nýjungar í stjórnsýslu sem miða að því að auka 
skilvirkni og efla þjónustustig. 

Verkefni sem eru á áætlun: 

Félagsaðstaða eldri borgara 
Verkefnið er í vinnslu og leggur meirihluti upp með gott samstarf við eldri borgara í þróun félagsaðstöðunnar og mótunar á tómstundastefnu. Markmiðið er að taka aðstöðuna í notkun fyrir lok árs 2024. 

Leikskóli í Hlíðarhverfi 
Nýr 6 deilda leikskóli, þar sem lagt er upp með að tryggja börnum aðgang frá 12 mánaða aldri, strax að loknu fæðingarorlofi. Verkefnið er tilbúið til útboðs og verður unnið í samræmi við eftirspurn. Stuðningur verður veittur til leikskólanna Króks og Lautar með innleiðingu ungbarnadeilda þar einnig. 

Gatnagerð í Hlíðarhverfi 
Verkefnið er í vinnslu og er skipulag nú áfangaskipt. Meirihluti er sammála að áfangaskiptingin taki mið af eftirspurn og verði úthlutað lóðum eftir henni. 

Viðhald eigna 
Meirihluti er sammála um mikilvægi þess að sinna viðhaldi eigna Grindavíkurbæjar til dæmis klæðning á Grunnskólanum við Ásabraut, viðhald leikvalla og íþróttamannvirkja. 

Fráveita Grindavíkurbæjar 
Verkefnið við fráveitumál bæjarfélagsins er í vinnslu og er áfangaskipt. Meirihluti er sammála um að halda þeirri vinnu áfram samkvæmt áætlun. 

Deiliskipulag íþróttasvæðis 
Verkefnið er í vinnslu og er nú þegar hafin stefnumótun við framtíðarskipulag íþróttasvæðisins ásamt grunnhönnun nýrrar sundlaugar. Meirihluti leggur upp með að skipulagið sé langtímaverkefni þar sem ný sundlaug sé í forgangi. Forgangsröðun verkefna verður unnin í samvinnu við UMFG til dæmis ákvörðun um gervigras, tengingu við Hópið, möguleika á frístundarstarfi og ungmennahúsi. 

Meirihluti er sammála að leggja til tímaáætlun verkefna næstu 4 ára 

Fyrri hluti kjörtímabilsins 
- Ráðning mannauðsstjóra - Markmið er stuðningur við starfsfólk Grindavíkurbæjar og bæting vinnuumhverfis sem skilar sér í bættri þjónustu til íbúa. 
- Í upphafi kjörtímabils verður farið yfir stjórnskipulagið með það að markmiði að stofna nýja nefnd um atvinnu - loftslagsmál og framkvæmdir sveitarfélagsins. 
- Ný vefsíða - Markmið er að tryggja upplýsingaflæði til íbúa og auðvelda íbúum að koma ábendingum áleiðis. 
- ,,Greið leið um Grindavík“ Aðgengismál - Markmið er að auka aðgengi hreyfihamlaðra í bæjarfélaginu. 
- Unnið verði að innleiðingu samþættrar þjónustu í þágu farsældar barna. 
- Yfirbygging á leikvelli - Markmið er útivera og afþreying fyrir börn. 
- Klifurveggur - Markmið er að auka framboð útileiktækja fyrir ungmenni. 
- Æfingagjöld UMFG- Markmið er að samræma æfingagjöld leikskólabarna og skólabarna 
- Unnin verður læsisstefna fyrir sveitarfélagið. 
- Leikskólagjöld - Markmið er að lækka gjöld til foreldra og aðlaga afslætti. 
- Framtíðarstefnumótun í tómstunda- og frístundastarfi - Markmið er að efla tómstundastarf allra aldurshópa, m.a. í samvinnu við félagsmiðstöðina Þrumuna og Skólasel. 
- Framkvæmdir á Hafnargötunni - Markmið er að hefja framkvæmdir úr stefnumótun sem styður við framtíðarsýn Hafnargötunnar. 

Seinni hluti kjörtímabilsins 
- Störf án staðsetningar - Markmið er að styðja við starfsemi skrifstofuhótela og setja þunga í ábendingar um mikilvægi slíkrar starfsemi á landsbyggðinni. 
- Ærslabelgur - Markmið er að bæta við öðrum ærslabelg og auka þannig framboð af leiktækjum fyrir börn og ungmenni. 
- Fegrun á svæði sunnan við Þorbjörn - Markmið að útbúa skjólsælt svæði til útivistar. 
- Tæknivæða menntastofnanir - Markmið er að styðja við framþróun menntastofnana og kennslu á snjalltæki. 
- Myndavélakerfi - Markmið er að samræma eftirlit stofnana og auka öryggi íbúa. 
- Sundlaugin - Markmið að vinna við nýja sundlaug verði hafin. 
- Miðbæjarskipulag - Markmið að vinna samkvæmt framtíðarskipulagi verði hafin. 
- Skoða hönnun og meta þörf á þriðja áfanga Hópsskóla. 

Skipting forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs verður eins og hér segir: 
Forseti bæjarstjórnar verður frá B-lista fyrir utan 3. árið verður fulltrúi U-lista. 
Formaður bæjarráðs verður frá D lista. 
Fulltrúi U-lista er með atkvæðisrétt í bæjarráði fyrir utan 3. árið er fulltrúi B-lista með atkvæðisrétt. 
Fulltrúi B lista verði aðalmaður í stjórn S.S.S. 
Fulltrúi D lista verður aðalmaður í stjórn H.E.S. 
Fulltrúi U lista verður aðalmaður í stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja. 
Núverandi bæjarstjóra, Fannari Jónassyni verður boðinn áframhaldandi staða og verður 
endurráðinn sem bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. 

Formennska í nefndum verður eftirfarandi: 
Ný nefnd um atvinnu - loftslagsmál og framkvæmdir sveitarfélagsins - D-lista 
Félagsmálanefnd - B-lista 
Fræðslunefnd - B-lista 
Frístunda-og menningarnefnd - U-lista 
Hafnarstjórn - D-lista 
Skipulagsnefnd - U-lista
 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR