11. fundur innviðanefndar haldinn í bæjarstjórnarsal, þriðjudaginn 7. október 2025 og hófst hann kl. 13:00.
Fundinn sátu: Lilja Ósk Sigmarsdóttir, varaformaður, Hjálmar Hallgrímsson, formaður, Unnar Á. Magnússon, aðalmaður, Páll Jóhann Pálsson, áheyrnarfulltrúi.
Einnig sátu fundinn: Sigurður A Kristmundsson, hafnarstjóri, Sigurður Rúnar Karlsson, veitustjóri, Elísabet Bjarnadóttir, sérfræðingur skipulags- og umhverfissviðs, Guðjón Bragason, Lögfræðingur.
Fundargerð ritaði: Elísabet Bjarnadóttir, skipulagsfulltrúi.
Dagskrá:
1. Byggingaráform Bláa lónsins til næstu ára - 2510004
Fyrir hönd Eldvarpa ehf kynna Ámundínus Örn Öfjörð forstöðumaður nýframkvæmda og Eva Dís Þórðardóttir forstöðumaður verkefnastýringardeildar byggingaráform Bláa lónins til næstu ára.
Aðrir gestir undir dagskrárlið: Eggert Sólberg, Ásrún Kristinsdóttir og Jón Haukur Steingrímsson.
Innviðanefnd þakkar gestunum fyrir góða kynningu á metnaðarfullum áformum. Nefndin lýsir yfir ríkum vilja til þess að eiga góða samvinnu við fyrirtækið um skipulagsmál og leyfisveitingar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Jafnframt telur nefndin afar mikilvægt að sem fyrst verði farið í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Norðurljósavegi og við gatnamót Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar, þar sem veruleg hætta er á alvarlegum slysum við óbreyttar aðstæður.
2. Norðurljósavegur 9 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi - 2509043
Eldvörp ehf. sækja um byggingarleyfi fyrir nýtt móttökuhús fyrir baðstað Bláa Lónsins, viðbyggingar við núverandi búningsklefa, ásamt starfsmannabúningsklefum og bættri aðstöðu gesta. Um er að ræða fyrsta áfanga af tveimur. Einnig er gönguleið frá nýju bílastæði innan varnargarða við Svartsengi.
Gestir undir dagskrárlið: Eggert Sólberg og Ásrún Kristinsdóttir.
Innviðanefnd staðfestir að fyrirhuguð áform séu samkvæmt skipulagi og vísar erindinu til byggingarfulltrúa til afgreiðslu.
3. Aðalskipulags- og deiliskipulagsbreyting vegna vegaöryggis á Bláalóns- og Grindavíkurvegi - 2510007
Skipulagsfulltrúi óskar eftir að gerð verði tillaga að breytingu á gildandi aðalskipulagi og samhliða á deiliskipulagi Svartsengis til þess að hægt verði að tryggja umferðaröryggi bæði á Bláalónsvegi, og á gatnamótum Bláalónsvegar og Grindavíkurvegar. Núverandi vegtenging var bráðabirgðaráðstöfun eftir að hraun rann yfir veginn. Brýnt er að ráðast tafarlaust í úrbætur áður en alvarleg slys verða á gatnamótunum en lausn getur verið hringtorg eða önnur hönnun sem tryggir öryggi vegfaranda.
Gestir undir dagskrárliða: Eggert Sólberg og Ásrún Kristinsdóttir.
Innviðanefnd samþykkir að skipulagsfulltrúi hefji vinnu við tillögur á breytingum á skipulögum í samráði við Vegagerðina.
4. Sótt um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar - 2510005
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2026. Sjóðnum er heimilt að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd, viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða og -leiða, einnig undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áðurgreindra framkvæmda.
Starfshópur bæjarins 'um varðveislu minja og vernd mannvirkja' mun sækja um styrk til að framkvæma uppbyggingu og öryggisbætur á ferðamannastöðum í bænum sem hafa orðið fyrir áhrifum af náttúruhamförum. Verkefnið felur í sér að gera svæðin aðgengileg, örugg og fræðandi fyrir ferðamenn og íbúa, með uppsetningu gönguleiða, útsýnispalla, bílastæða og upplýsingaskilta. Markmiðið er að tryggja öruggt og upplýsandi aðgengi að náttúruhamfarasvæðum sem hafa mikla fræðslu- og ferðamannaþýðingu, án þess að raska náttúru eða öryggi gesta.
Innviðanefnd þakkar fyrir góða kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum og telur þær vera mikilvægar til að unnt verði að taka á móti auknum straumi ferðamanna sem leggja leið sína til Grindavíkur. Nefndin væntir þess að umsókn Grindavíkurbæjar um framlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða falli vel að áherslum sjóðsins um aðgerðir til að auka öryggi ferðamanna.
5. Umsókn um framkvæmdaleyfi - tilraunaborhola vegna varavatnsbóls á Vatnsheiði - 2509044
Fyrir hönd Grindavíkurbæjar sækir Sigurður R. Karlsson um framkvæmdaleyfi til borunar tilraunaborholu á Vatnsheiði í landi Hrauns. Tilgangurinn er að kanna möguleika á varavatnsbóli. Vatnaveita Grindavíkur stendur fyrir framkvæmdum. Leyfi landeigendafélags Hrauns liggur fyrir í tölvup. dags.17.9.2025. Boruð verður 120m djúp hola, vatnsgæði könnuð og gerðar rennslismælingar. Slóð liggur að svæðinu sem er ógróinn melur og verður því jarðrask lítið sem ekkert.
Innviðanefnd fellst á útgáfu framkvæmdaleyfis vegna borunar tilraunaborholu á Vatnsheiði. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.
6. Landfyllingar við Grindavíkurhöfn - 2510003
Hafnarstjóri óskar eftir heimild til að nýta efni sem fellur til við niðurrif mannvirkja, sprungulagfæringa og annarri jarðvinnuverkefna í bænum til upphækkunar núverandi landfyllinga á hafnarsvæðinu, þ.e. við smábátahöfn, Eyjabakka og Suðurgarð, sjá viðhengi. Einnig er óskað eftir því að nýta svæði geymslusvæði H-1 og H-2 sem uppsátur eins og gert er ráð fyrir á gildandi deiliskipulagi iðnaðar- og hafnarsvæðis Eyjabakka.
Innviðanefnd tekur jákvætt í áform um að nýta efni sem til fellur við niðurrif mannvirkja til þess að hækka landfyllingar á hafnarsvæðinu. Áformin eru í samræmi við gildandi deiliskipulag iðnaðar- og hafnarsvæðis.
Hafnarstjóra og skipulagsfulltrúa er falið að vinna málið áfram.
7. Erindi NTÍ er varða byggingar sem reistar eru á svæðum náttúruhamfara - 2509026
Lagt er fram bréf dags.10.september 2025 sem barst frá forstjóra NTÍ fyrir hönd stjórnar og er beint að skipulagsyfirvöldum og sveitarstjórnum landsins. Bréfið fjallar að mestu um 16. gr. laga nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu, og heimild NTÍ til að lækka bætur eða synja bótakröfu vegna mannvirkja á fyrirfram þekktum hættusvæðum. Minnt er að lokum á ábyrgð sveitarstjórnar á skipulagsgerð og vill NTÍ vekja sérstaka athygli á eftirfarandi hlutverkum sveitarfélaga sem er að:
1. tryggja að áhættumat náttúruvár (sérstaklega vegna vatns- og sjávarflóða) sé uppfært og tekið með beinum hætti inn í aðalskipulag, deiliskipulag og skilmála byggingarleyfa;
2. haga skipulagi þannig að forvarnir og varnir (t.d. gólfkóti, flóðvarnarlausnir, fráveitukerfi, varúðarmörk) séu markvisst skilgreindar og fjármagnaðar áður en framkvæmdir hefjast;
3. upplýsa byggingarleyfishafa og kaupendur eigna skýrt um þekkta áhættu og mögulegar afleiðingar, þ.m.t. takmarkanir á bótarétti samkvæmt 16. gr.; og
4. leita eftir samráði við sérhæfð stjórnvöld í tengslum við skipulagsákvarðanir (s.s. HMS, Skipulagsstofnun, Vegagerðina og Veðurstofu Íslands) eftir því sem við á. Erindi lagt fram.
8. Fundargerðir Hafnarsambands Íslands 2025 - 2502013
Fundargerð 475. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 10. september 2025, lögð fram til kynningar. Fundargerð lögð fram.
Fleira ekki gert.
Fundi slitið kl. 15:00.