Í dag færði Kvenfélag Grindavíkur Grindvíkingum spjallbekk að gjöf í tilefni af Viku einmanaleikans. Spjallbekkurinn hefur það hlutverk að hvetja til félagslegra samskipta og draga úr einmanaleika.
Spjallbekkir eru þekktir víða um heim og eru merktir þannig að þeir gefa til kynna að sá sem sest þar sé opinn fyrir samtali. Þeir skapa þannig vinalegt rými fyrir ókunnuga jafnt sem vini til að hefja samræður, efla tengsl og byggja upp samfélagskennd.
Við afhendingu bekkjarins í Kvikunni í morgun hélt Anna Steinsen frá KVAN erindi um jákvæð samskipti, hvernig kynslóðir geta tengst betur og hvernig við getum viðhaldið gleði í daglegu lífi. Fjöldi Grindvíkinga mætti á viðburðinn og tók þátt í umræðum og tengslamyndun.
„Markmið spjallbekkja er að minna okkur á mikilvægi mannlegra samskipta og sýna að stundum er smá hvatning nóg til að hefja spjall,“ sagði Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur, þegar hún afhenti bekkinn fyrir hönd félagsins.
Bekkurinn verður fyrst um sinn staðsettur við Kvikuna og eru Grindvíkingar hvattir til að fá sér sæti á bekknum og eiga létt og vinalegt samtal.