Alls var 14.924 tonnum landað í Grindavíkurhöfn á fyrstu sex mánuðum ársins. Um er að ræða tæplega þrefalt meiri afla en á sama tíma árið 2024. Sé aflinn borinn saman við fyrri ár kemur í ljós að hann er 67% af afla fyrri hluta árs 2022 og 70% af afla fyrri hluta árs 2023.
Alls voru 54 bátar og skip sem lönduðu í 612 löndunum í Grindavíkurhöfn á tímabilinu.
Fleiri jákvæðar fréttir eru af grindvískum sjávarútvegi en Ganti, sjávarútvegsfyrirtæki sem varð til síðasta vetur við skiptingu Þorbjarnar í þrjú félög, áformar að hefja saltfiskvinnslu í Grindavík á næstunni. Um er að ræða jákvæð tíðindi fyrir bæjarfélagið og bendir til frekari uppbyggingar í sjávarútvegi í bænum.