Þriðji og síðasti fundurinn í fundaröð Grindavíkurbæjar og Grindavíkurnefndar fór fram í gær í Gjánni í Grindavík. Fundurinn var vel sóttur og var þar farið yfir nýjustu upplýsingar um jarðhræringar á svæðinu, hættumat og áhættumat, auk umræðu um næstu skref í uppbyggingu samfélagsins.
Merki um að goshrina sé að fjara út – en áfram óvissa
Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands kynntu stöðu eldfjallavirkni á Reykjanesskaga. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, sagði að vísbendingar væru um að núverandi goshrina gæti verið að nálgast lokafasa. Hann tók þó fram að ekki væri útilokað að fleiri gos gætu átt sér stað.
Benedikt G. Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, tók undir þessi sjónarmið og benti á að innflæði kviku virtist hafa minnkað. Hann taldi þróunina benda til þess að farið sé að draga úr virkni, en lagði áherslu á að áfram sé umtalsverð óvissa og mikilvægt sé að fylgjast vel með.
Ítarlegra hættumat og virkt eftirlit
Sara Barsotti, eldfjallafræðingur hjá Veðurstofunni, kynnti nýtt hættumatskort og vinnuna á bak við það. Hún benti á að Veðurstofan sé með virkt eftirlit allan sólarhringinn og nýti sjálfvirk viðvörunarkerfi sem nema breytingar í virkni, svo sem fjölgun jarðskjálfta. Einnig heldur Veðurstofan fundi með vísindamönnum á tveggja vikna fresti og oftar, ef virkni eykst. Samtal við íbúa, eins og á þessum fundi, gæfi mikilvægar upplýsingar um hvar væri hægt að gera betur, t.d. í framsetningu upplýsinga.Hættumatskortið er aðgengilegt á heimasíðu Veðurstofunnar og veitir mikilvægar upplýsingar um stöðuna hverju sinni.
Mikilvægt að greina á milli hættu og áhættu
Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, ræddi m.a. hættumatskort, verklag Veðurstofunnar og miðlun upplýsinga. Hún lagði áherslu á mikilvægan mun á hugtökunum „hætta“ og „áhætta“, þar sem hættumat gefur til kynna hvar hætta getur verið til staðar, en áhættumat metur einnig líkurnar og hugsanleg áhrif á fólk, byggð og innviði.
Hvenær verður hægt að hefja uppbyggingu?
Í máli ýmissa fundargesta kom fram óþreyja gagnvart því að hefja endurreisn og nýta sumarið til verklegra framkvæmda. Vísindamennirnir bentu á að þetta er langhlaup sem krefst þolinmæði, en hafa fullan skilning á sjónarmiðum íbúa.
Ábyrgð, mat og samfélagsleg sjónarmið
Árni Þór Sigurðsson, formaður Grindavíkurnefndar, tók einnig til máls og ræddi hvernig áhættumat felur í sér bæði mat á hættu og áhrifum hennar á samfélagið. Hann benti á að Veðurstofan hafi fengið fjölmargar spurningar um hvenær væri óhætt að hefja búsetu að nýju í Grindavík. Slík ákvörðun væri flókin og kallaði á mat sem tekur mið af bæði faglegum og samfélagslegum sjónarmiðum, þar á meðal þeirri spurningu hver beri ábyrgð ef illa fer.
Næstu skref – áframhaldandi vinna og samstarf
Að lokum lagði Árni áherslu á að mikil samfélagsleg og fjárhagsleg verðmæti væru í húfi í Grindavík. Hann sagði mikilvægt að vinna áfram að endurreisn samfélagsins í góðu samstarfi við alla viðeigandi aðila. Grindavíkurnefnd mun taka saman það sem fram kom á þessum og fyrri fundum, vinna úr því og halda áfram samtali við samfélagið með fjölmörgum samstarfsaðilum.
Fundurinn var tekinn upp og hægt er að horfa á upptökuna hér.