Samkvæmt gögnum á vef Vegagerðarinnar hefur töluverð umferð verið til Grindavíkur síðustu daga þrátt fyrir breyttar aðstæður.
Að meðaltali óku 1.888 ökutæki daglega Grindavíkurveg dagana 20.-26. maí í ár. Til samanburðar óku 2.417 ökutæki veginn á dag á sama tíma síðustu fimm ár að meðaltali. Meðalumferð í ár er því um 75% af meðalumferð um veginn þessa sjö daga síðustu fimm ár.
Til þess að setja umferð um Grindavíkurveg í samhengi óku sömu daga 1.250 ökutæki um Þrengslin í suðurátt og 3.124 um Hafnarfjall til norðurs dag hvern undanfarið, samkvæmt umferðargögnum.
Ef horft er á heildarumferð til Grindavíkur um Grindavíkurveg, Festarfjall og Nesveg (við golfvöllinn), má sjá að meðaltali óku 2.796 ökutæki í átt til Grindavíkur þá viku sem um ræðir.
Umferð í átt til Grindavíkur er því veruleg þrátt fyrir áskoranir í samgöngumálum. Grindavíkurbær hefur þrýst á Vegagerðina að klæða malarkaflann á Grindavíkurveginum.
Myndina með fréttinni tók Jón Steinar Sæmundsson af malarkaflanum á Grindavíkurveginum.