Á föstudaginn síðasta fundaði bæjarstjórn Grindavíkur með ríkisstjórn Íslands. Fundurinn fór fram í Reykjanesbæ en þar komu ráðherrar saman í lok kjördæmavikunnar og áttu samtal við sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum. Fyrst fór fram fundur ráðherra með stjórnendum Voga, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Í kjölfarið hitti bæjarstjórn Grindavíkur ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem farið var yfir málefni bæjarins.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar sagði fundinn hafa verið ágætan þó stuttur hafi verið. Meira samráð hafi verið til umræðu og mikilvægi þess að huga vel að íbúum og andlegri heilsu þeirra.
Hún sagði áherlsur bæjarstjórnar vera tvíþættar en brýnt sé að ríkisstjórnin fari í þau mál nú á vorþinginu. Áherslurnar séu annars vegar um breytingar á lögum vegna tekjustofna sveitarfélaga og hins vegar framlenging á ýmsum stuðningsaðgerðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Hér fyrir neðan má sjá minnisblað bæjarstjórnar til ríkisstjórnarinnar:
A. Þörf er á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem er framlenging á gildistíma laga nr. 4/2024 (álagning fasteignaskatts og ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga). Minnisblað um málið var sent til IRN í janúar en ekki náðst fundur með ráðherra.
Þessi lagabreyting er brýn enda forsenda þess að hægt verði að falla frá álagningu fasteignaskatts í þéttbýli eins og gert var á sl. ári. Málið þolir ekki bið.
B. Framlenging eða breyting á ýmsum stuðningsaðgerðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hér undir fellur einkum:
Íbúar og fyrirtæki þurfa meiri fyrirsjáanleika varðandi það hvort þessi úrræði verða framlengd. Þetta gildir að sjálfsögðu um einstaklinga sem ennþá eru á leigumarkaði og einnig höfum við heyrt um fyrirtæki sem sjá fram á að hætta sinni starfsemi þegar stuðningsaðgerðum lýkur 31. mars.