Grindvíkingum er heimilt ađ halda lögheimili í Grindavík

  • Fréttir
  • 22. janúar 2025

Fulltrúar Grindavíkurbæjar og Þjóðskrár Íslands áttu gagnlegan fund þann 20. janúar. Tilefni fundar var bréf sem Þjóðskrá sendi til allra íbúa sem eiga skráð lögheimili í Grindavík. Þar er íbúum m.a. leiðbeint um að almenna reglan um skráningu lögheimilis er að fólk á að vera skráð í því íbúðarhúsnæði þar sem það hefur fasta búsetu. Fram kom á fundinum að tilgangur umrædds bréfs hafi verið að veita almennar leiðbeiningar til íbúa sem margir hafi ekki gert sér grein fyrir muninum á skráningu lögheimilis annars vegar og aðseturs hins vegar. Sé það hlutverk stofnunarinnar að tryggja rétta skráningu íbúa á hverjum tíma. Stofnunin sjái ekki fyrir sér frekari aðgerðir til að fylgja bréfinu eftir.

Af þessu tilefni telur Grindavíkurbær tilefni til þess að árétta að á fundinum kom skýrt fram að Grindvíkingum er áfram heimilt að eiga lögheimili í Grindavík og að skráning aðseturs í öðru sveitarfélagi hefur ekki áhrif á þann rétt.  Af hálfu Grindavíkurbæjar var jafnframt áréttað að það skiptir sveitarfélagið miklu máli að íbúar, sem þess óska, geti haldið lögheimili í Grindavík og greitt þar útsvar.

Um þetta vísast til heimildar í bráðabirgðaákvæði V í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sem er enn í gildi. Í ákvæðinu felst að:

Skráning aðseturs innan lands er heimil þeim einstaklingum sem höfðu lögheimili í Grindavíkurbæ hinn 9. nóvember 2023 og þurftu að yfirgefa heimili sitt samkvæmt ákvörðun yfirvalda hinn 10. nóvember 2023.

Skráningin gildir þar til lögreglustjóri tilkynnir Þjóðskrá Íslands að skilyrði hennar séu ekki lengur fyrir hendi. Einstaklingum er þó heimilt að halda aðsetursskráningu í allt að eitt ár frá tilkynningu lögreglustjóra.

Einnig kom fram að Þjóðskrá gerir ekki athugasemd við að hjón hafi ekki sama lögheimili, sbr. heimild í 1. mgr. 5. gr. lögheimilislaga, enda liggi fyrir staðfesting maka á því fyrirkomulagi. Sú regla gildir hins vegar ekki um sambúðarfólk og eru dæmi um að stofnunin hafi þurft að leiðbeina sambúðarfólki hvað þetta varðar.

Rétt þykir að koma þessum upplýsingum á framfæri við íbúa Grindavíkur enda hefur umrætt bréf frá Þjóðskrá vakið spurningar af hálfu íbúa.


Deildu ţessari frétt