Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Grindavíkur hafa unnið nánast sleitulaust innan Grindavíkur eftir að bærinn var rýmdur fyrir rúmum 13 mánuðum. Sigurður Rúnar Karlsson er forstöðumaður miðstöðvarinnar. Hann settist niður með okkur í Kvikunni í liðinni viku og fór yfir málin. Hann sagði starfsfólkið hafa reynt að halda sig við hefðbundin verkefni samhliða öllu tengt hamförunum. Enn sé jólaskreytt, götur séu sópaðar, rusl sé hirt upp og að bænum sé haldið eins snyrtilegum og hægt sé.
„Þetta er búið að vera undarlegur tími. Eftir hamfarir voru eignir bæjarins ástandsmetnar, þá þurfti að skoða vatnsveituna og fráveituna. Koma þurfti á bráðaviðgerðum og tjónameta eignir bæjarins. Bærinn er tryggður hjá Náttúrhamfaratryggingum Íslands og allt þarf að gerast í réttri röð; tilkynna tjón og vera í opnu tjónamatsferli frá þeirra fólki. Þetta er heljarinnar ferli sem nær yfir bæði fasteignir og veitur. Þessu höfum við verið að vinna í samhliða þeim hamförum sem gengið hafa á trekk í trekk. Heilt yfir hefur þetta gengið vel. Þessu má náttúrulega fara að linna."
Veitukerfi bæjarins stendur mjög vel
Sigurður segir að eftir átökin 14. janúar hafi tjónið ekki orðið meira innan bæjarins, hvorki á fasteignum né veitukerfum sem neinu nemur. „Sú spenna sem hefur verið að myndast eftir það hefur a.m.k. ekki haft áhrif á byggingar bæjarins þó einhver íbúðarhús hafi verið að skemmast. Þetta hafa verið okkar stærstu verkefni fram að þessu og að reyna að klára þessi tjónamál og reyna að koma fasteignum aftur í rekstur en vatns- og fráveitukerfi bæjarins standa bara mjög vel í dag. Og í rauninni hefur vatnsveitan ekki staðið svona vel síðan fyrir árið 2017. Við erum búin að endurbæta hana og koma á gott skrið. Fráveitan er rekstrarhæf og er í þokkalegu standi miðað við það sem gengið hefur á en það er ennþá verið að vinna í tjónamálum.“
Sigurður segir að það að grafa upp götur í gegnum sprungur sé meira en að segja það. „Þannig að í ákveðnum tilvikum þá ákváðum við að bíða eftir þessu svokallaða sprunguverkefni sem er á vegum Grindavíkunefndarinnar og Vegagerðarinnar. Við sitjum þar í stýrihóp þar sem við forgangsröðum viðgerðum. Við notuðum á sama tíma tækifærið til að vinna þessar viðgerðir á veitunum samhliða því, þannig að það yrði meiri slagkraftur í heildarviðgerðum á svæðinu. Ekki að hver veitueigandi væri að grafa sinn skurð. Veitukerfið er í lagi. Það eru tvær götur sem eru án vatns og fráveitu. Það er Staðarsund (iðnaðarhvefi) sem verið er að vinna í og svo efri gatan í Efrahópi. Það eru svona þær tveir götur sem eiga eftir viðgerð. Allt annað er í lagi og má nota.“
Stóru hreyfingarnar 10. nóvember og 14. janúar
Sigurður segir að mestu breytingarnar á bænum hafi verið 10. nóvember þegar bærinn var rýmdur og síðan 14. janúar þegar annað gosið hófst á Sundhnúksgígaröðinni. „Eftir það hefur ekki orðið þessi gliðnun sem neinu nemur, en það hafa verið þessar þrýstibreytingar, sértsaklega í vesturbænum í aðdraganda maí-gossins. Þá var spenna sem var að þrýsta á húsin, ekki þannig sprunguhreyfingar að það sé að opnast heldur er það að lokast.“ Sigurður segir að þessar breytingar hafi verið í tengslum við landrisið. Líkja mætti þessu við lungað, Svartsengi blæs upp og fellur saman. „Í aðdraganda goss blæs það upp og svo fellur það saman í gosi. Og það hefur nátturulega áhrif á miklu stærra svæði heldur en bara Svartsengi. Grindavík er það nálægt að það lyftist og fellur saman í takt við Svartsengi. Þannig að Grindavík er búið að rísa og falla helling á þessum tíma. Það er það sem hefur áhrif á allar þessar byggingar til lengri tíma. Eignir bæjarins eru ekki svo mikið að finna fyrir þessu. Þetta er meira í vesturbænum þar sem eru eldri hús, skemmdir eru staðbundnar.
Siguður segir að það styttist í að starfsmenn þjónustumiðstöðvar fái hefðbundinn vinnudag á ný. Í upphafi var unnið sleitulaust, nánast án kaffi- og matartíma. „Sá tími sem við vorum ekki í bænum var bara þegar hann var rýmdur og á meðan neyðarstig var í gangi. En þegar bærinn var rýmdur 14. janúar þá vorum við mestmegnis hérna að koma vatni aftur á bæinn þar sem leiðslan fór undir hraun. Þetta hefur síðan þróast í að verða aftur hefðbundinn dagur þar sem við mætum klukkan 7, förum í mat 12 og hættum að ganga 17. Þetta er að komast aftur í hefðbundið horf og þeir dagar sem við erum ekki hérna er bara þegar bænum er hreinlega lokað.“
Galið hvað við erum orðin samdauna ástandinu
Þegar Sigurður er spurður út í hvað sé það galnasta á þessum tíma segir hann það vera hversu samdauna hann sé orðinn ástandinu. „Maður fer með fólk um bæinn og sýnir þeim hraunið sem rann inn í Efra Hóp og allar þessar sprungur. Það er annað hvort dolfallið eða harmi slegið yfir þessu og maður hættur að kippa sér upp við þetta. Það finnst mér hálf galið, hvað manni er orðið eiginlega sama um þetta. Allt þetta hraun sem hefur verið að koma, glóandi niður í Svartsengi og maður kippir sér eiginlea ekkert upp við þetta. Maður tekur bara afleiðingunum og svo heldur maður bara áfram. Þetta er mjög skrýtin tilfinning.
Bjartsýnn á framtíð bæjarins
Sigurður segist vera bjartsýnn á framtíð Grindavíkur. „Ég held að þetta geti bara farið upp á við héðan af. Atvinnulífið verður örugglega mjög sterkt í kringum ferðamannaiðnaðinn og ef við tryggjum að undirstöðurnar séu í lagi, það er að segja að við rífum ekki þau hús sem geta verið hryggjarstykkið í einhverri ferðamennsku og tryggjum það að við höldum einhverjum minjum, í hvaða formi sem það er, að við séum meðvituð um það, þá held ég að þetta verði bara góður bær. Þetta á að geta harmonerað sem ferðamannabær og íbúabær eins og við vorum með áður. Það bætist bara ferðamennska ofan á allt hitt atvinnulífið,“ segir Sigurður að lokum.