Í aðdraganda 10. nóvember sl. lét Grindavíkurbær framleiða fána með gulum og bláum hjörtum. Í framhaldinu bárust sveitarfélaginu fyrirspurnir hvar hægt væri að kaupa slíka fána.
Nú hafa verið framleiddir fleiri fánar og fást þeir í Kvikunni og sundlaug Grindavíkur. Einnig er hægt að senda póst á netfangið grindavik@grindavik.is vilji fólk fá fánana senda. Fáninn er seldur á kostnaðarverði eða kr. 10.000.
Hvers vegna gul og blá hjörtu?
Eftir rýmingu Grindavíkurbæjar urðu gul og blá hjörtu áberandi á samfélagsmiðlum sem tákn um samstöðu og samhug Grindvíkinga á erfiðum tímum. Hjörtun urðu fljótt tákn um þann styrk og einingu sem Grindvíkingar sýndu og minna okkur á þann kraft sem felst í samstöðunni. Þá eru hjörtun í litum UMFG, okkar sameiningartákns. Þau slá í takt, sama hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir.