Mikill fjöldi bæði Grindvíkinga og annarra gesta lagði leið sína niður á Grindavíkurhöfn í gær til að skoða nýtt og glæsilegt skip Þorbjarnar hf., Huldu Björnsdóttur GK 11. Skipið er nýkomið til landsins en það var smíðað á Spáni. Veður var með besta móti, spegilsléttur sjór, sól og léttskýjað. Móttökuveislan var hin glæsilegasta. Um borð var bakkelsi og hátíðarkaka frá Grindavíkurhöfn en við hafnarbakkann var Issi að bjóða gestum upp á sitt vinsæla Fish n´chips. Í húsi löndunarþjónustu Klafars var búið að koma upp sviði þar sem hljómsveit spilaði fyrir gesti.
Þegar skipið hafði verið blessað færði forseti bæjarstjórnar, Ásrún Helga Kristinsdóttir, stjórn Þorbjarnar hf. blómvönd og sérstakan afmælisplatta í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli bæjarins í ár. F.v. Gunnlaugur Eiríksson, Gunnar Tómasson og Gerður Sigríður Tómasdóttir ásamt Ásrúnu Helgu Kristinsdóttur.