Heilbrigđiskerfiđ og starfsfólk í framlínu sveitarfélaga verđur ađ vera tilbúiđ ađ taka á móti Grindvíkingum

  • Fréttir
  • 23. september 2024

Á föstudaginn voru lýðheilsuvísar fyrir árið 2024 kynntir. Kynningin fór fram í beinu streymi frá Gjánni í Grindavík og byrjaði Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs á því að ávarpa fundargesti. Ræðu Eggerts má lesa hér fyrir neðan eða nálgast á upptöku frá streyminu hér. 

Í ávarpinu sínu kom Eggert m.a. inn á mikilvægi þess að bæði heilbrigðiskerfið sem og starfsfólk í framlínu sveitarfélaga verði tilbúið að taka á móti Grindvíkingum næstu árin. Hættan sé á að eftir endurtekin áföll í kjölfar náttúruhamfara, muni heilsufarsvandamál aukast. Það megi alls ekki gerast að fólki verði vísað frá og að ekki fáist viðeigandi lausn á þeirra málum. Ávarpið má nálgast á mínútu 02:20

Alma D. Möller, landlæknir kynnti áhugaverðar niðurstöður í sínu ávarpi sem snúa að notkun lyfja, bæði vegna öndunarerfiðleika í kjölfar gosmengunar og líka vegna kvíða og þunglyndis í aðdraganda hamfaranna og á meðan þeim stóð. Ávarpið má nálgast á mínútu 10:30

Við upphaf náttúruhamfara á Reykjanesi var ákveðið að fylgjast með

  • Andlegri heilsu, þá ávísanir á lyf við þunglyndi og kvíða, heimsóknir á heilsugæslu vegna kvíða og þunglyndis og komur og innlagnir á sjúkrahús vegna þess sama.
  • Líkamlegri heilsu, ávísanir á lyf vegna einkenna/sjúkdóma í öndunarfærum, komur á heilsugæslu og komur og legur á sjúkrahús vegna sömu einkenna og sjúkdóma. 
  •  Ný breyta: Þau sem voru með lögheimili í Grindavík 1. júlí 2023. 

Niðurstaðan var sú að notkun svokallaðra teppulyfja (astmalyf) jókst þegar eldgos hófust. Þegar kom að einstaklingum sem greindir voru á heilsugæslu með kvíða þá var niðurstaðan sú að við eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 og í hamförunum 10. nóvember koma toppar, þar sem ávísun á kvíðalyf eykst verulega. Eins og meðfylgjandi mynd sínir þá var notkun Grindvíkinga á kvíðalyfjum ekki mikil fyrir hamfarir, nokkuð undir landsmeðaltali. 

Greiningar á heilsugæslu vegna þunglyndis aukast nokkuð í hópi karla. En árið 2019 voru karlar undir meðaltali á landsvísu eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Í ár hefur sú tala breyst og nú eru þeir yfir meðaltali. Alma tekur það fram að þetta sé þó ekki algeng greining og ekki um mikinn fjölda að ræða. 

Meiri notkun þunglyndislyfa er á meðal kvenna eins og sést á myndinni en Alma tekur aftur fram að ekki sé um tölfæðilegan mun að ræða.

Ræða Eggerts í heild sinni:

Ávarp við kynningu lýðheilsuvísa í Grindavík 20. september 2024
Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar 


Kæru gestir hér í salnum og í streymi

Ég vil byrja á því að færa ykkur bestu kveðjur frá Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar, sem ætlaði að standa hér í dag en forfallaðist á síðustu stundu. 

Jafnframt vil ég nota tækifærið og bjóða ykkur sem hér eru í salnum velkomin til Grindavíkur. Það er ánægjulegt að af þessum fundi gat orðið hér í Grindavík. Ég vil þakka landlækni fyrir frumkvæðið að fundinum og veit að erindin hér í dag verða áhugaverð. 
Líkt og þið vitið eru ekki mörg með fasta búsetu í Grindavík í dag. Við erum hins vegar bjartsýn á uppbyggingu bæjarins. 

Fyrir um ári síðan bjuggu tæplega 3.800 íbúar í Grindavík. Grindavík var heilsueflandi samfélag og margir Grindvíkingar töluðu um bæinn sem íþróttabæ. Það var líka þannig að margt var mjög vel gert í lýðheilsumálum í sveitarfélaginu. Ekkert af stærri sveitarfélögum landsins varði t.d. hærra hlutfalli af sínum rekstrarútgjöldum til íþrótta- og æskulýðsmála. Grindvíkingar voru líka jafnan með hamingjusömustu íbúum landsins samkvæmt könnunum.  

Í fáum sveitarfélögum var jafn ódýrt fyrir börn að æfa íþróttir. Á síðasta ári kostaði aðeins 57.000 kr. fyrir barn að stunda íþróttir í Grindavík og gat barnið þá æft allar þær íþróttir sem í boði voru innan sveitarfélagsins, fótbolta, körfubolta, júdó, sund, pílukast, golf eða hestamennsku. 

Sveitarfélagið hafði nýlega framkvæmt metnaðarfulla jafnréttisúttekt á íþrótta- og æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu og til stóð að vinna nýja stefnu í málaflokkum sem byggði á niðurstöðum úttektarinnar. Sveitarfélagið kom vel út úr þeirri úttekt enda hefur verið lögð áhersla á að öll fengju að vera með, fjárráð foreldra skiptu ekki máli enda æfingagjöld í lágmarki og þeim var hjálpað á þurftu að halda. 

Sveitarfélagið hefur á síðustu árum byggt upp mannvirki til heilsuræktar af miklum metnaði, hvort heldur það eru mannvirkin hér á íþróttasvæðinu, útivistarstígar innanbæjar eða utanbæjar. Íþróttamannvirki sveitarfélagsins stóðu iðkendum oftast opin. Nær alltaf var hægt að hliðra til í sölunum. 

Börn gátu æft sig í körfubolta eða fótbolta, sama hvernig viðraði, þrátt fyrir að meistaraflokkarnir væru á æfingu, þau sem vildu fara í pílu á efri hæðinni fengu lánaðar pílur í afgreiðslunni o.s.frv. Börnin þekktu þær reglur sem giltu í húsunum og fóru eftir þeim. 
Við heyrum það víða að börn og unglingar úr Grindavík sem nú búa í öðrum sveitarfélögum sakni þess að hafa aðgengi að íþróttahúsum eins og þau höfðu hér. 

Vegna þess að við erum stödd hér í íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins, þá er auðvelt að halda því fram að í Grindavík séu íþróttirnar hjartað sem dælir blóði um æðar samfélagsins, þ.e. gula og bláa hjartað. Við sjáum það á samfélagsmiðlum á síðustu mánuðum hversu áberandi þessi hjörtu eru þegar íbúar tjá sig um málefni samfélagsins. 

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem komið hafa að íþróttastarfi í Grindavík frá rýmingu bæjarins, hvort sem það eru iðkendur á öllum aldri, þjálfarar, aðstandendur, sjálfboðaliðar, forsvarsfólk félaganna eða áhorfendur. Þetta fólk hefur sýnt mikla þrautseigju, æðruleysi og útsjónarsemi við það að halda áfram starfsemi íþróttaliðanna. Frá mínum dýpstu hjartarótum vil ég færa ykkur þakkir fyrir ykkar framlag til samfélagsins í Grindavík. 

Nú í sumar og haust varð breyting hjá mörgum börnum þegar þau gengu í ný félög. Á sama tíma höfum við miklar áhyggjur af brottfalli Grindvíkinga úr íþrótta- og æskulýðsstarfi. Það geta verið margvíslegar hindranir sem koma í veg fyrir að börn og ungmenni sækja í það starf í sínu nærumhverfi. Fjölskyldur voru góðu vanar í Grindavík og í einhverjum tilfellum eru ástæðurnar því efnahagslegar. Í öðrum tilvikum er það kvíði eða þreyta, jafnvel samgöngur og fjarlægð frá heimili. 

Við erum afskaplega þakklát öllum þeim sveitarfélögum og félögum sem gripu börnin og ungmennin okkar síðasta vetur. Við sem samfélag megum ekki gleyma okkur og verðum að fylgja börnunum eftir. Þau þurfa á stuðningi okkar að halda. 
Sveitarfélagið reyndi jafnframt að stuðla að bættri heilsu þeirra sem eldri eru. Í Grindavík var lögð áhersla á að eldri borgarar gætu verið heima sem lengst. Sveitarfélagið greiddi með dagdvöl fyrir aldraða umfram það sem sveitarfélaginu bar og sinnti þeim sem þurftu á aðstoð að halda. Markmiðið var að stuðla að betri heilsu þeirra sem sóttu dagdvölina en á sama tíma skapa hvíld fyrir aðstandendur. 

Eldri borgarar í Grindavík fengu frítt í sund og gjaldtaka vegna félagsstarfs var í lágmarki. 
Grindavíkurbær var með samning við Janus heilsueflingu. Það var ánægjulegt að koma í íþróttamannvirkin fyrir hádegi á virkum dögum þegar saman komu yngri borgarar á leið í skólaíþróttir og eldri borgarar á leið í líkamsræktina eða pílukast. Allt iðaði af lífi. Rétt eins og við höfðum áhyggjur af brottfalli barna og ungmenna þá höfum við áhyggjur af eldri borgurunum okkar. Hreyfingarleysi og félagsleg einangrun er ekki góður kokteill. 

Nú eru liðnir 315 dagar síðan allt fór úr skorðum. Þann 10. nóvember duttum við úr okkar rútínu, drógum úr hreyfingu, leituðum í skyndibita, áttum erfiðara með svefn, höfðum áhyggjur af ótal þáttum í lífi okkar, vanræktum okkur sjálf og höfðum jafnvel ekki orku til að gefa af okkur til okkar nánustu. Svo mætti lengi telja. 

Þrátt fyrir samheldni samfélagsins þá taka endurtekin áföll sinn toll á líkamlegri og andlegri heilsu. Öll þekkjum við Grindvíkingar til einstaklinga sem eru að fást við alvarlegar afleiðingar hamfaranna. Við höfum líka flest áhyggjur af einhverjum nákomnum okkur. Ég veit að mörgum Grindvíkingum finnst erfitt að ræða um atburðina við aðra en Grindvíkinga. Óttast jafnvel að mæta skilningsleysi. Það er rétt að enginn getur sett sig í okkar spor. Við eigum hins vegar gott stuðningsnet sem við treystum, fagaðila sem eru vanir að fást við áföll. Mér leið að minnsta kosti betur eftir að hafa rætt við sálfræðing síðasta vetur.

Hættan sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir er sú að Grindvíkingar þrói með sér alvarlega sjúkdóma, s.s. þunglindi, kvíða eða fíknisjúkdóma. Aðrir hafa upplifað mikla félagslega einangrun og vita ekki hvert skal leita. 

Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu eða í framlínu sveitarfélaga verður að vera undir það búið að taka á móti Grindvíkingum næstu árin með fjölbreytt heilsufarsvandamál. Það má ekki gerast að fólki sé vísað frá og ekki fáist viðeigandi lausn á þeirra málum. 

Ég vil að lokum minnast á samfélagið okkar og mikilvægi samverustunda. Sama hvort Grindvíkingar hafi aldrei farið úr bænum, ætli að flytja til baka við fyrsta tækifæri, sjá til í einhver ár eða ætli aldrei til baka, þá þurfa allir þessir hópar einhverskonar haldreipi í samfélaginu, stuðning frá þessu félagslega afli sem er okkur gífurlega mikilvægt. Við megum ekki vanmeta jafningjastuðninginn sem við fáum með samverunni þegar við Grindvíkingar hittumst. Við erum meðvituð um það að virk tengsl við fólk í sama samfélagi bætur heilsu okkar. Markvisst höfum við staðið fyrir samverustundum þar sem Grindvíkingar fá tækifæri til að koma saman. 

Við tökum ekki endilega eftir samfélaginu okkar fyrr en reynir á. Þegar samfélag stendur frammi fyrir utanaðkomandi ógn þéttast raðirnar. Við hjálpumst öll að. Samfélagið í Grindavík hefur sýnt það að það þarf ekki í öllum tilvikum staðbundna nálægð til þess að sameinast. Samfélag er því miklu meira en staðbundin samskipti. Þó við séum dreifð um land allt erum við enn Grindvíkingar. 
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 3. október 2024

Lokasorphirđa á morgun 4 .október

Fréttir / 27. september 2024

Mánudagskaffi í Reykjanesbć

Fréttir / 26. september 2024

Para- og fjölskylduráđgjöf

Fréttir / 23. september 2024

Réttađ í blíđviđri í Grindavík

Fréttir / 12. september 2024

Grindvíkingar ćfa í Kópavogi

Fréttir / 10. september 2024

Morgunkaffi međ Ásrúnu og Hjálmari

Fréttir / 4. september 2024

Kvikan opnar ađ nýju

Fréttir / 3. september 2024

Grindavíkurdćtur og glćpakviss

Fréttir / 2. september 2024

7. tbl. Grindvíkings komiđ út

Fréttir / 26. ágúst 2024

Kalka opnar ađ nýju í Grindavík