Grindvíkingar verða heiðursgestir Menningarnætur sem að fram fer í Reykjavík laugardaginn 24. ágúst nk. Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður boðið upp á skemmtiatriði og veitingar á meðan birgðir endast.
Allan daginn verða til sýnis í Ráðhúsinu málverk Pálmars Arnar Guðmundssonar þar sem hann sýnir verk frá ýmsum tímum. Einnig má sjá ljósmyndir Sigurðar Ólafs Sigurðssonar sem teknar voru í Grindavík á síðustu mánuðum.
13:00 Setning
Kvennakórinn Grindavíkurdætur er stórskemmtilegur hópur kvenna sem flestar eru fæddar 1977-1987 og hafa tengingu við Grindavík. Kórinn mun flytja nokkur lög. Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík og Einar Þorsteinsson borgarstjóri í Reykjavík bjóða fólk velkomið. Boðið verður upp á veitingar frá Hérastubbi, bakaríi í Grindavík á meðan birgðir endast.
13:30 Leiðsögn um málverkasýningu Pálmars Arnar Guðmundssonar
Pálmar Örn Guðmundsson er Grindvíkingum að góðu kunnur. Grindavík er allsráðandi í verkum Pálmars en hann hefur sérhæft sig í verkum af grindvískum húsum og landslagi. Pálmar segir frá bakgrunni sínum, málverknum og Grindavík þegar hann leiðir gesti um sýninguna.
14:00 Fiskur undir steini
Fiskur undir steini var frumsýnd árið 1974 og segir frá menningarmanni úr Reykjavík sem ákvað að fara til Grindavíkur og kynnast af eigin raun lífinu í sjávarþorpi úti á landi. Þar búa hörkutól og þrælað er myrkranna á milli. Sýning myndarinnar kveikti heitari umræður um menningarmál á Íslandi en dæmi eru um fyrr og síðar. Þorsteinn Jónsson segir frá gerð myndarinnar og ræðir viðbrögðin í kjölfar sýningarinnar.
14:30 Leiðsögn um ljósmyndasýningu Sigurðar Ólafs Sigurðssonar
Sigurður Ólafur Sigurðsson ljósmyndari er með bakgrunn í leit og björgun og menntun björgunarfólks. Sigurður hefur tekið fjölda ljósmynda í Grindavík á síðustu mánuðum. Á sýningu hans á Menningarnótt má sjá nokkrar þessara mynda sem ekki hafa birst almenningi, m.a. af störfum viðbragðsaðila á vettvangi. Sigurður mun segja frá ljósmyndunum og verkefnum sínum í Grindavík.
15:00 Frie Mænd
Kvikmyndin „Frie Mænd, eða "Frjálsir menn" gerist í Danmörku og fjallar um tvo menn sem vinna í fiskvinnslu. Myndin er innblásin af því umhverfi sem leikstjórinn, Óskar Kristinn Vignisson, ólst upp í í Grindavík. Myndin var m.a. sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hefur ekki verið sýnd áður á Íslandi. Óskar Kristinn mun segja frá myndinni, innblæstrinum o.fl.
15:30 Frumsýning á brotum úr heimildaþáttum um körfuboltaliðin úr Grindavík
Stöð 2 Sport vinnur að sex þátta heimildaþáttaseríu um körfuboltann í Grindavík og áhrifin sem jarðhræringarnar höfðu á starf körfuknattleiksdeildarinnar og leikmenn liðsins. Þrátt fyrir að Grindvíkingum hafi ekki tekist að vinna titla síðasta vetur gekk mikið á innan og utan vallar. Sýnd verða brot úr þáttunum sem ekki hafa komið fyrir augu almennings áður. Framleiðendur þáttanna munu jafnframt segja frá framleiðsluferlinu og kynnum þeirra af liðunum.