Pílustaðurinn Bullseye hefur heldur betur tekið vel á móti okkur Grindvíkingum í hremmingum síðustu mánaða. Jón Gunnar Bergs eigandi Bullseye hefur meðal annars boðið nemendur í Grunnskóla Grindavíkur velkomna til sín og tekið á móti af mikilli gestrisni.
Krakkarnir í 5.bekk fóru í Bullseye í morgun og fengu að reyna sig í pílukasti. Áður en hefðbundin keppni hófst sýndi Jón Gunnar nemendum myndir af Austurbæ þar sem Bullseye er til húsa og fór yfir sögu hússins. Eftir að krakkarnir höfðu sýnt góð tilþrif í dágóða stund var boðið upp á snúða, kleinur og drykki auk þess sem myndbönd af bestu pílukösturum heims voru sýnd á skjánum. Síðan var farið í skemmtilega leiki þar sem hægt var að vinna sér inn stig og er óhætt að segja að krakkarnir hafi skemmt sér vel.
Krakkarnir í 5.bekk eru ekki eini nemendahópurinn sem hefur verið boðið í heimsókn í Bullseye sem er stærsti pílustaður á Íslandi, Evrópu og jafnvel þó víðar væri leitað. Bullseye hefur tekið á móti fjölmörgum nemendahópum sem allir koma jafnánægðir til baka.
Um leið og við þökkum Jóni Gunnari kærlega fyrir gestrisnina og móttökurnar hvetjum við ykkur til að kíkja á Bullseye í pílukast enda frábær skemmtun og aðstaðan á staðnum til fyrirmyndar. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá heimsókn 5.bekkjar í morgun.