Spurt og svarað

  • Grindavíkurbær
  • 22. maí 2024

Spurningar og svör vegna breytinga á starfsmannahaldi 

Tilgangur þessa skjals er að veita svör við spurningum sem kunna að brenna á Grindvíkingum í kjölfar þess að bæjarstjórn ákvað að fækka störfum hjá sveitarfélaginu. Skjalið er ekki tæmandi og getur tekið breytingum eftir því sem líður á, enda munu aðstæður breytast og ýmis mál skýrast. Upplýsingarnar verða birtar á vef Grindavíkurbæjar og uppfærðar þar eftir þörfum. Skjalið er fyrst og fremst til upplýsingar, en er ekki lagalega bindandi fyrir Grindavíkurbæ á nokkurn hátt. Öll svör eru samkvæmt bestu vitneskju þegar þau eru skrifuð.

1.    Hvers vegna grípur Grindavíkurbær til þessara aðgerða?
Tilgangur aðgerðanna er að verja sveitarfélagið fyrir því mikla fjárhagstjóni sem blasir við og tryggja sjálfsákvörðunarrétt Grindavíkurbæjar. Tekjur bæjarsins munu hríðfalla á þessu ári, vegna íbúafækkunar og breytinga á lögum um greiðslu fasteignaskatta í Grindavík, og bæjaryfirvöldum er nauðugur sá kostur einn að lækka rekstrarkostnaðinn. Þá er ljóst, að engin verkefni eru til staðar fyrir fjölda starfsfólks bæjarins á meðan starfsemi í bænum er í lágmarki.

2.    Hverjum verður sagt upp?
Fækkun starfsfólks mun ganga þvert á deildir og þjónustueiningar bæjarins. Ekki liggur fyrir hvaða einstaklingar verða fyrir aðgerðunum, en búast má við að starf verði lagt niður ef verkefnaleysi er fyrirsjáanlegt næstu 12 mánuði vegna aðstæðna. Það getur t.d. átt við um  ýmsa samfélagssþjónustu og þjónustu við íbúa sem ekki er veitt ef þjónustuþegi býr utan sveitarfélagsins.

3.    Hvenær skýrist hvort ég missi vinnuna?
Samkvæmt lögum um hópuppsagnir skal Grindavíkurbær eiga samráð við ýmsa aðila, þ.m.t. stéttarfélög starfsfólks. Mikilvægt er að vanda til verka og samráðsferli getur tekið nokkrar vikur. Sveitarfélagið skilur þá óvissu sem ætluð hópuppsögn veldur og mun hraða undirbúningsvinnunni eins og frekast er unnt svo hægt sé að eyða óvissunni.

4.    Hversu margir missa vinnuna við þessar uppsagnir?
Viðbúið er að um 150 störf verði lögð niður. Endanleg niðurstaða mun ráðast af aðstæðum í sveitarfélaginu, búsetuhorfum, almannahagsmunum, lögheimilisflutningum úr bænum o.fl. þáttum. 

5.    Á ég rétt á starfi aftur þegar starfsemi hefst í Grindavík á ný?
Bæjarstjórn trúir því að mannlíf í Grindavík muni blómstra á ný.  Á þessum tímapunkti er óvíst hvenær það verður, hversu stórt samfélagið verður, hverjar verða þarfir íbúa og hvert umfang þjónustu eða starfsemi Grindavíkurbæjar verður. Við ráðningar í störf að nýju verður horft til þekkingar og reynslu fólks, þ.m.t. fyrri starfa fyrir sveitarfélagið. Biðlaunaréttarhafar njóta forgangs samkvæmt kjarasamningum. 

6.    Hverjir munu halda sínum störfum?
Verkefnastaða er lykilatriði í ákvörðunum um niðurlagningu starfa og hvort þörf er fyrir störfin í bæjarfélaginu við núverandi og fyrirsjáanlegar aðstæður. Bæjaryfirvöld ætla sér að tryggja að hagsmunir Grindavíkurbæjar verði tryggðir, að eigna bæjarins verði gætt og sveitarfélagið geti tekið hratt við sér að nýju þegar sá tími kemur. Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hvaða störf verða áfram mönnuð, en áhersla er lögð á að hraða þeirri ákvörðun eins mikið og mögulegt er.

7.    Hvað er uppsagnarfrestur langur?
Lengd uppsagnarfrests ræðst af ýmsum þáttum, t.d. starfsaldri, lífaldri og öðrum áunnum réttindum. Almennt er uppsagnarfrestur á bilinu einn til sex mánuðir og fer hækkandi með lífaldri. Starfsmaður sem er orðinn 55 ára og hefur unnið 10 ár eða lengur hjá Grindavíkurbæ er með 4 mánaða uppsagnarfrest. Uppsagnarfrestur er  5 mánuðir ef viðkomandi er orðinn 60 ára og 6 mánuðir ef hann er orðinn 63 ára. Grindavíkurbær mun virða öll réttindi starfsfólks á öllum stigum málsins. 

8.    Þarf ég að vinna á uppsagnarfresti?
Engin breyting verður á vinnuskyldu, sem helst óbreytt út uppsagnartímann. Hefji starfsmaður vinnu hjá öðrum á meðan uppsagnarfrestur er í gildi falla niður launagreiðslur frá Grindavíkurbæ í samræmi við lög. Bærinn mun eftir fremsta megni heimila fólki að hætta störfum sem eins fljótt og verða má, hafi það ráðið sig í aðra vinnu.  

9.    Hvert get ég leitað til að fá upplýsingar um mín réttindi?
Stéttarfélög geta svarað öllum spurningum sem brenna á sínum félagsmönnum. Launafulltrúi Grindavíkurbæjar mun aðstoða eftir því sem mögulegt er.

10.    Hvar get ég fengið sálfræðiþjónustu eða sálrænan stuðning?
Starfsmissir getur verið mikið áfall fyrir fólk og við hvetjum fólk til að sækja sér stuðning ef þörf er á. Mörg stéttarfélög greiða niður sálfræðiþjónustu fyrir sína félagsmenn og eru til þjónustu reiðubúin. 

11.    Mun Grindavíkurbær hjálpa fólki í atvinnuleit? 
Vinnumálastofnun veitir aðstoð, ráðgjöf vegna atvinnumissi og næstu skref í atvinnuleit. Hægt er að bóka viðtalstíma hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar hér. Alþingi hefur samþykkt að setja á fót framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Á þeim grundvelli hefur verið sett á fót þjónustuteymi sem á að tryggja samþættan og markvissan stuðning við íbúa Grindavíkur m.a. er varðar atvinnuleit og virkni, húsnæði, þjónustu, skóla, tómstundir og íþróttir. Þjónustuteymið mun vera mannað reyndum sérfræðingum þvert á kerfi og mun öllum Grindvíkingum, einstaklingum og fjölskyldum, verða boðið viðtal hjá teyminu og í framhaldinu frekari stuðning eftir þörfum. Frekari upplýsingar verða auglýstar og sendar öllum Grindvíkingum á næstu dögum.

12.    Verða fleiri hópuppsagnir síðar á árinu?
Aðrar hópuppsagnir eru ekki ráðgerðar. Breytingar á starfsmannahaldi eru þó ekki útilokaðar, hvorki ráðningar í tilgreind verkefni né uppsagnir ef verkefni verða ekki til staðar fyrir einstök störf.

13.    Hvernig verður fólk látið vita hvort það heldur starfinu eða missir það?
Að loknu samráði við stéttarfélög verður starfsfólk boðað til fundar við sinn yfirmann þar sem ákvörðun verður tilkynnt. 

14.    Geta þau sem missa vinnuna sótt að nýju um störf sem losna hjá Grindavíkurbæ? 
Já. Ákvörðun um uppsögn byggir ekki á frammistöðu starfsfólks, heldur á aðstæðum sem hafa ekkert að gera með ágæti, færni og hæfileika. Fjölmargt hæft og eftirsótt starfsfólk mun láta af störfum hjá sveitarfélaginu vegna þessara aðgerða. 

15.    Hvaða áhrif munu uppsagnirnar hafa á það starfsfólk sem eftir verður? 
Grindavíkurbær mun reyna að lágmarka áhrifin af aðgerðunum á þá sem áfram verða við störf, en hitt er ljóst að aðstæðurnar eru krefjandi og áhrif á andrúmsloftið verða neikvæð. Uppsagnirnar eiga ekki að auka vinnuálag þeirra sem eftir verða, enda er útgangspunkturinn að þörf fyrir niðurlögð störf sé ekki til staðar við núverandi aðstæður.

16.     Hver verða áhrifin á þjónustu bæjarins?  
Samfélagsþjónusta og þjónusta við einstaka íbúa, börn og fullorðna, liggur að stórum hluta niðri nú þegar. Niðurlagning starfa miðast fyrst og fremst við störf þar sem fá eða engin verkefni eru til staðar, eða verkefnaleysi er fyrirsjáanlegt í ljósi aðstæðna. Vænta má að uppsagnirnar hafi því lítil áhrif á þjónustuna. 

17. Hvar get ég fengið sálfræðiþjónustu eða sálrænan stuðning?
Flóknar og erfiðar tilfinningar geta fylgt því að fá uppsagnarbréf. Starfsfólk Grindavíkurbæjar sem fær uppsagnarbréf stendur frammi fyrir því að þurfa að taka nýja stefnu. Til þess að geta fengið aðstoð við það þarf að vita hvert á að leita eftir henni. Það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum en starfsfólki Grindavíkurbæjar stendur til boða sértæk stuðningsúrræði vegna atvinnumissis.

Í samstarfi við EMDR á Íslandi stendur þér til boðið að að taka þátt í ASSYST hópmeðferð helgina 25.-26. maí nk., radgjof@grindavik.is. Um er að ræða sálrænan stuðning í kjölfar erfiðra atburða þar sem boðið er upp á hópfundi, þátttakendum að kostnaðarlausu.

Starfsmenn Grindavíkurbæjar geta óskað eftir stuðningi og ráðgjöf með því að skrá sig hér radgjof@grindavik.is.

Til viðbótar við úrræði fyrir starfsfólk Grindavíkur hefur verið samþykkt að setja á fót þjónustuteymi sem á að tryggja samþættan og markvissan stuðning við íbúa Grindavíkur m.a. er varðar atvinnuleit og virkni, húsnæði, þjónustu, skóla, tómstundir og íþróttir. Þjónustuteymið verður starfrækt á vegum framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar. Nánari upplýsingar verða veittar innan tíðar.


Sértæk stuðningsúrræði fyrir starfsfólk Grindavíkurbæjar:

Flóknar og erfiðar tilfinningar geta fylgt því að fá uppsagnarbréf. Starfsfólk Grindavíkurbæjar sem fær uppsagnarbréf stendur frammi fyrir því að þurfa að taka nýja stefnu. Til þess að geta fengið aðstoð við það þarf að vita hvert á að leita eftir henni. Það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum en starfsfólki Grindavíkurbæjar stendur til boða sértæk stuðningsúrræði vegna atvinnumissis.

  • Vinnumálastofnun veitir aðstoð, ráðgjöf vegna atvinnumissi og næstu skref í atvinnuleit. Hægt er að bóka viðtalstíma hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar hér
  • Í samstarfi við EMDR á Íslandi stendur þér til boðið að að taka þátt í ASSYST hópmeðferð helgina 25.-26. maí nk., radgjof@grindavik.is. Um er að ræða sálrænan stuðning í kjölfar erfiðra atburða þar sem boðið er upp á hópfundi, þátttakendum að kostnaðarlausu.
  • Starfsmenn Grindavíkurbæjar geta óskað eftir stuðningi og ráðgjöf frá Vinnuvernd með því að skrá sig hér radgjof@grindavik.is.

Til viðbótar við úrræði fyrir starfsfólk Grindavíkur hefur verið samþykkt að setja á fót þjónustuteymi sem á að tryggja samþættan og markvissan stuðning við íbúa Grindavíkur m.a. er varðar atvinnuleit og virkni, húsnæði, þjónustu, skóla, tómstundir og íþróttir. Þjónustuteymið verður starfrækt á vegum framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar. Nánari upplýsingar verða veittar innan tíðar.

Nánari upplýsingar um stuðningsúrræði má finna á Ísland.is


Deildu þessari frétt

AÐRAR SÍÐUR