Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í Reykjavík sunnudaginn 2. júní nk. Mikil spenna ríkir í herbúðum þeirra sem standa að hátíðinni enda má gera ráð fyrir fjölmenni við höfnina á Granda þar sem Sjóaranum síkáta, hátíðarhöldum Grindvíkinga, hefur verið boðið að taka þátt.
Sú rómaða sjómannadagshátíð “Sjóarinn síkáti” sem haldin hefur verið í Grindavík í rúman aldarfjórðung verður á þessu ári við Reykjavíkurhöfn í ljósi aðstæðna í bænum. Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og Brim eru bakhjarlar Sjómannadagsins í Reykjavík og buðu Grindvíkingum að taka þátt og nota aðstöðuna við höfnina í höfuðborginni.
“Snemma árs fengum við hjá Grindavíkurbæ símtal frá formanni Sjómannadagsráðs þar sem hann bauð okkur um borð ef svo má að orði komast, þar sem ljóst var að ekki gæti orðið að hátíðarhöldum í bænum okkar. Við þurftum ekki langan umhugsunarfrest og þáðum boðið og því geta Grindvíkingar og landsmenn allir notið Sjóarans síkáta í ár eins og undanfarin 26 ár”, segir Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur.
“Við ætlum að tjalda öllu til og taka vel á móti heiðursgestum sjómannadagsins 2024, Grindvíkingum, sem nú fá heimaskjól fyrir Sjóarann síkáta við höfnina á Granda. Þegar þeir þáðu boðið hlýnaði í mínum hjartarótum enda hafa þeir gert sjómannadeginum einstaklega hátt undir höfði í fjölda ára og haldið veglega 3ja daga veislu í bænum, sjómönnum til heiðurs”, segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.