Eldgos hófst á milli Hagafells og Stóra Skógfells sl. laugardagskvöld eftir skammvinna skjálftavirkni. Dregið hefur úr virkni og hraunrennsli. Gosið hefur nú sjö sinnum frá 19. mars 2021 og er þetta eldgos það fjórða í röðinni á jafnmörgum mánuðum. Vísbendingar eru um að landris haldi áfram í Svartsengi eftir upphaf gossins.
Fyrirvari viðbragðsaðila nú var enginn en vel tókst til með að rýma bæði Grindavík og eins Bláa lónið þar sem fjöldi gesta var samankominn.
Í morgun stóð til að landa úr skipum í Grindvíkurhöfn en það var ákvörðun viðbragðsaðila að heimila það ekki m.a. vegna mengunarhættu og óvissu með framgang hraunrennslis fyrir ofan Suðurstrandarveg. Hrauntjörn hefur myndast skammt frá enda hraunjaðarsins ofan við Suðurstrandarveg. Er því viðbragðsaðilum sem öðrum haldið frá hraunjaðrinum á meðan hætta er talin á að hraun geti flætt þar fram á miklum hraða. Enn er hætta á að hraun renni yfir Suðurstrandarveg. Í dag er mikil brennisteinsmengun á svæðinu. Þá er hluti Grindavíkurvegar undir hrauni og sú flóttaleið úr sögunni í einhverja daga.
Frá Veðurstofu Íslands:
Uppfært 18. mars, kl. 11:45
• Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær.
• Hæg hreyfing á hrauntungunni sem stefnir í átt að Suðurstrandarvegi.
• Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum. Jaðarinn færst lítið áfram miðað við í gærkvöldi.
Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum. Virkustu gígarnir eru sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim er hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram miðað við í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg aðfaranótt sunnudags.
Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamyndum sem voru teknar kl. 14:56 í gær, 17. Mars. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Ef veðuraðstæður leyfa verður farið í mælingaflug yfir gosstöðvarnar síðar í dag sem gæfi nákvæmari tölur um flatarmál en einnig rúmmál hraunsins.
Veðurspá Veðurstofu Íslands
Veðurspá fram eftir degi er suðaustan- og austan 8-13 m/s á gosstöðvunum en síðan hægari sunnan og suðvestanátt. Gasmengun berst þá til norðvesturs og vesturs, en norðurs seinnipartinn. Talsverð óvissa er í styrk gasmengunar. Suðvestan 10-18 á morgun og mun gasmengunin þá fara til norðausturs. Ólíklegt er að gasmengun berist til höfuðborgarsvæðisins vegna hvassviðris. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.
Aðgangur fyrir fyrirtæki og íbúa inn í Grindavík verður endurskoðaður eftir fund viðbragðsaðila í fyrramálið. Þá er það forsenda fyrir opnun inn í Bláa Lónið og Northern Light Inn að hægt verði að opna flóttaleið inn á Grindavíkurveg og inn á Reykjanesbraut. Þannig háttaði til þegar starfsemi hófst þar að nýju eftir síðasta gos.
Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla sinnir lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.
Lokunarpóstar eru við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar, Nesveg og Suðurstrandarveg. Grindavíkurvegur er ófær þar sem hraun rann yfir veginn á sama stað og í síðasta gosi.
Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is
Hér má sjá uppfært hættumatskort frá Veðurstofu Íslands
Hér má sjá kort af mögulegri mengun ef hraun nær út í sjó