558. fundur bæjarstjórnar Grindavíkur haldinn í Tollhúsi við Tryggvagötu, þriðjudaginn 5. mars 2024 og hófst hann kl. 10:00.
Fundinn sátu:
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti, Birgitta H. Ramsay Káradóttir, aðalmaður,
Hjálmar Hallgrímsson, aðalmaður, Helga Dís Jakobsdóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Sævar Þór Birgisson, varamaður, Hallfríður G Hólmgrímsdóttir, aðalmaður, Birgitta Rán Friðfinnsdóttir, aðalmaður og Gunnar Már Gunnarsson, aðalmaður.
Einnig sátu fundinn:
Jón Þórisson, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og Fannar Jónasson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði: Jón Þórisson, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Í upphafi fundar óskar forseti eftir heimild til að taka eftirfarandi mál inn með afbrigðum sem 9. mál.
2403008 - Aðgangur að upplýsingum um málefni er varða Grindavík
Samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
1. Starfsmannamál - 2401106
Gestir fundarins undir þessum dagskrárlið: Sviðsstjórar Grindavíkurbæjar, launafulltrúi, Guðjón Bragason, Karl Björnsson og Anton Björn Markússon.
Til máls tóku: Ásrún, bæjarstjóri, Birgitta Hrund, Hallfríður, Birgitta Rán, launafulltrúi, sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, hafnarstjóri, sviðstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Hjálmar, Karl, Anton og Gunnar Már.
Farið yfir stöðu mála.
2. Jarðskjálftar, landris og eldgos í Grindavík 2024 - 2401118
Gestir fundarins undir þessum dagskrárlið: Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Guðjón Bragason.
Til máls tóku: Ásrún, Hjálmar, bæjarstjóri, Gunnar Már, Hallfríður, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Birgitta Hrund og Guðjón.
Farið yfir stöðu mála.
3. Tjón á mannvirkjum vegna náttúruhamfara í Grindavik - 2312003
Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Sævar vék af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.
Til máls tóku: Ásrún, Sævar, Hjálmar, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, bæjarstjóri, sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs, Gunnar Már, Birgitta Rán og Hallfríður.
Lagt fram yfirlit frá NTÍ, dags. 4. mars 2024 vegna tjónaðra húsa.
Uppfærður listi frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands lagður fram þar sem óskað er afstöðu bæjarstjórnar til þess hvort viðgerð og/eða endurbygging húsa verði heimil, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 55/1992 um NTÍ. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, fór yfir listann. Jafnframt gerði hann grein fyrir því að listinn geti ekki skoðast sem endanlegur, NTÍ muni áfram taka við tilkynningum um tjón vegna jarðhræringa og frekari skemmdir á fasteignum eiga enn eftir að koma í ljós.
Í framhaldi af erindi NTÍ er eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilar ekki endurbyggingu á eftirtöldum lóðum fyrr en hættumat og endurskoðaðir skipulagsskilmálar fyrir umræddar lóðir liggur fyrir. Um er að ræða eftirtaldar lóðir með eignum sem Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) hefur metið sem altjón á einum eða fleiri matshlutum.
Vörðusund 1
Austurvegur 3C
Mánagata 19
Víkurbraut 17
Hóp 1
Efrahóp 31
Samþykkt samhljóða.
4. Starfshópur um mögulega uppbyggingu húsnæðis í þágu Grindvíkinga - 2402075
Gestir fundarins undir þessum dagskrárlið: Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Guðjón Bragason.
Til máls tóku: Ásrún, Guðjón, bæjarstjóri og Hallfríður.
Lagt fram minnisblað til ríkisstjórnar frá framkvæmdahópi um hraða uppbyggingu húsnæðis vegna náttúruhamfara í Grindavík, dags. 20. febrúar 2024 og ódagsett "greinargerð til innviðaráðherra frá starfshópi um möguleika á uppbyggingu húsnæðis vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík."
Bókun
Ríki og sveitarfélög sammæltust um það á árinu 2022 að byggja þurfi 35.000 íbúðir til þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á árunum 2023 til 2032 en einnig til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf. Á tímabilinu þurfi því að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin. Greiningar HMS og Samtaka iðnaðarins á íbúðamarkaði sýna glöggt að þetta markmið er fjarri því að vera uppfyllt þar sem verulegur samdráttur er í nýframkvæmdum.
Augljóst er að kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík mun auka eftirspurn og að brýnt er að grípa tafarlaust til aðgerða sem auka framboð. Fyrstu niðurstöður könnunar um húsnæðisþörf Grindvíkinga, sem framkvæmd var í janúar sl., sýna að þörf er á húsnæði fyrir rúmlega 700 fjölskyldueiningar. Í hverri einingu teljast einn eða fleiri heimilismenn. Í þessum hópi er töluverður fjöldi sem ekki býr í tryggu húsnæði, þar sem leigutími er að renna út á næstu vikum, m.a. fólk sem býr í orlofsíbúðum stéttarfélaga. Töluverður fjöldi Grindvíkinga býr í óviðunandi húsnæði og er í brýnni þörf fyrir húsnæði við hæfi.
Af hálfu húsnæðisteymis Grindavíkurbæjar hefur verið lögð áhersla á að fjölbreyttar leiðir séu nauðsynlegar til að mæta þörfum Grindvíkinga um öruggt húsnæði. Sumar ábendingar lúta að því að kaupa nýjar íbúðir á svæðum þar sem Grindvíkingar kjósa helst að búa og starfa. Aðrar ábendingar lúta að því að flytja inn einingahús, líkt og spretthópur benti á, ásamt því að leita eftir samstarfi við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög um byggingu hagkvæmra íbúða til eignar eða leigu. Sérstaklega er bent á að huga þurfi að þörfum eldri borgara og annarra íbúa sem bjuggu í félagslegum húsnæðisúrræðum enda er óraunhæft að gera ráð fyrir að þessir hópar eigi möguleika á að kaupa íbúðarhúsnæði.
Bæjarstjórn telur að dráttur á ákvörðunum í húsnæðismálum sé óásættanlegur og lýsir miklum vonbrigðum með að í greinargerð framkvæmdahóps um hraða uppbyggingu húsnæðis vegna náttúruhamfara í Grindavík skuli ekki vera lagðar fram beinar tillögur um aðgerðir sem geti stuðlað að húsnæðisöryggi Grindvíkinga.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska eftir að bæjarstjórn fái tækifæri til að ræða sem fyrst við innviðaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra um raunhæfar aðgerðir til að tryggja húsnæðisöryggi Grindvíkinga. Á þeim fundi verði lögð sérstök áhersla á að hraða tilteknum aðgerðum ásamt því að stuðla að fjölbreyttum lausnum í húsnæðismálum með hliðsjón af ólíkum þörfum. Leggur bæjarstjórn áherslu á að Grindavíkurbæ verði tryggður beinn þátttökuréttur við gerð frekari tillagna um úrbætur í húsnæðismálum.
Bæjarstjórn vill að lokum lýsa þakklæti varðandi þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í húsnæðismálum en tekur fram að þær hafa eingöngu snúið að því að mæta tímabundnum vanda með kaupum á leiguíbúðum. Verulega aukinna aðgerða er þörf til að mæta raunverulegum þörfum Grindvíkinga eftir varanlegu íbúðarhúsnæði.
5. Starfsstyrkir til UMFG 2024 - 2403006
Sviðsstjóri frístunda og menningarsviðs sat fundinn undir þessum dagskrárliðs.
Til máls tóku: Ásrún, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslu, Hjálmar, Gunnar Már, Birgitta Hrund
Lögð fram drög að rekstraráætlun UMFG fyrir árið 2024 ásamt greinargerð.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að greiða janúar til og með apríl vegna styrkja sem skiptast niður á mánuði skv. samningi.
Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að greiða styrki vegna Launa og skrifstofuhalds kr. 11.350.000 og unglingastyrk að fjárhæð 3.000.000 þegar tilskyldum greinargerðum er skilað.
6. Starfsnámsskólar - verkmenntaaðstaða við FS - 2401095
Til máls tóku: Ásrún, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, bæjarstjóri, Hjálmar, Gunnar Már, Birgitta Hund, Birgitta Rán og Hallfríður.
Bæjarstjórn Grindavíkur lýst vel á verkefnið en í ljósi óvissu um rekstur sveitarfélagsins og íbúaþróun þá getur Grindavíkurbær ekki tekið þátt í verkefninu að svo stöddu.
7. Grindavíkurbær heiðursgestur menningarnætur Reykjavíkurborgar - 2402077
Til máls tóku: Ásrún og bæjarstjóri.
Lögð fram tillaga borgarstjóra til borgarráðs á fundi 29. febrúar 2024:
"Lagt er til að borgarráð samþykki að Grindavíkurbær verði heiðursgestur
menningarnætur í Reykjavík 2024 í tilefni af vinatengslum bæjarfélaganna og 50 ára
kaupstaðarafmælis Grindavíkurbæjar í ár.
Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar, hátíðin er alltaf haldin fyrsta
laugardag eftir 18. ágúst en þann dag 1786 fékk Reykjavíkurborg kaupstaðarréttindi.
Menningarnótt var haldin í fyrsta sinn árið 1996 og hefur frá upphafi skipað mikilvægan sess í viðburðahaldi í borginni þar sem listafólk, íbúar og rekstraraðilar fá tækifæri til að bjóða til veislu í miðborginni. Um árabil hefur tíðkast að bjóða völdum sveitarfélögum að vera heiðursgestur á Menningarnótt og er sannur heiður að bjóða Grindavíkurbæ sem heiðursgesti 2024."
Bæjarstjórn Grindavíkur þiggur boðið og þakkar borgarstjóra og borgarráði Reykjavíkur þann heiður sem Grindavíkurbæ er sýndur af þessu tilefni. Jafnframt felur bæjarstjórn bæjarstjóra að fylgja boðinu eftir við borgarráð Reykjavíkur.
8. Kvaðir um forkaupsrétt á eignum í Grindavík - 2403005
Til máls tóku: Ásrún, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, bæjarstjóri og Gunnar Már.
Lögð fram beiðni fasteignafélagsins Þórkötlu, dags. 29. febrúar 2024 þar sem óskað er eftir að Grindavíkurbær falli frá forkaupsrétti sem tilgreindur er í lóðarleigusamningum Grindavíkurbæjar vegna kaupa fasteignafélagsins á íbúðarhúsnæði í Grindavík á grundvelli laga nr. 16/2024, um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að nýta ekki forkaupsrétt þann sem tryggður er í lóðarleigusamningum vegna kaupa fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavík á grunni umræddra laga.
9. Aðgangur að upplýsingum um málefni er varða Grindavík - 2403008
Til máls tóku: Ásrún, Birgitta Hrund, bæjarstjóri,
Ljóst er að mikil vinna er varða málefni Grindavíkur er í gangi í ráðuneytum og nefndum yfirvalda.
Þar sem bæjarfulltrúar eru í beinu sambandi við íbúa og lögaðila í sveitarfélaginu óskar bæjarstjórn eftir frekara upplýsingaflæði og einkum á að fá þau minnisblöð sem eru til staðar og snúa að málefnum Grindavíkur og Grindvíkinga.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.
10. Fundargerðir 2023 - Svæðisskipulag Suðurnesja - 2301125
Til máls tóku: Ásrún, Hallfríður, bæjarstjóri, Birgitta Rán og Birgitta Hrund.
Fundargerð 43. fundar Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja haldinn þann 22. febrúar 2024 er lögð fram til kynningar.
11. Skipulagsnefnd - 129 - 2402015F
Til máls tóku: Ásrún og Hjálmar.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:35.