Í ljósi fyrirspurna sem stofnuninni hefur borist vegna atburðanna í Grindavík og lagafrumvarps um kaup á íbúðarhúsnæði í bænum hefur HMS tekið saman helstu upplýsingar um brunabótamat og framkvæmd þeirra.
Allar helstu upplýsingar er að finna hér en m.a. kemur fram:
Brunabótamat nær yfir efnisleg verðmæti eignar (til dæmis timbur, steypu, stál) og kostnað við byggingu, að frádregnum afskriftum vegna aldurs, slits og ástands. Eignir afskrifast aldrei að fullu en á fyrstu 60 árum eignar afskrifast brunabótamatið að einhverju leyti. Gert er ráð fyrir að húsið hafi fengið eðlilegt viðhald. Auk þess er innifalinn kostnaður við að fjarlægja brunarústir.
Ef farið er í miklar endurbætur og hlutar eignar endurnýjaðir getur verið ástæða til að endurskoða afskriftarár eignarinnar. Við það ganga afskriftir til baka að einhverju leyti. Þá eru þeir byggingarhlutir ekki taldir lengur frá þeim tíma sem húsið var byggt (til dæmis 1963) heldur frá þeim tíma sem þeir voru endurnýjaðir (til dæmis 2022).
Hér fyrir neðan eru svör við helstu spurningum sem HMS hefur borist og varða framkvæmd brunabótamats á fasteignum í Grindavík:
Er hægt að sækja um endurmat á brunabótamati?
Já. Íbúðaeigendur geta sótt um endurmat á brunabótamati með því að smella á þennan hlekk. Endurmatið er gjaldfrjálst, en umsókninni þarf að fylgja greinargóð lýsing á öllum endurbótum eða viðbyggingum sem hafa verið framkvæmdar á eigninni frá því að brunabótamat var síðast endurmetið. Þá þarf að fylgja með hvaða ár var ráðist í einstaka framkvæmdir og svo þurfa að fylgja með myndir af því sem talið er upp.
Hvaða þættir eru metnir til hækkunar á brunabótamati?
Íbúðaeigendur hafa ástæðu til að óska eftir endurmati á brunabótamati ef einhverju hefur verið bætt við eignina eða meiri háttar endurbætur hafa átt sér stað. Dæmi um viðbætur eru stækkun á húsi, skjólveggir úr timbri og sólpallur. Rétt er að nefna að steyptar eða hlaðnar stéttar, bílastæði eða steyptar verandir og steyptir skjólveggir eða garðveggir eru ekki í brunabótamati. Þá eru snjóbræðslukerfi heldur ekki í brunabótamati. Dæmi um endurbætur eru nýjar lagnir, nýjar innréttingar og ný einangrun. Viðgerðir sem teljast eðlilegt viðhald á húseignum eru þó ekki metnar til hækkunar á brunabótamati.
Er tekið tillit til lóðaréttinda og gatnagerðargjalds í brunabótamati?
Nei. Brunabótamat nær einungis yfir efnisleg verðmæti eignar (til dæmis timbur, steypu og stál) og kostnað við byggingu, að frádregnum afskriftum vegna aldurs, slits og ástands. Auk þess er kostnaður innifalinn við að fjarlægja brunarústir.
Á brunabótamatið að endurspegla markaðsvirði íbúðar?
Nei. Brunabótamat íbúða á að endurspegla kostnað þess að byggja þær eftir altjón þannig að það verði sambærilegt því sem það var áður. Matið er svo endurskoðað árlega út frá verði á byggingarefnum (til dæmis steypu, stáli og timbri) og uppfærist þess á milli mánaðarlega með byggingarvísitölu.
Hver er munurinn á fasteignamati og brunabótamati?
Fasteignamat er byggt á markaðsvirði, m.a. á verði á kaupsamningum á fasteignamatssvæði eignarinnar fram í febrúar árið á undan. Brunabótamati er ætlað að endurspegla þann kostnað sem það myndi kosta að fjarlægja brunarústir og byggja húsið aftur ef til altjóns kæmi. Það er alveg óháð markaðsvirði eigna hverju sinni en byggir fyrst og fremst á verði á t.d. steypu, stáli og timbri og mannatímum þeirra sem koma að því að byggja húsið. HMS hefur áður tekið saman helstu upplýsingar um fasteignamat til upplýsingar fyrir Grindvíkinga, sem nálgast má hér.
Nánari upplýsingar um framkvæmd brunabótamats og hvernig sækja má um endurmat brunabótamats má finna með því að smella á þennan hlekk.