Heil og sæl góðir Grindvíkingar,
Það hefur heldur betur dregið til tíðinda frá síðasta pistli bæjarstjórnar.
Ríkisstjórnin boðaði bæjarstjórn á fund á föstudagsmorguninn 9. febrúar og kynnti okkur nokkra punkta þess frumvarps sem birtist síðar sama dag, en frumvarpið í heild sinni sáum við svo þegar það birtist í samráðsgáttinni seinni partinn.
Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu margir skiluðu inn umsögn og vonandi mun það verða okkur öllum til hagsbóta.
Bæjarstjórn vinnur að minnisblaði, byggðu meðal annars á punktum sem íbúar hafa komið að máli við okkur með einum eða öðrum hætti og þeim umsögnum sem skilað var inn í samráðsgáttina. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Grindvíkinga og að þverskurður sjónarmiða er mjög misjafn.
Minnisblaðið þarf að vanda vel og í ljósi þess að við erum ekki fagaðilar né vön því að semja minnisblöð vegna lagafrumvarpa höfum við leitað okkur lögfræðiaðstoðar til að leggja málinu lið.
Minnisblaðið mun vera birt um leið og það er opinbert.
Við teljum mikilvægt að benda Grindvíkingum á að það er hægt að óska eftir endurmati á brunabótamati, telji eigandi það vanmetið. Þó ber að hafa í huga að brunabótamat getur hækkað eða lækkað við endurmat.
Bæjarstjórn var einnig boðuð á fund með nokkrum fyrirtækjaeigendum og stjórnendum í Grindavík á þriðjudaginn og þótti okkur sá fundur gagnlegur.
Þó fundarmenn hafi alls ekki verið tæmandi listi yfir alla sem stunda fyrirtækjarekstur í Grindavík þá er mikilvægt að eiga samtalið á einum eða öðrum vettvangi.
Bæjarstjórn vill ítreka nokkur atriði sem komu fram á fundinum og er gott að deila með öllum sem eiga hlut að máli, hvort sem á um einyrkja eða stór fyrirtæki.
Að þessu sögðu höfum við að sjálfsögðu heimild til að beita okkur í þeim málefnum sem við teljum hagsmuni bæjarfélagsins, íbúa og fyrirtækja.
Það höfum við reynt við hvert tækifæri, við erum öll að vinna að sameiginlegu markmiði þó aðferðir okkar séu jafn mismunandi og við erum mörg í bæjarstjórn. Aðferðirnar eru til dæmis samtöl, símtöl og tölvupóstsamskipti með von um samvinnu og aðgang að verkefninu, boð á fundi bæjarstjórnar, bókanir á bæjarstjórnarfundum og viðtöl í fjölmiðlum.
Eftir fundinn skrifuðu grindvísk fyrirtæki eftirfarandi “Ákall um aukið aðgengi að bænum” sem var sent á fjölmiðla, bæjarstjórn Grindavíkur, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðherra og lögreglustjórann á Suðurnesjum:
Fyrirtæki í Grindavík eru komin að þolmörkum. Mikilvægt er að opna bæinn fyrir aukinni starfsemi. Enn er hægt að halda lífi í fyrirtækjum með því að hefja rekstur meðan náttúran er róleg. Þó að staðan í Grindavík sé alvarleg þá er stór hluti bæjarins í lagi, og ennþá tækifæri til að halda lífi í fyrirtækjunum þar. Við höfum lært á síðustu vikum og mánuðum að á milli atburða líða einhverjar vikur þar sem náttúran er róleg og tími gefst til að vera í Grindavík. Öryggi fólks á alltaf að vera í forgrunni, og mikilvægt er að kanna stöðu bæjarins og innviða eftir hvern atburð. En strax að því loknu þarf að gera fyrirtækjum kleift að vinna í bænum frá morgni til kvölds, kl.7:00-19:00, með öryggisvitund og tilbúnar viðbragðsáætlanir. Ef bærinn á að eiga möguleika að byggjast upp aftur þá þarf að halda ljósunum á í fyrirtækjunum. Fyrirtæki í Grindavík krefjast þess að aðgengi að bænum verði gert reglulegt og fyrirsjáanlegt, og ef eitthvað vantar upp á öryggisgæslu í bænum þá geta fyrirtækin sjálf lagt lóð á vogarskálarnar.
Bæjarstjórn tekur heilshugar undir sjónarmið þeirra sem standa fyrir ákallinu. Við teljum mjög mikilvægt að þau fyrirtæki sem geta hafið starfsemi fái möguleika til þess. Hagur samfélagsins er margþættur, meðal annars fyrir fyrirtækin að hefja rekstur, áframhaldandi atvinna í sveitarfélaginu og tekjur fyrir fyrirtækin, starfsmenn og sveitarfélagið.
Við erum þó meðvituð um að sum fyrirtæki eru einfaldlega ekki í tegund rekstrar sem hæfir núverandi aðstæðum og er það einlæg von okkar að hvert og eitt fyrirtæki fái farsæla lausn í takt við óskir.
Bæjarstjórnarfundur var á sínum stað í gær þriðjudaginn 13. febrúar og voru 6 almenn mál á dagskrá
*Jarðskjálftar, landris og eldgos í Grindavík – þar var farið yfir stöðu mála sem hefur lítið sem ekkert breyst og engar nýjar upplýsingar lagðar fram.
*Uppbygging varnargarða til varnar Grindavíkur - lagt fram.
*Drög að lagafrumvarpi um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík- þar var farið yfir frumvarpið og væntanlegt minnisblað með lögfræðingi.
*Auglýsing um ákvörðun innviðaráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar. – þar var óskað eftir framlengingu.
*Víðihlíð, íbúðir aldraðra – uppgjör leigusamninga. – En bæjarstjórn samþykkti að endurgreiða íbúðarétt eða leigutryggingu allra íbúða í Víðihlíð.
*Óskað er eftir framboði til stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga. – lagt fram.
Bæjarstjórn sleit formlegum fundi um kl 18:00 en heldur áfram ótrauð að vinna að verkefnum Grindavíkur, ásamt því að læra á náttúruvarnarástand og bæta við sig jarðfræði þekkingu.
Við erum ekki sérfræðingar á þessum sviðum en við erum öll að gera okkar besta í nýjum og krefjandi aðstæðum.
Bæjarstjórn sendir heillaóskir til allra sem fengu tilnefningu, viðurkenningu og unnu til verðlauna á nýafstöðnum viðburði um val á íþróttafólki Grindavíkur, við búum svo sannarlega að miklum auði undir sameiningartákninu sem UMFG er.
Innilega til hamingju með titlana - áfram þið!
Alexander Veigar Þorvaldsson - Íþróttakarl Grindavíkur 2023
Hulda Björk Ólafsdóttir - Íþróttakona Grindavíkur 2024
Danielle Rodriguez - Þjálfari ársins 2024
Píludeild Grindavíkur - Íþróttalið ársins 2024
Auk liða frá Grindavík sem urðu Íslandsmeistarar á árinu 2023.
Að lokum er gott að minnast á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir eigin heilsu, líkamlegri og andlegri og ítreka þann stuðning sem er í boði, bæði í Tollhúsinu, þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar og í Köru Connect.
Sýnum sjálfum okkur mildi, sem og náunganum. Við erum öll í sama bátnum og bjargráðin okkar mismunandi, sýnum hvoru öðru virðingu, bæði í raunheimi og netheimi, sýnum skilning, þolinmæði og kærleika.
Við erum öll Grindavík – Við erum samfélagið - Við stöndum með Grindavík