Frá Fannari bćjarstjóra

  • Fréttir
  • 9. febrúar 2024

Kæru Grindvíkingar

Klukkan 5:30 á í gærmorgun (fimmtudag) hófst áköf smáskjálftavirkni norðaustan við Sýlingarfell og einungis um 30 mínútum síðar hófst eldgos. Gosið var á sömu slóðum og þegar gaus 18. desember en hraunflæðið var heldur minna en þá. Í upphafi var útlit fyrir að hraunið rynni til norðurs en reyndin var sú að stífur hrauntaumur leitaði til vesturs í átt að Grindavíkurvegi. Svo fór að hraunið rann yfir veginn og tók í sundur stofnlögn HS Veitna, svokallaða Njarðvíkuræð. Sú lögn flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ og þar með varð heitavatnslaust á öllum Suðurnesjum utan Grindavíkur. Lýst var yfir neyðarstigi almannavarna vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum. Þegar leið á daginn fór verulega að draga úr krafti gossins allt bendir til þess að komið sé að goslokum. 

Undir venjulegum kringumstæðum hefði þótt miklum tíðindum sæta að eldgos hæfist á Reykjanesinu. Það er því sérkennilegt hversu fáum Grindvíkingum kom þessi atburðarás á óvart. Veðurstofan heldur úti stífri vöktun á svæðinu og sendir almannavörnum viðvaranir ef gos er í vændum. Kvikusöfnun hafði verið stöðug undir Svartsengi ásamt landrisi á sömu slóðum. Álíka magn af kviku hafði safnast undir Svartsengi og fyrir gosið 14. janúar og því hafði Veðurstofan talið auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi síðustu daga og að fyrirvarinn gæti orðið styttri en áður. 

Á sunnudag og mánudag gafst íbúum Grindavíkur kostur á að vitja um eigur sínar og sækja húsmuni. Miðað var við að aðgangur hvers og eins væri allt að 6 klukkustundir. Mjög margir nýttu sér þetta tækifæri og fór umsóknarferli um aðgengi í gegnum island.is. Íbúum sem þurftu á aðstoð að halda vegna flutnings á munum gafst kostur á slíkri þjónustu. Í vikunni náðu mörg fyrirtæki að kanna starfsstöðvar sínar og sækja vörur og búnað til Grindavíkur, eða stunda einhverja starfsemi. Mörgum fyrirtækjaeigendum hefur þótt vonum seinna að komast að eignum sínum í bænum. 

Bæjarstjórn og bæjarstjóri fengu í morgun boð um að mæta til fundar við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra þar sem kynnt voru áform ríkisins um að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu Grindvíkinga. Ríkið mun stofna félag vegna kaupanna og mun það bera ábyrgð á rekstri fasteignanna fyrir hönd ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að kaupverðið verði sem nemur 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Vitað er að ýmsir Grindvíkingar hafa gert kauptilboð í húseignir með fyrirvara um fjármögnun og hafa í því sambandi horft til framangreindrar greiðslu úr ríkissjóði.  

Því miður er enn knýjandi þörf fyrir frekari húsnæðisúrræði fyrir Grindvíkinga. Í þjónustumiðstöðinni í Tollhúsinu vinnur starfsfólk að því hörðum höndum að leysa úr vanda fólks og í því skyni leitað ýmissa leiða til úrbóta. Kallað hefur verið eftir lausnum af hálfu ríkisvaldsins og lagðar fram ítarlegar og rökstuddar tillögur um aðgerðir og vakin athygli á mikilvægi þess að hraða ákvarðanatöku um frekari kaup og leigu á húsnæði til handa Grindvíkingum í húsnæðisvanda. 

Kínverska sendiráðið stóð fyrir stórum viðburði í Eldborgarsal Hörpu á sunnudagskvöldið. Þar fór fram sýning eins vinsælasta sviðslistahóps Kína þar sem byggt var á loftfimleikum, bardagalistum og listrænni framsetningu úr sögufrægum bókmenntum í Kína. Húsfyllir var og talsverður fjöldi Grindvíkinga naut þessarar frábæru sýningar án þess að greiða aðgangseyri. Allur ágóði af miðasölunni, nærri 2,5 milljónir króna, rennur til íbúa Grindavíkur. Þess má jafnframt geta að Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu hefur haft samband og boðið fram aðstöðu í Hörpu fyrir samkomur í þágu Grindvíkinga. Hugmyndavinna er þegar komin í gang. 

Þessum aðilum sem og öðrum sem sýnt hafa hlýhug og velvild í garð Grindvíkinga eru færðar bestu þakkir. 

Ég óska ykkur öllum gleðiríkrar helgar
Fannar
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 22. febrúar 2024

Frá bćjarstjórn. In English below.

Fréttir / 16. febrúar 2024

Frá Fannari bćjarstjóra

Fréttir / 15. febrúar 2024

Íbúafundur 19. febrúar frá 17-19

Fréttir / 15. febrúar 2024

Íţróttafólk Grindavíkur 2023 verđlaunađ

Fréttir / 14. febrúar 2024

Skipulag fyrir fimmtudaginn 15. febrúar

Fréttir / 12. febrúar 2024

Hćgt ađ sćkja um íbúđir hjá Bríeti

Fréttir / 14. febrúar 2024

Pistill bćjarstjórnar 14. febrúar