Fjölmörg fyrirtæki hafa nú komist í að vitja eigna sinni í Grindavík frá því skipulega var farið að hleypa inn samkvæmt beiðnum sem safnað er á Ísland.is. Enn eru þó margar beiðnir óafgreiddar, sumar frá fyrirtækjum sem ekki hafa komist inn en aðrar frá fyrirtækjum sem eru að biðja um að komast aftur inn.
Á hverjum degi eru tiltekin hólf opin og ákveðinn sá hámarksfjöldi sem kemst inn. Það sem ræður takmörkunum er fyrst og fremst mönnun á öryggispóstum og fyrirliggjandi rýmingaráætlun. Gert er ráð fyrir að nú þegar fleiri íbúar hafa komist inn til að vitja eigna sinni verði hægt að auka við þann fjölda sem kemst inn frá fyrirtækjum.
Flest fyrirtæki í Grindavík eru á svæðum I5, I6 og S4. Mest er því um opnun þar. Í gær var hleypt inn á þau öll. Í dag var áherslan á I5 og I6 og það sama er á morgun. Samhliða eru tekin smærri svæði og fer val þeirra m.a. eftir þeim hverfum sem hafa verið opin íbúum og það svigrúm sem er í mönnun öryggisteyma.
Á morgun er stærsti dagurinn til þessa í vitjunum fyrirtækja. Alls verða 23 fyrirtæki með heimild til að kanna starfstöðvar sínar og sækja tæki eða vörur.
Fyrirtæki sem hafa sent inn beiðni á Ísland.is fá staðfestingu með tölvupósti um að beiðni hafi verið móttekin.
Þegar ákveðið er um dag sem aðgangur verður veittur er sendur tölvupóstur þess efnis. Þar á eftir er sendur qr kóði á þá einstaklinga sem tilgreindir hafa verið til ferðarinnar.