Þann 24. nóvember síðastliðinn varð Kvenfélag Grindavíkur 100 ára. Fyrirhugað var að halda veglega upp á daginn en vegna rýmingarinnar 10. nóvember varð því miður ekkert úr þeim viðburði. Í staðinn bauð forseti Íslands kvenfélagskonum úr Grindavík á Bessastaði.
Í tilefni af 100 ára afmæli Kvenfélags Grindavíkur hefur félagið gefið út veglegt afmælisrit. Í blaðinu er fjölbreytt efni um starf kvenfélagsins. Kristín Linda Jónsdóttir fyrrum ritstjóri Húsfreyjunnar tók að sér að ritstýra blaðinu. Hvert blað er líka happdrættismiði. Eintökin eru númeruð og veglegir vinningar í boði. Dregið verður í happadrættinu þann 1. febrúar 2024 á Degi kvenfélagskonunnar. Hægt er að panta blað hjá Kvenfélag Grindavíkur. Kvenfélagið verður með blaðið til sölu í skötuveislunni sem haldin verður fyrir Grindvíkinga á morgun milli kl. 11:00-14:00 í samkomuhúsinu í Sandgerði
Kristín Linda segir útgáfu blaðisins vera eitt skemmtilegasta verkefni þessa árs. Blaðið sé bæði vandað og glæsileg rit og hvert einasta eintak sé líka happdrættismiði.
Nú sé um að gera að panta sér eintak, kynna sér starfið hjá einu öflugasta og skemmtilegasta kvenfélagi landsins og styrkja starfsemi félagsins. Svo geti kaupendur unnið í happdrættinu í kaupbæti.
„Það var vor í lofti þegar við Sólveig Ólafsdóttir formaður félagsins hittumst til að hefja verkið og síðan höfum við, ritnefndin og margir fleiri unnið að afmælisritinu sem segir frá lifandi og skemmtilegu kvenfélagi sem hefur sannarlega látið muna um sig í 100 ár með fjölbreyttum stuðningi við samfélagið og margskonar góðgerðarmál" segir Kristín Linda. Hægt sé að panta eintak með því að senda póst á netfangið kvenfelaggrindavikur@gmail.com
Grindavíkurbær óskar Kvenfélagi Grindavíkur til hamingju með 100 ára afmælið. Megi gæfa fylgja starfsemi félagsins um ókomin ár.
Myndir: Silla Páls ljósmyndari og embætti forseta Íslands
Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur afhendir Guðna th. Jóhannessyni forseta Íslands fyrsta blaðið með happdrættisnúmerinu 1.
Kristín Linda Jónsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Sólveit Ólafsdóttir á góðri stundu á Bessastöðun