Atvinnurekstur í Grindavík – upplýsingafundur
- Fréttir
- 15. desember 2023
Fundað var með fulltrúum atvinnurekenda og fyrirtækja í Grindavík á Kænunni í gær, fimmtudaginn 30. Nóvember, þar sem tekið var á móti spurningum og veittar upplýsingar eins og kostur var.
Á fundinum voru Fannar Jónasson bæjarstjóri, Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri, Ragnar Árnason lögfræðingur frá SA, Guðjón Ragnarsson lögfræðingur sem mun verða fyrirtækjum innan handar og fulltrúar frá Vinnumálastofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.
Samtal við fyrirtæki og upplýsingagjöf er mikilvæg svo hægt sé að vinna saman að úrlausn verkefna á þessum óvissutímum. Næsti fundur verður haldinn í Reykjanesbæ eftir viku og verður nánar auglýstur síðar.
Helstu atriði sem fram komu á fundinum:
- Það er ennþá í gildi hættustig vegna jarðhræðinga í Grindavík, samkv. Almannavörnum.
- Verið er að kortleggja sprungur og ástand innviða í bænum. Upplýsingar um þá vinnu verða birtar reglulega á vef Grindavíkurbæjar. Aðgengi fyrir fyrirtæki inni í bænum er mismunandi út frá aðstæðum s.s. legu lagna og fleira.
- Sveitarfélagið er að vinna í að kortleggja lagnakerfi og skemmdir til þess að geta tekið ákvörðun um næstu skref, þar með talið lagfæringar og viðgerðir. Upplýsingum um það verður miðlað á vef Grindavíkur.
- Sum fyrirtæki hafa hafið starfsemi að hluta, önnur eru með slíkt til skoðunar. Verið er að skoða útfærslur fyrir mismunandi atvinnustarfsemi og undanþágur þar sem þeim verður komið við s.s. fyrir smábátaeigendur. Fiskmarkaðurinn er opinn yfir daginn.
- Mikilvægt er að fyrirtæki sem fá leyfi til að hefja starfsemi inná svæðinu tryggi að aðstæður séu í lagi, t.d. lagnakerfi sem geta hafa laskast. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (HES) mun vinna leiðbeiningar fyrir atvinnurekendur varðandi úttektir og skoðun til að auðvelda þeim að meta stöðu og finna lausnir. Atvinnurekendur geta haft samband við HES, hes.is, til að fá aðstoð. Ef fyrirtæki sem þurfa starfsleyfi hyggjast opna tímabundna aðstöðu eða starfstöð utan Grindavíkur getur HES aðstoðað við leyfismál og úttekt.
- Atvinnurekendur þurfa að tilkynna skemmdir og tjón til Náttúruhamfaratrygginga Íslands sem fyrst og fylgjast með þróun á húsnæðinu þar sem atburðurinn er ennþá í gangi. Mikilvægt er að taka myndir og kortleggja skemmdir.
- Grindavíkurvegur er ennþá innan hættusvæðis og ekki er reiknað með að hægt verði að nýta hann til aðkomu inn í bæinn. Verið er að skoða hvort hægt verður að nota Norðurljósaveg í staðinn.
- Unnið er að því að tryggja söltun og snjómokstur á öðrum leiðum ásamt Vegagerðinni, til að tryggja góða vetrarþjónustu á aðkomuleiðum inn í bæinn.
- Í skoðun er að setja upp skipulagðar ferðir fyrir starfsfólk til og frá Grindavík, m.a til að auka umferðaröryggi.
- Ekki er hægt að opna fyrir aðkomu annarra en íbúa og fyrirtækja sem starfa innan Grindavíkur. Það gerir það að verkum að sum fyrirtæki geta ekki hafið störf innan bæjarmarka. Skoða þarf hvort þessi fyrirtæki sem flest starfa í ferðaþjónustu fái einhvern stuðning vegna rekstrarstöðvunar.
- Vinnumálastofnun er að vinna að úrræðum og upplýsingum fyrir fyrirtæki, einstaklinga og einyrkja varðandi launagreiðslur og verður það kynnt fljótlega. Ráðgert er að opnað verði fyrir umsóknir frá atvinnurekendum 15. desember. Frekari upplýsingar og ítarlegt „spurt og svarað“ er aðgengilegt á vef Vinnumálastofnunar.
- Næsti fundur fyrir atvinnurekendur og fyrirtæki verður haldinn í Reykjanesbæ og verður kynntur á FB hópi fyrirtækja og á vef Grindavíkurbæjar.
- Atvinnurekendur geta leitað eftir ráðgjöf og aðstoð hjá Samtökum atvinnulífsins, þar er sérstakt vefsvæði þar sem fyrirtæki geta fengið upplýsingar.
Í Þjónustumiðstöð Grindavíkur í Tollhúsinu starfa ráðgjafar frá Sambandi sveitarfélagi Suðurnesja og aðstoða fyrirtækjasvið Grindavíkurbæjar og veita upplýsingar eins og kostur er. Þá hefur Grindavíkurbær fengið til sín lögfræðinginn Guðjón Bragason sem mun verða atvinnurekendum innan handar með álitaefni. Upplýsingar um viðtalstíma hans verða veittar á vef Grindavíkurbæjar.
Við hvetjum fyrirtæki í Grindavík til þess að skrá sig í FB hópinn Fyrirtæki í Grindavík, eigendur og stjórnendur en þar verður jafnframt hægt að eiga samtal og fylgjast með stöðunni. Þá verða reglulega sendar út upplýsingar til fyrirtækja á vefnum okkar hér.
AĐRAR FRÉTTIR
Fréttir / 11. september 2024
Fréttir / 8. september 2024
Fréttir / 4. september 2024
Fréttir / 3. september 2024
Fréttir / 2. september 2024