Bæjarstjórn Grindavíkur, ásamt bæjarstjóra og sviðsstjórum Grindavíkurbæjar, fundaði í gær, þriðjudag, 14. nóvember í sal borgarráðs Reykjavíkur vegna jarðhræringa í Grindavík.
Farið var yfir stöðuna eins og hún er í Grindavík. Megin áhersla verður í fyrstu lögð á að leysa húsnæðismál fólks. Búið er að stofna teymi á vegum almannavarna sem kortleggur þörfina fyrir húsnæði sem henti hverjum og einum. Jafnframt er búið að stofna teymi sem útfærir hvernig létt verður undir með fólki fjárhagslega.
Sett verður á stofn þjónustu- og samverumiðstöð í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Gert er ráð fyrir að þar verði símaver og möguleiki á að koma saman. Þar mun íbúum gefast kostur á að koma saman og ræða málin auk þess verða þar aðilar sem sinna sálgæslu fyrir þá sem þess óska.
Gert verður ráð fyrir að aðilar frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands komi þangað til að svara spurningum varðandi tryggingamál húseigenda.
Heimasíða og samfélagsmiðlar Grindavíkurbæjar munu verða uppfærðir reglulega með nýjustu upplýsingum.
Bæjarstjórn Grindavíkur lýsir yfir miklu þakklæti fyrir það æðruleysi sem íbúar Grindavíkur hafa sýnt og þann samhug sem Grindvíkingar eru að upplifa af þjóðinni á þessum erfiðu tímum.
Með samstilltu átaki munum við komast yfir þetta.