Samkvæmt þeim gögnum sem voru tekin saman klukkan 11:00 í morgun sést að landrisið með miðju norðvestan við Þorbjörn heldur áfram. Þenslan er af völdum kvikuinnskots á um 4 km dýpi. Skjálftavirkni heldur áfram á svæðinu af völdum spennubreytinga í skorpunni sem innskotið veldur. Skjálftahrinan var ákafari eftir miðnætti og til morguns en frá miðnætti hafa um 1000 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þar af tólf yfir 3 að stærð og tveir yfir 4 að stærð. Stærsti skjálftinn mældist kl. 08:06 og var 4,3 að stærð. Stærstu skjálftarnir í nótt virðast raða sér í norður-suður stefnu vestan Þorbjarnar. Slíkar sprungur eru þekktar á svæðinu en þær safna spennu sem tengist landreki og geta hrokkið vegna spennu frá innskotum.
Ítarlegri umfjöllun má finna hér á vef Veðurstofunnar.