Þann 9. september næstkomandi verður haldið styrktarhlaup eða ganga á fjallið Þorbjörn. Grindvíkingum og öðrum áhugasömum er boðið að taka þátt í göngu/styrktarhlaupi á fjallið Þorbjörn laugardaginn eftir rúma viku. Klemenz Sæmundsson, skólameistari Fisktækniskólans og hlaupagarpur hyggst standa fyrir styrktarhlaupi/göngu á Þorbirni þennan dag. Hann ætlar að hlaupa 60 km (20 ferðir og alls um 5000m hækkun) upp og niður fjallið í tilefni af 60 ára afmæli sínu.
Skemmtiganga að frábæru útsýni hefst með leiðsögn kl. 11:00 (um 3 km. upp og niður).
Upplagt er að fara á frísbígolfvöllinn í skógræktinni norðan megin við Þorbjörn með fjölskylduna og grilla þar í notarlegu umhverfi ef veður leyfir.
Allur ágóði af hlaupinu rennur til blóð- og krabbameinslækningadeildar Landspítalans en þar fara fram lyflækningar, einkennis- og stuðningsmeðferðir fyrir sjúklinga með krabbamein og blóðsjúkdóma.
Hvað er boðið upp á?
(Klemenz sjálfur byrjar kl. 07:00 og verður að fram eftir degi)
Ekki keppni
Ekki tímataka
Ekkert þátttökugjald.
Þeir sem vilja styrkja gott málefni endilega leggja inn á reikning nr. 0123-15-123439, kt. 040963-2359 í Landsbankanum. Einnig verður baukur á staðnum sem hægt er að leggja pening í.
Markmið hlaupsins / göngunnar
Markmiðið með hlaupinu/göngunni fyrir utan að safna fyrir góðu málefni og hollri hreyfingu, er að vekja athygli á hvílík útivistarparadís Þorbjörn og nærumhverfi fjallsins er.
Hugmyndin er að byrja smátt en byggja hugsanlega á reynslunni og skipuleggja árlegt hlaup/göngu tengt Þorbirni jafnvel með keppni í huga.
Fyrir 10 árum síðan þegar Klemenz Sæmundsson var að detta í fimmtugt þá hjólaði hann hringinn í kringum landið á átta dögum tæplega 1400 km og hljóp Klemmann (Reykjanesbær-Sandgerði-Garður-Reykjanesbær) í framhaldi af því tæpa 24 km.
Þá var ákveðið að safna fyrir Blóðlækningadeild Landspítalans. Það söfnuðust 965,000 kr. sem deildin notaði til að endurnýja hjá sér setustofuna.
Þægileg gönguleið - Frábært útsýni
Ferðin á Þorbjörn er 30-60 mínútna gönguleið eða um 3 km upp og niður. Gengið er af veginum við Þorbörn sem er lágreist fjall og um 240m á hæð.
Uppi má virða fyrir sér útsýnið og fara ofan í hina djúpu Þjófagjá. Frá fjallinu er stórgæsilegt útsýni yfir Reykjanes, Reykjavíkursvæðið og alveg á Sæfellsnes þar sem jökullinn sést í öllu sínu veldi. Eins sést til gosstöðva við Merardali.
Uppi á fjallinum sjást ummerki braggabyggðar frá því á stríðsárunum. Hægt er að ganga niður fjallið sunnan- og norðan- megin og meðfram því til baka á upphafsstað.
Um Þorbjörn
Þorbjörn er bæjarfjall Grindavíkur og mjög áberandi frá Reykjanesbrautinni þar sem hann rís yfir gufustróka Svartsengis, sem fleiri þekkja sem svæði Bláa lónsins.
Fellið myndaðist í tveimur goshrinum á aðskildum ísaldartímabilum og merki þess eru augljós í sigdæld sem gengur í gegnum fellið.
Þorbjörn er í um 50 km fjarlægð frá Reykjavík sem er innan við klukkustundar akstur frá borginni.