Stefnt er að opnun upplýsinga- og samfélagsmiðstöðvar um jarðvá á Reykjanesi í Grindavík vorið 2024. Í liðinni viku var skrifað undir samning við hönnunarfyrirtækið Gagarín um hönnun sýningarinnar sem staðsett verður í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga.
Í samfélagsmiðstöðinni verður lögð áhersla á hið mannlega; forvarnir, uppbyggingu og stuðning við íbúa á óvissutímum. Einnig verða útskýrðar jarðfræðilegar ástæður að baki jarðskjálftum og eldgosum á Reykjanesskaga.
Að baki samfélagsmiðstöðinni standa Grindavíkurbær og Reykjanes jarðvangur (e. Reykjanes Geopark). Samfélagsmiðstöðin verður jafnframt ein af gestastofum jarðvangsins. Að Reykjanes jarðvangi standa öll sveitarfélögin á Suðurnesjum auk fleiri fyrirtækja og stofnana.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík og formaður stjórnar Reykjanes jarðvangs segir ánægjulegt að samningar um hönnun sýningarinnar séu í höfn. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur lagt mikla áherslu á uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar og Kvikunnar á undanförnum árum. Samfélagsmiðstöðin mun verða einstök á landsvísu þar sem þeirri þekkingu sem aflað hefur verið á undanförnum árum mun verða komið á framfæri. Þannig verður hægt að búa íbúa og gesti undir mögulegar hamfarir áður en til þeirra kemur.
Starfsemi Kvikunnar, menningarhúss Grindvíkinga, hefur tekið miklum breytingum á stuttum tíma. Með breytingum á starfsemi hússins hefur gestafjöldi margfaldast og fram fara í húsinu viðburðir sem henta öllum aldurshópum. Við hönnun sýningarinnar er þess gætt að áfram verði rými fyrir íbúa Grindavíkur til þess að skapa, upplifa og njóta í Kvikunni.
Mynd frá vinstri: Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, Hringur Hafsteinsson, listrænn stjórnandi hjá Gagarín og Daníel Einarsson, forstöðumaður Reykjanes Geopark undirrita samkomulagið.
Samkomulagið handsalað