Viđburđir í Grindavík um jól og áramót 2022

  • 11. nóvember 2022

Minningar um ljúfa samveru í aðdraganda jóla með fjölskyldu og vinum fylgja okkur alla ævi. Dagskráin í Kvikunni og á Bókasafni Grindavíkur er fjölbreytt næstu vikur. Þá skipuleggja félagasamtök, veitingastaðir og handverkshúsin einnig reglulega áhugaverða viðburði.

SAMVERUSTUNDIR Á AÐVENTUNNI

JÓLABÓKAFLÓÐIÐ Á BÓKASAFNINU
Bókasafn Grindavíkur - Alla daga 
Bókasafnið er komið í jólabúning og jólabækurnar streyma í hús. Heimsókn á bókasafnið fyrir jólin er fastur liður hjá mörgum enda mikilvægt að hafa góðar bækur til að lesa í skammdeginu.

MORGUNKAFFI Í KVIKUNNI
Kvikan - Alla miðvikudaga kl. 10:00 
Eldri íbúum er boðið upp á kaffi í Kvikunni alla miðvikudagsmorgna. Í desember verður jólalegt andrúmsloft og boðið upp á smákökur með kaffinu.

GEFÐU AUKAGJAFIR UM JÓLIN
Kvikan - Til 10. desember
Grindvíkingar eru hvattir til að kaupa aukagjafir fyrir jólin, merkja fyrir hvaða aldur þær henta og koma þeim fyrir undir fallega jólatrénu í Kvikunni. Tekið er við gjöfunum til 10. desember.

HVERNIG FANNST ÞÉR BÓKIN?
Bókasafn Grindavíkur - Alla daga 
Foreldrar eru hvattir til að lesa nýjustu barna- og unglingabækurnar með börnum og unglingum og skrifa umsagnir um þær. Umsagnirnar verða birtar á vef og samfélagsmiðlum Bókasafns Grindavíkur. Er þetta gert til að einfalda nemendum að finna sér bækur við hæfi og styðja við lestur barna og unglinga.

NÓVEMBER

JÓLABINGÓ KVENFÉLAGS GRINDAVÍKUR
Grunnskólinn Ásabraut - 13. nóvember kl. 14:00 og 20:00 
Hið árlega jólabingó Kvenfélags Grindavíkur verður á sínum stað í ár með fjölda glæsilegra vinninga. Posi á staðnum. Mætum öll og styrkjum gott málefni.

NORRÆNN BÓKMENNTAARFUR
Bókasafnið – 14.-18. nóvember
Í Norrænni bókmenntaviku er leitast við að efla lestrargleði og breiða út norrænar bókmenntir á Norðurlöndunum og nágrannalöndum. Bókasafn Grindavíkur mun bjóða börnum upp á upplestur úr norrænum bókum.

DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU
Bókasafnið - 16. nóvember
Markmið Dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Bókasafn Grindavíkur notar daginn til að kynna nýja og gamla íslenska höfunda fyrir lánþegum.

HLUTLAUS PERSÓNUFORNÖFN OG KYNHLUTLAUST MÁL
Bókasafnið – 16. nóvember kl. 17:00
Í tilefni af degi íslenskrar tungu fjallar Selma M. Sverrisdóttir íslenskufræðingur og málfarsráðgjafi um hlutlaus persónufornöfn, kynhlutlaust mál og þær áskoranir sem því fylgja að temja sér slíkt mál.

ARI ELDJÁRN Í KVIKUNNI
Kvikan - 17. nóvember kl. 20:00
Tilraunakennd uppistandssýning með einum vinsælasta uppistandara þjóðarinnar. Áhorfendur upplifa atriði sem ekki verða endurtekin en sjá líka frumdrög sem verða flutt í sýningum síðar. 

JÓLABOÐ HJÁ HÖLLU
Hjá Höllu - 18. og 19. nóvember kl. 19:00
Fjögurra rétta sérstakur jólaseðill í boði hannaður af Ingimar Sveinssyni. Takmarkaður sætafjöldi í boði. Borðabókanir skulu berast til halla@hjahollu.is. 

JÓLAHLAÐBORÐ Á FISH HOUSE
Fish house - 19. og 26. nóvember
Glæsilegt veisluborð sem Atli Kolbeinn Atlason og Jorge Arturo reiða fram. Grétar Lárus Matthíasson spilar jólatónlist fyrir gesti. Borðabókanir gegnum info@fishhouse.is. 

RITSMIÐJA MEÐ BERGRÚNU ÍRISI
Bókasafn Grindavíkur - 22. og 29. nóvember
Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, fer yfir undirstöðuatriðin í smásagnagerð og kennir börnum að finna leiðir við að finna innblástur. Skráning fer fram á Bókasafni Grindavíkur. 

FJÖRUGUR FÖSTUDAGUR
Hafnargata - 25. nóvember kl. 17:00
Fyrirtæki við Hafnargötu bjóða upp á jólalega stemmingu, tónlist, kynningar og góð tilboð á Fjörugum föstudegi. Langleggur og Skjóða mæta á svæðið ásamt jólasveinum. Ljósin á jólatrénu við Kvikuna verða tendruð upp úr kl. 17:00.

AÐVENTUSTUND Í KIRKJUGARÐINUM
Kirkjugarðurinn að Stað - 27. nóvember kl. 18:00
Ljósin verða kveikt á krossljósum í kirkjugarðinum að Stað auk þess sem ljósin á jólatrénu verða tendruð fyrsta sunnudag í aðventu. Kór Grindavíkurkirkju leiðir söng. Lesnir verða textar og bænir beðnar. Sr. Elínborg Gísladóttir leiðir stundina.

DESEMBER

AÐVENTUHÁTÍÐ Í GRINDAVÍKURKIRKJU
Grindavíkurkirkja - 4. desember kl. 17:00
Aðventuhátíð fyrir alla fjölskylduna þar sem börn og unglingar taka þátt í að flytja helgileik í tali og tónum. Kristín E Pálsdóttir leiðir helgileikinn. Kór Grindavíkurkirkju syngur undir stjórn Kristjáns Hrannars Pálssonar. Sr. Elínborg Gísladóttir leiðir stundina. 

JÓLAPEYSUKEPPNI BÓKASAFNS GRINDAVÍKUR
Bókasafn Grindavíkur - 4.-9. desember
Nemendur 5.-10. bekk Grunnskóla Grindavíkur keppast um að teikna og hanna flottustu jólapeysuna. Sigurvegarinn fær jólapeysu í verðlaun. 

JÓLATÓNLEIKAR KÓRS GRINDAVÍKURKIRKJU
Grindavíkurkirkja - 7. desember kl. 20:00
Kór Grindavíkurkirkju flytur hina sígildu jólaplötu Þriggja á palli, Hátíð fer að höndum ein, ásamt hjómsveit í útsetningu Kristjáns Hrannars Pálssonar organista og kórstjóra. Hugljúf tónlistarstund sem minnir okkur á hinn sanna kjarna jólanna.

JÓLAFUNDUR KVENFÉLAGS GRINDAVÍKUR
Fish house - 9. desember 
Á jólafundinum eru bornar fram veitingar að hætti kokkanna á Fish house. Hljómsveitin Bergmál mun skemmta gestum og lofa þær fyndinni tónlistarupplifun. Félagskonur og gestir þurfa að skrá sig tímanlega. 

BARNAJÓL MEÐ GRINDAVÍKURDÆTRUM
Kvikan – 11. desember kl. 17:00
Kvennakórinn Grindavíkurdætur býður börnum og foreldrum þeirra á skemmtilega samverustund þar sem þær syngja nokkur af sínum uppáhalds jólalögum. Aðgangur ókeypis.

HÁTÍÐARJÓLATÓNLEIKAR GRINDAVÍKURDÆTRA
Grindavíkurkirkja – 11. desember kl. 20:30
Kvennakórinn Grindavíkurdætur heldur sína árlegu jólatónleika þar sem sungin verða verða vinsæl jólalög, íslensk og erlend. Frumflutt verða tvö jólalög eftir Grindvíkinginn Kristínu Matthíasdóttur. Miðaverð 1.500 kr.

UPPLESTUR Í BEKKJUM
Bókasafn Grindavíkur - 12.-16. desember
Starfsfólk Bókasafnsins les upp úr nýútkomnum bókum fyrir nemendur Grunnskóla Grindavíkur.

SKÖTUHLAÐBORÐ Á SJÓMANNASTOFUNNI VÖR
Sjómannastofan Vör - 23. desember kl. 11:30-21:00
Árlegt skötuhlaðborð á Þorláksmessu á Sjómannastofunni Vör. Skata, saltfiskur, siginn fiskur, steiktur fiskur, meðlæti og grjónagrautur. Hægt verður að panta í síma 426-8560 og sækja. 

JÓLIN HRINGD INN - HÁTÍÐARMESSA Á AÐFANGADEGI
Grindavíkurkirkja - 24. desember kl. 18:00
Messað verður í Grindavíkurkirkju á aðfangadegi. Einsöngvari verður Melkorka Ýr Magnúsdóttir. Kirkjukór Grindavíkurkirkju syngur undir stjórn organista. Sr. Elínborg Gísladóttir þjónar.

NÓTTIN VAR SÚ ÁGÆT EIN - MIÐNÆTURMESSA Á AÐFANGADEGI
Grindavíkurkirkja - 24. desember kl. 23:30
Messað verður í Grindavíkurkirkju að kvöldi aðfangadags. Kirkjugestir koma saman og ganga inn í helgustu nótt ársins. Kveikt verða ljós og sungið saman „Heims um ból“. Kristján Fannar Pálsson organisti leiðir sönginn. Sr. Elínborg Gísladóttir þjónar.

ÍÞRÓTTAFÓLK GRINDAVÍKUR
Gjáin - 30. desember kl. 20
Viðurkenningar vegna íþróttaafreka sem unnin voru á árinu sem er að líða verða afhentar að kvöldi 30. desember. Meðal verðlaunanna eru viðurkenningar til þjálfara ársins, liðs ársins, íþróttamanns og íþróttakonu Grindavíkur.

HÁTÍÐARMESSA Á GAMLÁRSDAG
Grindavíkurkirkja - 31. desember kl. 17:00
Messað verður í Grindavíkurkirkju á gamlársdag. Kór Grindavíkurkirkju leiðir sönginn undir stjórn Kristjáns Fannars Pálssonar organista. Sr. Elínborg Gísladóttir þjónar.

JANÚAR

ÞRETTÁNDAGLEÐI
Kvikan - 6. janúar kl. 19:00
Venju samkvæmt kveðja Grindvíkingar jólin með þrettándagleði 6. janúar. Ekki er ólíklegt að púkar fari á stjá um kl. 16 og banki upp á í heimahúsum. Kl. 19:00 hefst þrettándagleði í Kvikunni. Börn sem mæta í búning fá glaðning. Að lokinni dagskrá fer fram flugeldasýning í boði fyrirtækja í Grindavík.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR