Eldgosiđ komiđ upp á vegg og réttir á matseđli tileinkađir gosinu

  • Fréttir
  • 29. nóvember 2021

Í nýjasta tölublaði Járngerðar er viðtal við Kára Guðmundsson, eiganda Fish House sem nýtti tímann þegar allt lokaði vegna Covid í endurbætur á veitingastaðnum. Ásýnd staðarins er gjörbreytt frá því sem áður var en auk þess að laga alla famhliðina á staðnum gerði hann miklar endurbætur innandyra. Viðtalið var tekið þegar eldgosið í Geldingadölum var enn í fullum gangi. 

Kári segir að ákvörðun um að breyta staðnum hafi verið tekin áður en heimsfaraldurinn skall á. „Við vorum búin að ákveða að breyta staðnum fyrir Covid, við ætluðum að breyta og skipta út gólfefninu. Við fórum í það í febrúar í fyrra og settum vinyl parket á gólfið. 

Síðan þegar Covid skellur á þá lokum við alveg. Þá settist maður niður og lét hugann reika, þá var tekin ákvörðun um að taka barinn í gegn. Hann var rifinn niður. Vinnuaðstaðan er þannig orðin miklu betri, við tókum hækkunina sem var fyrir innan, þar sem ganga þurfti upp og svo aftur niður í eldhúsið. Núna erum við komin í sömu hæð og miklu stærri og hentugri vinnuaðstöðu. Í framhaldinu eru búnar að vera ýmsar pælingar, það er búið að vera rólegt. Síðastliðið haust var ákveðið að huga að framhliðinni því hún var orðin lúin, hurðar orðnar lélegar og gluggar líka. Ég endurnýjaði því allt og setti nýja klæðningu.“ 

Síðan fór að gjósa í Grindavík og þá segir Kári að fleiri hugmyndir hafi kviknað. Gosið hafi þannig veitt innblástur bæði í útlit staðarins og á matseðli. „Þá ákváðum við að fara í þessar pælingar og setja upp myndir. Við höfðum samband við Enso en þeir eru með sérstaka hljóðvistadúka sem þeir seta bæði í loft og veggi. Upphaflega ætlaði ég að vera með eldgosamyndir á filmu en þegar ég sá útfærslu hjá þeim þar sem landslagsmynd var prentuð á svona hljóðvistardúk þá ákváðum við að fara þessa leið.“ 

Í febrúar festi Kári kaup á húsnæðinu vestan megin við Fish House. „Við erum nýbúin að fá þetta afhent og þar eru líka ýmsar pælingar með það húsnæði eins og að stækka Fish House.  Eldgosið setur strik í reikninginn og við erum að reyna að finna út hvað best sé að gera í sambandi við það. Hversu mikil aukning verður á ferðamanninum? Verður þörf á auka sal? Við erum farin að fá einhverja hópa, 20-30 manns. Stærri hópar eru kannski ekki að fara að koma alveg strax vegna Covid. 

Hverju myndir þú mæla með að fólk færi fyrst að skoða hérna á svæðinu fyrir utan eldgosið?
Hópsnesið, síðan myndi ég mæla með Brimkatli og Selatöngum. Bótin hefur sinn sjarma. Náttúran og umhverfið, hraunið og hafið. Fólk áttar sig oft ekki á því hvað við höfum upp á mikið að bjóða. Maður þarf oft ekki að finna annað en kraftinn úr náttúrunni, hafið og eldgosið til að finna hversu mögnuð náttúran er hér á Reykjanesinu. 

Hótel í hafnarminninu
„Ég hef talað fyrir því að hótel ætti að vera við innsiglinguna, fólk hristi hausinn yfir þessari hugmynd á þeim tíma. Það myndi koma sér vel núna vegna ferðamannastraumsins út af eldgosinu. Þrátt fyrir að gosið hætti þá mun ferðamaðurinn koma og skoða nýja hraunið. Þetta mun draga að sér ferðamenn næsta árið. Hótel í hafnarminninu væri einstakt á heimsvísu.“ 
Matseðillinn með tengingu í eldgosið
„Við byrjuðum strax eftir að gosið hófst þá fórum við af stað og vorum með hamborgara sem við köllum Eldfjallið og hann þykir einstaklega góður. Hann er sterkur, rífur aðeins í en ekki of mikið. Það var ekki hægt að stoppa þar, því við erum líka með pítsaseðil og erum með pítsu þar sem við köllum Dyngjuna, þar sem þetta kann að vera dyngjugos. En pítsan er aðeins „spicy“. En svo er væntanlegur fiskréttur á seðilinn, kryddhjúpuð langa. Þessi réttur er geggjaður.” 

Hverju ertu stoltastur af í Grindavík?
„Náttúrunni. Þú labbar út úr húsinu og þú ert orðinn einn eftir 5 mínútna labb. Þetta eru forréttindi.“ 
 

 


Deildu ţessari frétt