Ţróuđu gagnabanka međ umhverfisvottuđum vörum fyrir byggingariđnađinn

  • Fréttir
  • 26. nóvember 2021

Þrjár ungar konur úr Grindavík standa að baki nýsköpunarfyrirtækinu Visttorgi en um er að ræða þróun nýrrar tæknilausnar fyrir byggingariðnaðinn undir nafninu Vistbók. Í nýjasta tölublaði Járngerðar var viðtal við þær sem skipa teymið en það eru þær Svala Jónsdóttir, innanhússarkitekt, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir lýsingarhönnuður og Berglind Ómarsdóttir hugbúnaðarsérfræðingur.

Vistbókinni er ætlað að einfalda öllum þeim sem vilja kaupa umhverfisvottaðar vörur á heimili sitt leitina að slíkum vörum á markaði. Vistbókin  er fyrst og fremst þróuð til að hjálp fagaðilum í byggingariðnaði hvort sem það eru hönnuðir mannvirkja, verktakar, eigendur, sveitarfélög eða ríki, allt utanumhald þegar ráðist er í umhverfisvottaðar framkvæmdir s.s eins og Svansvottun eða Breeam vottun og útreikning á kolefnisspori bygginga.

Á það bæði við um nýbyggingar og endurgerð. „Markmiðið er að Vistbók verði gagnabanki með öll umhverfisvottuð byggingarefni á íslenskum markaði, öll tækniskjöl og upplýsingar sem fagaðilar þurfa í vottun. Engin slík lausn er til fyrir íslenskan byggingarmarkað né eru aðrir erlendir gagnabankar í notkun af þeirri ástæðu að þeir eru ekki gerðir fyrir íslenskan byggingarmarkað. Svona gagnabanki er undirstaðan fyrir því að við getum hraðað þeirri byltingu í byggingartækni sem þarf að vera á næstu árum svo byggingariðnaðurinn geti tekið þátt í minnkun á kolefnisspori og við hér á landi byggt grænni framtíð sem leiðir af sér sjálfbærara samfélag,“ segir Svala, einn af stofnendum Visttorgs. 

Hugmyndin kviknaði sumarið 2019 þegar Svala var að vinna að umhverfisvottuðu verkefni og var að leita eftir upplýsingum um hvaða byggingarefni mætti nota í verkefnið. Hún setti sig í sambandi við Rósu Dögg, sem var þá og er enn formaður félags húsgagna- og innanhússarkitekta til að komast að því hvort til væri gagnabanki með umhverfisvottuðum vörum en komst að því að það væri ekki til hér á landi. Þess í stað þurfa því allir í byggingargeiranum að hringja ótal símtöl til söluaðila og framleiðenda til þess að afla upplýsinga. Við fórum því í sameiningu að vinna að þessari viðskiptahugmynd og fengum Berglindi til liðs við okkur mjög fljótt til að sjá um forritunina á Vistbók.

Fjölmargar viðurkenningar
Verkefnið hefur hlotið mikla athygli en það fékk t.a.m.  styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í nóvember 2019 sem kallast Stjörnusprotar. „Styrkurinn miðar að því að styðja fyrirtæki/frumkvöðla um leiðsögn og faglegan stuðning í gegnum fyrstu skref frumkvöðla. Sumarið 2020 fengum við síðan hæsta mögulega styrk úr Hönnunarsjóði Íslands í aukaúthlutun sjóðsins. Við fengum síðan aftur úthlutað úr sjóðnum núna í mars 2021 fyrir Vistbók sem við erum að vinna að þessa dagana.“
Í sama mánuði fékk Svala fyrstu verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmyndina í nýsköpunarhraðli Háskóla Íslands og bandaríska sendiráðsins sem hún tók þátt í fyrir hönd Visttorg teymisins. Einnig hefur verkefnið verið á lista Poppins & Partners yfir áhugaverð startup fyrirtæki 2020 sem vert er að fylgjast með en þau veittu okkur ráðgjöf í okkar fyrstu skrefum.

Er opinberi markaðurinn og einkageirinn að taka vel í ykkar hugmyndir?
„Já mjög svo. Það bíða hreinlega allir eftir þessu en við höfum verið í samstarfi við Byko um að gera frumgerð af Vistbók sem er nú tilbúin. Nú erum við að vinna við að bæta við fleiri söluaðilum og erum að vona að þetta verði komið af stað með leitarvél í gagnabankanum fyrir október á þessu ári. Bæði söluaðilar byggingarefna og fagfólk í iðnaðinum er orðið þreytt á því að eyða svo miklum tíma í að leita af upplýsingum sem þarf til sönnunar að byggingarefnið sé umhverfisvottað. Nú mun þetta allt liggja inn á Vistbókinni og vera aðgengilegt fyrir alla. Við erum einnig að taka virkan þátt í verkefni á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar og Samtaka iðnaðarins sem kallast „Byggjum grænni framtíð.” „Byggjum grænni framtíð” er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð
en það á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Við tókum þátt í vinnuhópum ásamt fjölda annarra sem starfa í byggingageiranum og fórum yfir hvaða aðgerðir þarf til þess að gera betur í að ná þessum markmiðum.

Eru til sambærileg ”concept” og ykkar erlendis?
„Já það eru til gagnagrunnar erlendis t.d. í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Danmörku sem eru með umhverfisvottuð byggingarefni en ekki nákvæmlega sama concept og okkar. Visttorg er miklu meira en bara gagnagrunnur og heldur utan um bæði fagfólk og eigendur fasteigna. Við lítum á íslenskan markað sem tilraunamarkað og erum á sama tíma að safna í stærsta gagnabanka umhverfisvottaðra byggingarefna í heimi.“

Hver er draumastaða Visttorgs?
„Markmiðið hefur alltaf verið að verða tæknifyrirtæki á heimsmælikvarða sem þróar nýjar lausnir fyrir grænni byggingariðnað. Vistbók er bara fyrsta skrefið í þessari vegferð okkar og við höfum ávallt borið okkur saman við nýsköpunarfyrirtæki líkt og Dohop, Meniga og Grid og sækjum ráðgjöf til annarra aðila sem undan okkur hafa gengið í gegnum klasa hér á landi. Það er ómetanlegt að hafa fjölmörg íslensk fyrirtæki sem eru í nýsköpun og náð hafa góðum árangri á heimsvísu.“

Hvað hefur komið ykkur mest á óvart í þessu ferli?
Fyrir okkur sem nýgræðinga í nýsköpun kom mest á óvart hvað það er mikill stuðningur í boði og allir tilbúnir að hjálpa. Við höfum sótt okkur mikla hjálp t.d til Heklunnar hér á Suðurnesjum, Fjártækniklasans og fjölda annarra sem hafa reynslu af nýsköpun, alltaf höfum við fengið góð ráð og hvatningu. Annað sem hefur komið okkur á óvart er hversu hratt umhverfisvitund, þekking og áhugi almennings á að velja t.d gólfefni, innréttingar, málningu o.fl. inn á heimili sitt sem eru umhverfisvottuð og innihalda því ekki hormónatruflandi né fleiri skaðleg efni og einnig áhugi á að byggja Svansvottuð hús hefur vaxið á síðustu tveimur árum. Ríki og sveitarfélög eru í mikilli vinnu við að skoða hvernig hægt er að koma til móts við aðila sem vilja byggja vottaðar byggingar t.d í formi afsláttar á gatnagerðargjöldum og lægri skatt á vottaðar vörur. Einnig höfum við tekið eftir hvað það er mikið af umhverfisvottuðum vörum í boði á íslenskum markaði en minna verið að markaðssetja þau sem slík, því eru mikil tækifæri í að byggja upp markað á umhverfisvottuðum byggingarvörum hér á landi því hann er svo sannarlega til staðar og ekki alltaf á hærra verði. Við erum oft að velja umhverfisvænni vörur en vitum ekki endilega af því. Við höfum því einnig séð tækifæri í því að fræða almenning um umhverfisvottuð efni þegar það notar Vistbók og vera hvatning fyrir söluaðila bæði hér á landi og erlendis í að auka úrval af umhverfisvottuðum byggingarefnum í sölu heldur en öðrum.“
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!