Brautryđjendur í heilsustefnu leikskóla

  • Fréttir
  • 23. nóvember 2021

Heilsuleikskólinn Krókur fagnaði 20 ára starfsafmæli þann 5. febrúar sl. Þær Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri og Bylgja Kristín Héðinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri hafa unnið saman við skólann frá upphafi. Þær segjast vera ólíkar en vega hvor aðra upp í störfum sínum.Þær fóru yfir farinn veg og ræddu skólastarfið og áskoranir þess í nútímasamfélagi í nýjasta tölublaði Járngerðar.  „Þetta er búin að vera ánægjuleg vegferð og fjölmörg verkefni sem við höfum verið með í þróun sem við erum mjög stoltar af.“

Vel mannaðar
Þær líta yfir farinn veg með hlýhug og segja vegferðina hafa verið ánægjulega. „En fyrst þegar við byrjuðum voru mjög fáir fagmenntaðir og eitt árið okkar, líklega á þriðja eða fjórða starfsári okkar þá vorum við einu fagmenntuðu manneskjurnar hér í skólanum allan veturinn. En í dag erum við með 8 fagkennara á „gólfinu“ eins og við segjum, ein í fæðingarorlofi og svo eru tveir nemar sem eru að læra leikskólakennarann, en þegar mest var um fagmenntun þá vorum við ellefu. En við erum ágætlega mannaðar m.v. að það vantar leikskólakennara um allt land. Svo finnur maður líka mun þegar það eru kennarar og ekki kennarar. Það er meira álag á okkur að skipuleggja og halda utan um starfið, heldur en þegar það eru fleiri fagmenntaðir aðilar. En við höfum alltaf verið með góðan grunn og góða leiðbeinendur.”
 
Leiðbeinendur fara í nám og koma aftur
„Við áttuðum okkur fljótlega á að leikskólakennarar kæmu ekki af himnum ofan, þannig að þegar við sjáum góða kandídata þá förum við að ýta við fólki. Flestir þeir sem eru með fagþekkingu hjá okkur byrjuðu sem leiðbeinendur, fóru í nám og komu aftur inn. Við áttuðum okkur á því að við þyrftum að búa þá til. Sveitarfélög þurfa líka að átta sig á því að það þarf að styðja fólk til náms og líka skólana, svo þetta sé hægt. Nú er þriðji leikskólinn að opna eftir 2 ár og þá þarf fólk til að manna hann af leikskólakennurum.“ 

Heilbrigð sál í hraustum líkama
„Okkar markmið í upphafi var að vera heilsusamlegur leikskóli og fundum stefnu sem passaði við það sem við vorum að gera, heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur. Síðan höfum haldið áfram að sækja okkur verkfæri, eins og Grænfánaverkefnið, samskiptastefnu, Hjálparhendur og Blær og annað sem passar inn í okkar hugmyndafræði.“
Alltaf verið með skýra sýn
„Við höfum alltaf verið með skýra sýn og það hefur verið okkar sterkasta vopn, við höfum alltaf vitað hvert við vildum stefna. Við höfum aldrei farið út af þeim vegi. Við sækjum okkur verkfæri á leiðinni. Það er auðveldara í dag að fá tilbúið námsefni fyrir börn og það er auðveldara fyrir okkur. En heilbrigði hefur alltaf verið stefna hjá Króki. Við lögðum áherslu á að vera með skipulagða hreyfingu í okkar starfi og hollt fæði og svo góð samskipti.“

Brautryðjendur í heilsustefnu leikskóla
„Við vorum búnar að vera starfandi í um 3 ár þegar við sátum heilsuráðstefnu Unnar Stefánsdóttur. Þetta var eiginlega alveg mögnuð stund, við Bylgja sátum og hlustuðum og lítum svo hvor á aðra og sögðum „þarna er þetta“.  Við fórum mikið í heimsóknir og fórum að tala við Unni um að stofna samtök og fá fleiri leikskóla inn og í dag eru 25 heilsuleikskólar á landinu með heilsustefnu. Við vorum annar skólinn á landinu sem fór í þessa heilsustefnu enda var markmið okkar þegar við hófum þessa vegferð að við viljum vita hvað við erum að borða. Einu sinni þegar við vorum að elda, hérna á fyrstu árunum okkar kom ég inn í eldhús og sá að það var appelsínugul fita sem rann af snitselinu.  Þá ákvað ég að svona tilbúinn og unninn mat vildi ég ekki fá aftur inn í leikskólann. Hvað var það sem gerði þetta svona appelsínugult? Síðan ákveða Skólar, eigendur Króks að gera næringarstefnu með næringarfræðingi. En áður en það var gert þá komu alltaf næringarfræðingar og skoðuðu matseðlana. Síðan fór Unnur Stefánsdóttir að vinna hjá Skólum en áður var hún skólastjóri í Kópavogi en þessi heilsusýn var henni mikil ástríða og hún bjó þessa heilsustefnu til þar.“ 

Vistunartími barna breyst mikið síðustu 20 ár
„Það er eitt sem mig langar að koma inn á sem hefur mikið breyst síðan við opnuðum en það er vistunartími barna. Fyrst þegar við byrjuðum þá var skólinn tvísetinn fyrstu árin. Það var oft flókið og erfitt. Einu sinni vorum með yfir 130 skráð börn sem komu fyrir og eftir hádegi og svo kom svokallaður „skörunartími“ sem gat verið mjög flókinn,“ segir Bylgja.  

Opnun yfir sumartímann ekki góð hugmynd
„Við prófuðum einu sinni að koma til móts við þá sem vildu hafa opið yfir allt sumarið en það hentaði alls ekki vel, reynsla okkar var þannig að við myndum aldrei aftur vilja fara í það.“ Hulda segir það hafa bitnað mest á börnunum. 
„Og ég gleymi aldrei að það kom til mín móðir sem hafði verið hjá mér þegar ég vann sem kennari á Laut. Hún fór í frí í júní og kom með barnið á leikskólann í júlí og barnið hennar bara fraus við að koma inn á leikskólann. Það var ekki að koma inn á sína deild, kennarar þess barns voru í fríi. Þá sagðist sú móðir skilja hvað verið væri að meira með að hafa ekki opið í júlí. Raunin var síðan sú að það voru örfá börn hérna í júlí og þá er þetta ekki lengur skóli heldur gæsla. Við gátum bara verið með tvær deildir opnar af 4, því okkar starfsfólk þarf sitt sumarfrí. Þannig að þegar börn voru að koma úr sínu sumarfríi þá voru þau ekki að koma inn í það umhverfi sem þau þekktu. Þannig að börn þurftu oft aðra aðlögun. Þannig að þegar við fórum til baka, í að vera bara með alla í sumarfríi í júlí þá voru flest allir foreldrar ánægðir með það.“

Umræðan þarf líka að snúa að atvinnulífinu
Bylgja segir að alltaf komi þessi umræða upp og þá sé krafan á að leikskólinn bregðist við atvinnulífinu. En hún megi líka snúa í hina áttina. „Getur atvinnu-lífið ekki komið til móts við foreldra sem eru með ung börn , þú ert ekki  með ung börn alla þína starfsævi. Við viðurkennum það og foreldrar ungra barna fá að taka sumarfríið sitt þegar leikskólinn lokar. Það hentar börnunum best að þau fari öll í frí á sama tíma og að þetta hafi upphaf og endi alveg eins og annað skólastarf því þetta er líka skóli. 

Vistunartíminn hefur lengst 
„Það var erfitt að vera með hann tvísetinn en það er líka erfitt núna því börn eru núna í átta til átta og hálfan tíma á leikskóla. Þetta er langur tími fyrir ung börn. Við vorum mjög stoltar af því fyrir nokkrum árum þá gátum við sagt að um 40% barna færu af leikskólanum fyrir 14:00. Þannig var samfélagið hérna í Grindavík, en það hefur auðvitað breyst og við skiljum það svo sem. Það eru margir foreldrar núna sem vinna ekki í sveitarfélaginu. En þetta er umhugsunarvert í samfélaginu almennt.“

Stytting vinnuvikunnar
„Við teljum mikilvægt að stytta okkar vinnuviku en á meðan eru börnin ennþá í 40 stunda vinnuviku, en við viljum fá 36 stunda viku. Það er svo gott að hugsa þetta út frá því. Líka hugsa þetta úr frá því að rými barna á leikskóla sé of lítið. Börn eru 8 klukkustundir á dag inni í stofnun þar sem þú ert jafnvel ekki með nógu mikið pláss, það eru oft of mörg börn. En það er núna búið að setja markmið um að börn verði aðeins færri í hverju rými.“  
Fjölmörg þróunarverkefni hafa verið í vinnslu hjá þeim enda vilja þær ekki alltaf vera að gera það sama. „Við ígrundum vel og tölum mikið saman og hvort þær hugmyndir sem upp koma henti þeirri stefnu sem sé við lýði eða hvort þetta sé samkvæmt stefnunni. Gott dæmi er verkefnið Hjálparhendur. Allir skólarnir þrír hérna í Grindavík byrjuðu með það en hinir skólarnir hafa þó ekki haldið þessu markvisst við eins og við. Þetta er einfalt verkefni sem gengur út á samkennd.. Oft þegar nemendur okkar eru komnir í Hópsskóla þá fáum við spurningar frá kennurum þar hvað krakkarnir séu þá að gera því þau halda þessu áfram þótt þau séu búin með leikskólann. En svo hætta þau þessu.“ 

Hvernig virka hjálparhendur?
„Hjálparhendur virka þannig að ef ég lem þig og þú ferð að gráta þá kemur kennarinn og spyr hvað sé í gangi og þú útskýrir að ég hafi lamið þig, þá segir kennarinn „æj það var leiðinlegt, Hulda viltu koma og rétta henni hjálparhönd?“ En ég verð að vilja það og sá sem verður fyrir því verður að vilja það, og ef það er samþykki beggja aðila þá kemur viðkomandi og setur höndina undir og yfir þann stað sem viðkomandi meiddi sig á, báðir loka augunum og hugsa fallega til hvors annars. Það eru rannsóknir að baki þessarar aðferðar og þá er sýnt að viðkomandi aðilar eru ekki að fara upp á kant á næstunni þar sem búið er að mynda samband á milli sem er jákvætt og lýsir þessari samhyggð.”

Leikur barnanna mikilvægur
„Það hefur alltaf verið mjög sterk sýn á leik barnanna hjá okkur. Leikurinn er aðal námsleiðin, að þetta sé leikur á þeirra forsendum og við séum ekki alltaf að stýra og stjórna. Við erum búin að vera þróa hann í 20 ár og höfum verið að fara ýmsar leiðir í því og erum svo alltaf að skoða hvernig það er að ganga. Við vorum með val hjá eldri börnum, þar sem þau völdu með myndum en núna erum við komin í að þau fara bara sjálf á milli. Það gengur bara ótrúlega vel. Dagurinn er mikið leikur þar sem þau velja sér viðfangsefnið. Kennarar eru á svæðinu, en það eru alltaf ákveðin viðfangsefni í boði. Þetta er svokallað flæði, þar sem börn fara inn í leikinn og stjórna sér alveg og fá að þróa sinn leik eins og þau vilja. Við byrjuðum áður í hópastarfi og svona stýrðu vali en vorum ekki lengi í því. Þar sem sá síðasti hafði í raun ekkert val því það var bara eitthvað eitt eftir. Við erum búin að fara margar leiðir á leiðinni en erum núna komnar í þetta algjörlega frjálst val. Hræðslan var fyrst, fara þau þá ekki öll í kubbana? Eru þau þá ekki bara öll þar? En börn nenna því ekkert, þau nenna ekki að vera 20 saman á sama stað, þau eru svo flínk. Þau finna ef þau ná ekki að njóta sín. Þau gera þetta því bara sjálf og það er dásamlegt að fylgjast með því. Svo leyfum við byggingum að standa, eins og í kubbunum, það er ekkert „jæja allir ganga frá.“ Þannig að þau geta farið út að leika og komið svo inn og haldið áfram. Við erum oft að leyfa þeim að halda þessu út alla vikuna. Göngum ekkert frá fyrr en á föstudögum. Leyfum þessum stóra efnivið bara að vera.“

Leikskólastarf byggir á samskiptum
„Samskiptin eru regnhlífin okkar og svo kemur allt annað undir hana. Samskiptin eru svo mikilvæg. Við skoðuðum mjög margar stefnur í samskiptum, bæði innlendum og erlendum. Og þetta gerum við, við mátum okkur inn í stefnur og athugum hvort þær henti okkur. Velgengni okkar er mikið því að þakka hversu vel við ígrundum hvort hinar og þessar stefnur henti okkur eða ekki. Það skiptir nefnilega svo miklu máli að halda út. Að byrja bara ekki og hætta svo. Við ákváðum því að innleiða jóga því þar var sem margt sem hjálpaði börnunum. Kenna þeim að anda og slaka á. Við byrjuðum því á að vinna okkar stefnu út frá jógafræðum. Og nemendur okkar hafa verið að stunda jóga í mörg ár eftir það. Svo fórum við að skoða hversu vel við pössuðum upp á að vera heilsueflandi skóli og við tikkuðum í öll boxin. Meira að segja geðheilsuþátturinn sem er stærsti þátturinn, þar tikkuðum við 97% inn og það var út af Rósemd og umhyggju samskiptaverkefninu okkar. Við vorum oft að ræða félagslegan þátt en núna tölum við bara um geðrækt, sem þetta er náttúrulega og er svo ofboðslega mikilvægt.“ 

Lítil starfsmannavelta
„Við erum með frábæran starfsmannahóp og það er lítil starfsmannavelta hjá okkur, og hefur verið frá upphafi. Við erum búin að vera með ákveðinn kjarna sem hefur tryggt stöðugleika. Það skiptir okkur miklu máli. Hópurinn er mjög samstilltur, við hlökkum alltaf til að fara í vinnuna og fólki líður almennt vel. Í seinni tíð hefur verið hugað ennþá meira að starfsmannahópnum. Við erum með bókasafn hérna með sjálfsræktarbókum og hugum meira að því. Því öll starfsemin hvílir á starfsmannahópnum. Við erum líka búin að vera með frábæran foreldrahóp í gegnum tíðina og auðvitað yndisleg börn“ segja þær Hulda og Bylgja Kristín að lokum. 
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 1. desember 2021

Upptaka frá bćjarstjórnarfundi nr. 522

Fréttir / 30. nóvember 2021

Kaffihúsakvöld í Kvikunni

Grunnskólafréttir / 26. nóvember 2021

Upplýsingatćkni í 3.bekk

Fréttir / 23. nóvember 2021

Óskađ eftir frambođum í Ungmennaráđ

Fréttir / 16. nóvember 2021

Starfsfólk í heimaţjónustu

Fréttir / 23. nóvember 2021

Brautryđjendur í heilsustefnu leikskóla

Höfnin / 22. nóvember 2021

Met afli hjá Tómasi Ţorvaldssyni GK-10.

Fréttir / 21. nóvember 2021

Lokanir á Leikskólanum Laut

Fréttir / 18. nóvember 2021

D vítamín: Sólskin í skammdeginu

Fréttir / 18. nóvember 2021

Grindavík međ liđ í Krakkakviss