Menningarverðlaun Grindavíkur voru afhent í gær í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga. Verðlaunin á ár hlutu hönnunarhúsin Kristinsson og VIGT.
Kristinsson
Vignir Kristinsson er listamaður af guðs náð. Í vöggugjöf fékk hann handverkshendur sem hafa komið honum vel í gegnum tíðina. Vignir hefur þannig frá unga aldri haft ástríðu fyrir smíðum og fallegu handverki. Hann hefur smíðað sér til ánægju, unnið að vönduðum innréttingum og húsgögnum.
Fyrir um tveimur árum reisti Vignir sér verkstæði og sýningarrými í Grindavík. Í pakkhúsinu við Stamphólsveg má finna vörur sem hann hannar og smíðar undir vörumerkinu Kristinsson. Vörumerkið er í dag orðið landsþekkt og vörur hans eftirsóttar. Þær er að finna í helstu hönnunarverslunum á Íslandi.
Hreindýrin, hans þekktasta vara fóru í sölu fyrir um áratug en síðan þá hafa bæst við aðrir hlutir, m.a. leikföng úr við sem eru fallegri, endingarbetri og umhverfisvænni en önnur leikföng.
Að þessu sögðu telur frístunda- og menningarnefnd Vigni vel að verðlaununum kominn.
Hjónin Ólafía Jensdóttir og Vignir Kristinsson
VIGT
Mæðgurnar í VIGT hafa ólíka menntun og reynslu en sameina krafta sína við framleiðslu ýmissa muna til heimilisprýði.
Hulda Halldórsdóttir og dætur hennar þær Arna, Hrefna og Guðfinna Magnúsdætur hafa sennilega alla tíð haft áhuga fyrir sköpun og fallegum hlutum enda má með sanni segja að þær hafi lifað og hrærst í heimi innréttinga- og mannvirkjagerðar gegnum fjölskyludfyrirtækið Grindina.
Innblástur að vörunum sem mæðgurnar framleiða sækja þær í hvor aðra, uppruna þeirra og bakgrunn. Megnið af þeim vörum sem VIGT selur er framleiddur á verkstæði Grindarinnar. Vörurnar eru flestar framleiddar í Grindavík og þykja þær hvort tveggja vandaðar og eftirsóttar enda áhersla lögð á einfaldleika, gæði og réttsýni.
Frístunda- og menningarnefnd telur mæðgurnar í VIGT vel að verðlaununum kominn
Grindavíkurbær óskar aðstandendum Kristinsson og VIGT til hamingju með viðurkenningarnar. Um leið og við þökkum þeim fyrir þeirra framlag til menningarmála í Grindavík hlökkum við til að fylgjast með næstu skrefum þeirra.
Mæðgurnar í VIGT, f.v. Guðfinna Magnúsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir, Hulda Halldórsdóttir og Arna Magnúsdóttir
Verðlaun fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og/eða menningar
Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar eru veitt árlega til einstaklings, stofnunar eða samtaka sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og/eða menningar. Hlutverk verðlaunanna er m.a. að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.
Eftirtaldir hafa fengið menningarverðlaun Grindavíkurbæjar:
2010 Saltfisksetur Íslands í Grindavík og Ómar Smári Ármannsson
2011 Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir
2012 Þorbjörn hf.
2013 Einar Lárusson
2014 Halldór Lárusson (bæjarlistamaður)
2015 Harpa Pálsdóttir
2016 Helga Kristjánsdóttir (bæjarlistamaður)
2017 Minja- og sögufélag Grindavíkur
2018 Anna Sigríður Sigurjónsdóttir (bæjarlistamaður)
2019 Halla María Svansdóttir
2020 Kristín E. Pálsdóttir
2021 Kristinsson og VIGT
Menningarverðlaunum Grindavíkurbæjar 2021 var streymt í beinni útsendingu í gegnum YouTube vef bæjarins og má horfa á verðlaunaafhendinguna hér fyrir neðan.