Eins og alltaf er mikið um að vera hjá 1. bekk í Hópsskóla. Útikennsla er fastur liður á föstudögum og síðast var farið í heimsókn á fiskmarkaðinn og fengu nemendur að sjá nokkrar fiskitegundir. Undanfarna viku hefur verið unnið með bókina Ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur. Bráðskemmtileg bók sem lesin var í tengslum við Byrjendalæsið. Bókstafirnir Ff og Ii liggja þar til grundvallar ásamt ýmsum öðrum þáttum svo sem mismunandi fisktegundum. Á fiskmarkaðinum hitti eitt barnið líka afa sinn Pál Val Björnsson en hann var að kenna nemendum úr Fisktækniskólanum að flaka fisk. Skemmtileg vettvangsferð og vel viðeigandi í okkar bæ að fræðast um fiskana og fá að sjá t.d. tegundir eins og karfa, ýsu og þorsk. Það er alltaf jákvætt og þakkarvert þegar fyrirtæki bregðast vel við því að taka á móti nemendum úr skólanum.