Bæjarráð Grindavíkur ákvað á fundi sínum í gær að senda tvær nafnatillögur til örnefnanefndar til umsagnar. Um er að ræða Fagradalshraun og Fagrahraun. Gígaröðin sem mynast hefur eftir að eldgos hófst myndu bera sömu heiti, Fagradalsgígar og Fagrahraunsgígar eftir því hvort örnafnið verður fyrir valinu.
Grindavíkurbær óskaði í lok mars eftir tillögum frá almenningi að heitum á þessi nýju náttúrufyrirbæri innan sveitarfélagsins. Frestur til að skila inn tillögum var til og með 9. apríl.
Alls bárust 339 hugmyndir að heiti á hraunið. Þær hugmyndir sem oftast voru nefndar voru í stafrófsröð: Dalahraun, Fagradalshraun, Fagrahraun, Geldingadalahraun, Geldingahraun og Ísólfshraun.
Í ljósi þess að Dalahraun og Geldingahraun eru nú þegar að finna í nágrenni Fagradalsfjalls þykir bæjarráði hugmyndirnar ekki koma til greina. Þá þykir bæjarráði Geldingadalahraun vera of óþjált heiti á hraunið auk þess sem hraunið hefur dreift sér víðar en um Geldingadali. Þar sem ekki fundust ummerki um dys í Geldingadölum telur bæjarráð ekki rétt að kenna hraunið við Ísólf sem hvíla átti í Geldingadölum.
Með vísan til laga um örnefni nr. 22/2015 óskar bæjarráð Grindavíkurbæjar eftir umsögn Örnefnanefndar um eftirfarandi tillögur:
Fagradalshraun
Forliðurinn vísar til Fagradalsfjalls sem dregur nafn sitt af dal, vestan í fjallinu. Fagradalsfjall var og er eitt þekktasta örnefnið í nágrenni hraunsins. Þá vísar forliðurinn einnig til Fagradalsfjallskerfisins, eins af nokkrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Það hraun sem nú er leitað að heiti á rennur úr Fagradalsfjallskerfinu.
Gígaröðin sem hraunið rennur úr kæmi þá til með að fá heitið Fagradalsgígar.
Fagrahraun
Forliðurinn vísar til Fagradalsfjalls sem dregur nafn sitt af dal, vestan í fjallinu. Fagradalsfjall var og er eitt þekktasta örnefnið í nágrenni hraunsins. Þá kemur fram í innsendum rökstuðningi að heitið vísi til þess hversu margir hafi gengið að hrauninu þegar það rann til að berja fegurð þess augum.
Gígaröðin sem hraunið rennur úr kæmi þá til með að fá heitið Fögrugígar.
Mynd: Reykjanes Geopark/Visit Reykjanes