Brimketill: Myndir og fróđleikur

  • Fréttir
  • 20. apríl 2021

Á vef Víkurfrétta má finna umfjöllun um Brimketil sem tekin er saman af Grindvíkingnum Jóni Steinari Sæmundssyni. Hann á einnig myndirnar en Jón Steinar er fyrir löngu orðinn þekktur fyrir stórkostlegar myndir, hvort sem þær eru af náttúrunni á Reykjanesi eða bátaflotanum. Við deilum hér bæði fróðleik og myndum sem birtist fyrst á vef Víkurfrétta og síðar í útgefnu blaðinu:

Brimketill er laug í sjávarborðinu sem staðsett er vestast í Staðarbergi rétt vestan við Grindavík og er mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem fara um Reykjanesið.

Hvort sem maður kemur þarna við á sólríkum góðviðrisdegi þegar grjótmyndunin minnir einna helst á heitan pott eða þá þegar veður og sjólag er vont og brimið virðist öllu ætla að eyða, má sjá gífurlega fegurð í hvoru tveggja. Í öldunum má sjá hinar ýmsu myndir og ekki er ég frá því að maður sjái jafnvel andliti sjálfs Ægis konungs bregða þar fyrir.

Brimketill og katlarnir í nágrenni hans urðu til vegna stöðugs núnings brims við hraunklettana. Þar hefur ytra álag smátt og smátt mótað bolla og katla í basalthraunið.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum í nágrenni Brimketils má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þessi ferill brýtur bergið smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota sem aldan skellir á sjávarkletta og laust grjót – og auk þess frostveðrun þegar vatn í glufum þenst út við að harðna og jafnvel sandblástur.

Hraunið umhverfis Brimketil er gróft, sprungið og með háum, úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210–1240.


Deildu ţessari frétt