Um 350 tillögur bárust í samkeppni um nafn á hrauniđ

  • Fréttir
  • 16. apríl 2021

Um 350 tillögur bárust að nafni á nýja hraunið við Fagradalsfjall í örnefnasamkeppni sem Grindavíkurbær stóð fyrir dagana 31. mars til 9. apríl. Eitthvað færri tillögur bárust að nöfnum á gígana sjálfa.
Jafnframt því að stinga upp á nöfnum var fólk beðið um rökstyðja val sitt. Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar og þjóðfræðingur, sagði í samtali við RÚV, ætlunina að velja fallegt og þjált heiti sem hæfi staðháttum.  

Örnefnalistinn var lagður fram í bæjarráði í síðustu viku að sögn Eggerts. Bæjarráðið velur úr listanum og sendi örnefnanefnd tillögur. Eggert segir að margar áhugaverðar og skemmtilegar tillögur hafi borist og að gaman hafi verið að fara í gegnum listann. 

Samráð hefur verið haft við nefndina og nafnafræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Eins verður samráð haft við landeigendur á Hrauni og Ísólfsskála.        

Eggert upplýsir að fylgja beri ákveðnum verklagsreglum við val á örnefnum, til að mynda megi ekki nefna landslag eftir lifandi einstaklingum. Hann kveður tíðarandann hafa skinið í gegn í mörgum tillagnanna en þríeykið var nefnt ásamt nöfnum tengdum kórónuveirufaraldrinum.

Örnefni taka iðulega mið að staðháttum og eru lýsandi fyrir umhverfi sitt.  Gígar taka oft nöfn af hrauninu umhverfis þá eða öfugt sem er ekki ólíklegt að verði ofan á.

„Einhverjir nefndu sömuleiðis nafnið Góuhraun,“ segir Eggert en taka þarf tillit til nafnahefða, til dæmis hvaða hraun eru til í nágrenninu. „Geldingahraun er til í nágrenninu, sem væri þá ekki við hæfi til að komast hjá misskilningi“

Næsti fundur bæjarráðs er á þriðjudaginn klukkan 16 og þá býst Eggert við að örnefnanefnd fái þegar sent erindi. „Það er skemmtilegt að hafa samráð við almenning, og geta þá um leið vakið athygli á örnefnum í nágrenninu.“

Eggert segir að almenningur sé farinn að þekkja örnefni betur og gosið verði vonandi til þess að fólk kynni sér betur söguna að baki örnefnum víða um land.

Hann segir að sér finnist að allir Íslendingar eigi eitthvað í hrauninu. Hann kveðst jafnframt vonast til að ekki taki mjög langan tíma að komast að niðurstöðu um nöfn á nýja hrauninu og gígunum í Geldingadölum. 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir