Myndband: Nýir gígar mynduđust í morgun

  • Fréttir
  • 13. apríl 2021

Fleiri gígar opnuðust á gosstöðvunum í Geldingadölum í morgun. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, sagði í samtali við RÚV að þetta ætti ekki koma á óvart. „Það má búast við þessu. Svona þróun er ekki óeðlileg og á ekki að koma okkur á óvart,“ segir hann.

Myndefni fengum við frá Sigurjóni Veigari Þórðarsyni sem er í Björgunarsveitinni Þorbirni og var á staðnum þegar sprungurnar opnuðust og hraun fór að flæða úr nýjum gígum. 

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, var á svæðinu þegar gígarnir opnuðust. „Það var alveg magnað. Þessi opnun sem við sáum hvað best var innan hraunbreiðunnar sem fyrir var þannig að það var ekki þannig að landið væri að opnast heldur fór allt í einu að búbbla þarna upp úr,“ segir hún.

„Núna eru komnir þrír á milli elstu gíganna í Geldingadal og strýtunnar sem er þarna uppi á hálsinum og svo er allavega einn gígur þarna á milli tveggja miðjugíganna uppi á hálsinum,“ segir Ingibjörg.

„Virknin virðist hafa aukist. Fyrst urðum við vör við nýja gíginn sunnan við strýtuna og svo mjög fljótlega var ljóst að þetta voru tveir gígar. Svo tókum við eftir þriðja sem byrjaði skömmu síðar hinum megin við strýtuna og fyrir örfáum mínútum var að koma einn nýr í ljós sem er þá næstur elstu gígunum þarna ofan í Geldingadölum,“ segir Ingibjörg.

Hraunið úr nýju gígunum flæðir til suðurs og ekki inn í Meradali. „Það er að fara inn á hraunálmu sem kom þarna allra fyrstu dagana og hefur verið óvirk síðan. Það er núna komið suður fyrir elstu gígana í Geldingadölum og er að fylla þar upp í frekar hratt,“ segir hún.

 


Deildu ţessari frétt