„Þetta er bara Íslandsmet í utanvegaakstri," segir Hörður Sigurðsson á Hrauni en hann er einn landeigenda þar sem eldgosið er. Fram hefur komið eftir að eldgos byrjaði í Geldingadölum þann 19. mars sl. að ítrekað er ekið utan vegar í grennd við gosstöðvarnar. Hörður segir ömurlegt að horfa upp á landið verða fyrir þessum skemmdum og ef að fólk ætli á annað borð að fara á vélknúnum tækjum inn á svæðið þá sé lágmark að halda sér á vegslóðum sem fyrir séu. Að ósnortið land sé ekki skemmt. Bannað sé þó að fara á þessum tækjum inn á landið nema að fá leyfi landeigenda.
Umhverfisstofnun hefur gefið út að mest sé ekið í gegnum Meradali og inn í botn Nátthaga. Þar liggi slóðar og för eftir ökutæki sem ná langt út frá þeim vegum sem skráðir eru á svæðinu í aðalskipulag Grindavíkur. Jafnframt hafi ítrekað verið ekið út af þessum slóðum og farið nýjar leiðir - upp fjallshlíðar, dalbotna og hryggi, sem myndað hafi nýja slóða sem aðrir elta. Dæmi eru um að torfærutækjum hafi verið ekið frá Húsafjalli til norðausturs að Fagradalsfjalli, um 4 km leið yfir ósnortið hraun.
Umhverfisstofnun hefur verið í samskiptum við lögreglu og landeigendur vegna þessa en einhver hafa þegar endað með kæru til lögreglu og mun stofnunin vísa fleiri málum til lögreglu á grundvelli 31. greinar náttúruverndarlaga eftir því sem brotin verða fleiri.
Tekið skal fram að umferð ökutækja á þessum svæðum getur hindrað störf almannavarna og björgunarsveita og er akstur á slóðum sem liggja út frá Suðurstrandavegi óheimill fyrir aðra en viðbragðsaðila og vísindafólk.
Hörður ítrekar við þá sem vilja skoða gosstöðvarnar að virða landið, sérstaklega í ljósi þess að aðsóknin er jafn mikil og hún er. Best sé að ganga stikuðu leiðina sem búið er að merkja og hægt að nálgast út frá Suðurstrandavegi.