Öllum landsmönnum verður boðið á þorrablót Grindvíkinga í ár sem verður þó með öðru sniði líkt og annars staðar á landinu. Rafrænt blót UMFG fer fram laugardagskvöldið 20. febrúar næstkomandi og verður streymt frá Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga. Hægt verður að nálgast streymið á Facebook síðu Þorrablóts Grindvíkinga og Facebook síðu bæjarins.
Bóndadagurinn markar upphaf þorrans sem hófst 22. janúar síðastliðinn. Það er síðan góan sem tekur við þorranum á konudaginn sem er sunnudaginn 21. febrúar. Það má því ekki tæpara standa hjá okkur Grindvíkingum en rafrænt þorrablót fer fram á síðasta degi þorrans.
Fjölskipuð þorrablótsnefnd hefur undanfarin ár haft veg og vanda af skipulagningu mörg hundruð manna blóti sem farið hefur fram í íþróttamiðstöð Grindavíkur. Vegna samkomutakmarkana verður slíkt ekki í boði en í staðinn verður boðið upp á skemmtun í beinni. Nefndin hefur undanfarin misseri unnið að skipulagningu blótsins og fengið afnot af stóra sal Kvikunnar þar sem áður var saltfisksýningin Saltfiskur í sögu þjóðar, sem nú er komin á efri hæðina.
Í byrjun febrúar var hluti skemmtinefndar (karlmenn) að störfum og voru þeir Sigurður Þyrill Ingvason og Ingimar Waldorff teknir tali en viðtalið er í meðfylgjandi frétt.