Almenningur setiđ eftir hvađ varđar ađstöđu til líkamsrćktar 

  • Fréttir
  • 4. janúar 2021

Jón Júlíus Karlsson er 33 ára Grindvíkingur sem nýverið tók við nýju starfi, sem framkvæmdastjóri UMFG. Jón Júlíus segir það gott að vera kominn heim en hann var áður framkvæmdastjóri hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ. Hann vill aðstoða deildir innan UMFG við að taka skref áfram sem ein heild. Jón Júlíus var í viðtali í jólablaði Járngerðar sem kom út í desember. 

Jón Júlíus lauk háskólanámi árið 2015 og er með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann tók jafnframt eina önn í skiptinámi við háskólann í St. Andrews árið 2011.

Undanfarin þrjú ár hefur Jón Júlíus starfað sem framkæmdastjóri hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ, þar áður markaðsstjóri hjá Golfklúbbnum Oddi í 2 ár. Hann starfaði í nokkur ár sem fjölmiðlamaður hjá Stöð2, Rúv og Víkurfréttum.

„Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og útivist. Ágætur kylfingur og hef mikinn áhuga á golfíþróttinni. Barnlaus en í sambandi.

Hvernig leggst nýja starfið í þig?
„Nýja starfið leggst mjög vel í mig. Það er gott að vera kominn heim. Það hefur alltaf verið sterk taug heim til Grindavíkur þó ég hafi verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Ég á fjölskyldu hér heima og ég hef alltaf verið mjög stoltur af uppruna mínum í Grindavík.”

„Þetta er nýtt starf hjá UMFG að vera með einn framkvæmdastjóra fyrir allar deildir félagsins. Það er í mörg horn að líta og margt í starfi félagsins sem er framúrskarandi. Það er þó einnig margt sem má bæta og það er áskorun um að gera gott íþróttafélag enn betra.”

Hver eru þín helstu verkefni?
Verkefnin er mörg og ólík. Það er mikið líf í kringum íþróttafélagið og mörg verkefni í gangi á hverjum árstíma. Helsta verkefnið um þessar mundir hefur verið að koma vetrarstarfinu af stað og innleiða nýtt skráningakerfi í íþróttastarf félagsins. Við tókum inn hugbúnaðinn Sportabler fyrir allt félagið núna í haust sem við teljum að muni vera mikil lyftistöng fyrir félagið þegar fram líða stundir.

Eitt af mínum megin verkefnum er að halda utan um samstarf á milli deilda og berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir UMFG í heild sinni. 

Ég finn fyrir miklum áhuga hjá félaginu að móta framtíðarsýn íþróttasvæðisins til næstu ára og skipuleggja það í samræmi við þarfir deilda félagsins og væntanlegri íbúafjölgun. Það verkefni verður mjög spennandi þegar það kemst á skrið á nýju ári. 

Við erum með mjög góða aðstöðu að mörgu leyti í dag en samfélagið sem við búum í breytist hratt og þarfirnar með.
Mitt verkefni er ekki síst að aðstoða deildirnar við sitt starf og hjálpa því frábæra fólki sem kemur að starfinu hjá UMFG. Við erum heppin hvað margir eru tilbúnir að verja tíma sínum í starfið í kringum UMFG og þannig stuðla að bættum lífsgæðum í Grindavík.

Hver er munurinn að vera hjá Grindavík og Aftureldingu?
Þetta eru um margt ólík félög. Afturelding er fjölmennt íþróttafélag með ca. 1.500 iðkendur og 11 íþróttagreinar. Grindavík hefur færri iðkendur og færri deildir. Í grunninn eru þetta sömu markmið – að vera gott íþróttafélag fyrir samfélagið og bjóða okkar yngstu íbúum upp á frábæra þjónustu til að vaxa og dafna sem einstaklingar.

Grindavík setur kannski örlítið meiri fókus í afreksstarfið hjá sér og hefur náð frábærum árangri í hópíþróttum. Við Grindvíkingar erum mjög stolt af íþróttafélaginu okkar og viljum vera í fremstu röð. Sjálfboðaliðarnir hafa meira og minna rekið íþróttafélagið í Grindavík á meðan það hefur verið með strúktur í kringum stærri íþróttafélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem skrifstofa sér um daglegan rekstur hjá félaginu í samvinnu við stjórnir deilda/sjálfboðaliða. 

Þetta hefur gefist mjög vel hjá flestum félögum og í raun löngu tímabært að UMFG færi sig sambærilegan strúktúr.

Ég fann fyrir löngun til að leggja hönd á plóg og nýta mína þekkingu og reynslu til að hjálpa UMFG að taka skref áfram sem ein heild. 

Núna er hægt að horfa á leiki UMFG heima í stofu. Er þetta að þínu frumkvæði?
Ég fór af stað með sambærilegt verkefni hjá Aftureldingu fyrir nokkrum árum þar sem við fórum að sýna heimaleiki liðsins í öllum hópíþróttum. Við fundum fyrir því að þetta jók verulega á sýnileika okkar keppnisliða og áhuga.

Við fórum því af stað með sambærilegt verkefni hér í sumar þar sem við hófum að sýna leiki frá okkar liðum í knattspyrnunni. Þar spilaði líka inn í að vegna Covid hefur verið töluverð takmörkun á fjölda áhorfenda. 

Það er skemmst frá því að segja að þetta verkefni hefur gefið mjög góða raun og það hefur verið mjög gott áhorf á leiki liðanna. 

Auðvitað viljum við fyrst og fremst fá fólk til þess að mæta á völlinn og styðja við okkar lið en þetta gefur okkur tækifæri til að leyfa stuðningsmönnum, hvar sem þeir eru staddir í heiminum möguleika á að fylgjast með okkar frábæru liðum.

Hvað settirðu á oddinn þegar þú tókst við starfinu sl. vor?
Þegar ég hóf störf í maí byrjaði aðallega á því að kynna mér starfið hjá félaginu og kynnast á ný því góða fólki sem starfar hjá félaginu. Ég vildi gefa mér góðan tíma í að sjá starfsemi félagsins í heild sinni til að geta séð hvar þörf væri á að gera breytingar. Í kjölfarið höfum við verið að vinna í því að bæta innviði félagsins á mörgum sviðum. Þessi ósýnilegu verkefni sem efla félagið innan frá. Það eru nokkrir þættir sem við erum að efla innan skrifstofu félagsins sem munu nýtast öllu félaginu í heild sinni og gera okkar starf sýnilegra fyrir því fólki sem starfar fyrir félagið.

Eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég tók við var að koma nýrri heimasíðu í loftið og efla þannig upplýsingaflæði til okkar félagsmanna og íbúa. Við höfum líka reynt að vera meira lifandi á okkar samfélagsmiðlum og vera sýnileg. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að auðvelt sé að fá aðgengi að upplýsingum og vera þannig þátttkandandi í starfinu. 
 

Hverju myndirðu vilja breyta eða bæta?
Félagið stendur á góðum stað í heild sinni. Hér hefur farið fram mikil uppbygging á undanförum árum og býr UMFG við eina 
bestu íþróttaaðstöðu á landinu. Ég myndi gjarnan vilja nýta tækifærið núna til að fara í framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið í heild sinni og skipuleggja það til næstu 15-20 ára. 

Íbúabyggð er farin að þrengja örlítið að svæðinu og því skiptir máli hvernig við höldum áfram uppbyggingu á íþróttasvæðinu okkar. UMFG mun fara af stað af krafti í þessa vinnu núna í vetur.

Því sem ég tel nauðsynlegt að breyta í okkar umhverfi er aðstaða til líkamsræktar og styrktarþjálfunar. Bæði fyrir okkar íþróttamenn en ekki síst almenning. Það er mjög vel hlúð að yngri iðkendum til íþróttaiðkunar í Grindavík en mér finnst almenningur alveg hafa setið eftir hvað varðar aðstöðu til líkamsræktar. 

Ég held að bæjarfélagið og hagsmunaaðilar verði að horfa á þetta sem stórt sóknarfæri í að gera betur og bjóða Grindvíkingum upp á viðunandi aðstöðu til líkamsræktar. Öll vitum við hversu góð áhrif það hefur á líkamlega- og andlega heilsu að stunda reglulega líkamsrækt. Einnig hefur styrktarþjálfunaraðstaða fyrir okkar íþróttafólk svolítið setið eftir og úr því þarf að bæta. Ef ekki þá gætum við setið eftir þegar kemur að líkamlegum styrk sem vegur sífellt þyngra í afreksíþróttum.

Uppáhaldsíþróttamaður?
Minn eftirlætis íþróttamaður er Tiger Woods. Hef fylgst með honum frá því hann steig upp á stjörnuhiminn í golfinu fyrir rúmum tveimur áratugum. Sem stuðningsmaður Newcastle þá var Alan Shearer alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér á sínum tíma. Einstakur markaskorari.

Besti matur og drykkur?
Það er fátt sem toppar góða nautasteik! Uppáhaldsveitingastaðurinn er Tapas Barinn. Það er einhvern vegin allt gott sem þar er framreitt. Uppáhalds drykkur er einfaldlega vatn. Að drekka nóg vatn hefur svo góð áhrif á andlega heilsu og svefn.

Sjónvarpsþættir?
Ég er nýbyrjaður að horfa aftur á The Office (US) frá upphafi. Það er stórkostlegir þættir. Annars er ég líka einlægur aðdáandi Better Call Saul og Breaking Bad. Þarf líka reglulega að fá minn skammt af íþróttasjónvarspefni.

Bók?
Ég verð seint sakaður um að vera mikill lestrahestur og gef mér alltof sjaldan tíma til að lesa bækur. Er meira fyrir podköst og hljóðvörp af ýmsum toga. Finnst það gefa betri raun. Er núna að lesa Þorpið eftir Ragnar Jónasson. 

Eitthvað að lokum?
Verum dugleg að mæta á völlinn í vetur og næsta sumar og styðjum við okkar frábæru íþróttalið!


 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Höfnin / 23. febrúar 2021

Sandfell SU 75

Fréttir / 19. febrúar 2021

Skítur og lausaganga: Virđum reglurnar

Fréttir / 18. febrúar 2021

Nýtt geymslusvćđi viđ Eyjabakka

Grunnskólafréttir / 12. febrúar 2021

10.A vann spurningakeppnina

Fréttir / 11. febrúar 2021

Sjálfstyrkingarnámskeiđ fyrir stelpur

Höfnin / 8. febrúar 2021

Fljúgandi start í febrúar

Bókasafnsfréttir / 8. febrúar 2021

Vasaljósalestur